Þau þurfa þína hjálp

Þitt nafn bjargar lífi

Alþjóðleg herferð

Þitt nafn bjargar lífi er alþjóðleg herferð Amnesty Internati­onal. Taktu þátt og skrifaðu undir 9 áríð­andi mál einstak­linga sem beittir eru alvar­legum órétti. Þú getur lesið um öll málin hér fyrir neðan.

Hver undir­skrift skiptir máli!

58%
  • Undirskriftir 29.085
  • Markmið 50.000

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Sádi-Arabía

Ellefu ára fangelsi fyrir að styðja réttindi kvenna

Manahel al-Otaibi er líkamsræktarkennari og hugrökk talskona fyrir réttindum kvenna í Sádi-Arabíu. Í nóvember 2022 var hún handtekin eftir að hafa birt mynd af sér á Snapchat í verslunarmiðstöð. Á myndinni klæddist hún ekki abaya, sem er hefðbundinn kufl frá toppi til táar. Manahel var dæmd í 11 ára fangelsi.

Belarús

Fangelsuð fyrir að krefjast breytinga

Maryia Kalesnikava, pólitískur aðgerðasinni, þorði að bjóða kúgunarstjórn Belarús birginn. Henni var rænt 7. september 2020 af yfirvöldum í Belarús. Mariya var flutt að landamærunum en hún kom sér undan brottvísun með því að rífa vegabréf sitt í sundur. Hún var handtekin og síðar dæmd í 11 ára fangelsi á grundvelli falskra ákæra.

Tyrkland

Sakfelld fyrir að verja mannréttindi

Şebnem Korur Fincancı er réttarlæknir, baráttukona fyrir mannréttindum og háskólakennari sem hefur helgað líf sitt stöðvun pyndinga og verndun mannréttinda. Til að þagga niður í henni hefur hún sætt tilhæfulausum glæparannsóknum af hálfu tyrkneskra yfirvalda. Árið 2023 var hún sakfelld fyrir „að búa til áróður fyrir hryðjuverkjasamtök“ í kjölfar þess að hún kallaði eftir rannsókn á ásökunum um að tyrkneski herinn notaði efnavopn í Írak. Şebnem hefur áfrýjað dómnum en hún á yfir höfði sér tveggja ára fangelsi verði honum ekki hnekkt.

Angóla

TikTok-stjarna fangelsuð fyrir að gagnrýna forsetann

Ana da Silva Miguel, þekkt undir nafninu Neth Nahara, er söngkona og áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Í ágúst 2023 gagnrýndi hún forseta landsins, João Lourenço, á TikTok. Næsta dag var Neth handtekin. Í kjölfarið var réttað yfir henni, hún sakfelld og dæmd í sex mánaða fangelsi en dómurinn var síðar lengdur í tvö ár. Yfirvöld í Angóla beita umdeildum lögum sem gera það refsivert að gagnrýna forsetann í þeim tilgangi að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Egyptaland

Í haldi og pyndaður fyrir aðgerðastarf bróður síns

Oqba Hashad er 27 ára nemandi sem hefur verið í gæsluvarðhaldi í Egyptalandi frá í maí 2019 eingöngu vegna mannréttindastarfs bróður hans Amrs. Oqba sætti þvinguðu mannshvarfi (haldið í leyni af yfirvöldum) og pyndingum. Honum hefur einnig verið neitað um gervifót sem hann hefur notað frá því að hann lenti í slysi á barnsaldri. Hann hefur því þurft að reiða sig á aðstoð annarra fanga við daglegar athafnir. Honum er haldið við hræðilegar aðstæður án aðgengis að viðunandi heilbrigðisþjónustu. Egypsk yfirvöld hófu nýtt uppspunnið mál á hendur honum í þeim eina tilgangi að réttlæta áframhaldandi varðhald.

Suður-Kórea

„Við krefjumst heims þar sem enginn er jaðarsettur“

Kyung Seok Park er einarður aðgerðasinni fyrir réttindum fatlaðs fólks í Suður-Kóreu. Með friðsamlegum mótmælum í almenningssamgöngum í höfuðborginni Seúl hefur Kyung Seok Park vakið athygli á hversu óöruggt og erfitt aðgengi er að lestum og neðanjarðarlestum fyrir fatlað fólk sem hindrar getu þess til að ferðast til vinnu og skóla og lifa sjálfstæðu lífi. Kyung Seok Park hefur sætt lögregluofbeldi, opinberri ófrægingarherferð og málsóknum fyrir aðgerðastarf sitt.

Kanada

Berjast fyrir landi forfeðra sinna

Wet’suwet’en-þjóðin hefur djúp tengsl við land forfeðra sinna. Landinu stendur nú ógn af framkvæmdum vegna gasleiðslu sem fer þar í gegn. Höfðingjar gáfu ekki leyfi fyrir þessum framkvæmdum. Baráttufólk fyrir landsréttindum hefur verið ákært fyrir að hindra aðgengi að framkvæmdasvæði gasleiðslunnar þrátt fyrir að vera á sínu landsvæði. Baráttufólkið getur átt yfir höfði sér fangelsisvist og verið sett á sakaskrá.

Argentína

Blindaður með gúmmískoti á friðsamlegum mótmælum

Joel Paredes er 29 ára gamall faðir frá Jujuy-héraði í Argentínu. Joel mætti á mótmæli 30. júní 2023 sem beindust gegn breytingum stjórnvalda í héraðinu, meðal annars takmörkunum á réttinum til að koma saman friðsamlega og ráðstöfunum sem geta valdið umhverfisskaða og brotum á landsréttindum frumbyggja. Lögregla skaut gúmmískotum á mótmælendur. Joel varð fyrir skoti sem varð til þess að hann missti sjón á hægra auga og þarf að kljást við lamandi taugaverki. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar.

Ég vil lýsa innilegu, innilegu þakklæti. Ykkar skjótu aðgerðir, öll bréfin, áköllin, undirskriftirnar og sá gríðarlegi fjöldi bréfa sem fóru til dómstólsins og á skrifstofu saksóknara, allt þetta var mjög áhrifaríkt.

Rita Rita Karasartova - Þitt nafn bjargar lífi 2023
Rita er baráttu­kona fyrir mann­rétt­indum frá Kirgistan sem var handtekin árið 2022 ásamt hópi einstaklinga fyrir að kalla eftir mótmælum. Rita og allur hópurinn voru loks sýknuð í júní 2024.

Mér er svo létt og ég þakka ykkur fyrir stórkostlega herferð. Ég stend í ævarandi þakkarskuld við ykkur. Það er sem þungri byrði hafi verið létt af herðum mér. Mér leið eins og ég væri svo elskuð og mikils metin þegar ég las öll bréfin og kortin.

Cecillia Chimbiri - Þitt nafn bjargar lífi 2022
Cecillia Chimbiri frá Simbabve er ein þriggja vinkvenna sem var handtekin og ákærð í kjölfar þátttöku sinnar í mótmælum árið 2020. Hún var sýknuð í júlí 2023.

Í fjögur ár og tvo mánuði var ég fastur í martröð fangelsis. Fjögur ár og tveir mánuðir af sársauka, áhyggjum og óvissu. En þið í Amnesty International gáfuð mér von um frelsi og nú er ég frjáls.

Bernardo Caal Xol — Þitt nafn bjargar lífi 2021
Bernardo Caal Xol var leystur úr haldi eftir rúm fjögur ár í fangelsi í kjölfar herferðar okkar. Hann var samviskufangi sem var fangelsaður fyrir baráttu sína fyrir réttindum Maya-frum­byggja­sam­fé­lagsins Q’eqchi’ sem hann tilheyrir.

Ég vil þakka öllu fólkinu sem tók þátt í herferðinni og stóð með mér innan sem utan Egyptalands. Ég vil sérstaklega þakka Amnesty International, öllu starfsfólki og stuðningsfólki þess, þið voruð sólargeislarnir í myrkrinu. Þakkarorð geta ekki lýst þakklæti mínu til ykkar allra.

Ibrahim Ezz El-Din — Þitt nafn bjargar lífi 2019
Ibrahim Ezz El-Din, mann­rétt­inda­fröm­uður sem var samviskufangi, var leystur úr haldi í Egyptalandi þann 26. apríl 2022 eftir að hafa setið 34 mánuði í fang­elsi fyrir mann­rétt­inda­störf sín.

Þitt nafn bjargar lífi hefur virkilega jákvæð áhrif. Stuðningurinn hefur fengið mig, Germain Rukuki, til þess að vera enn ákveðnari í að verja mannréttindi eftir fangelsisvistina.

Germain Rukuki — Þitt nafn bjargar lífi 2020
Í apríl 2018 var Germain Rukuki, baráttu­maður fyrir mann­rétt­indum, fundinn sekur á grund­velli fjölda upplog­inna sakargifta og dæmdur í 32 ára fang­elsi. Germain fékk loks frelsi þann 30. júní 2021.

Þakka ykkur innilega, ég á engin orð. Þið vitið ekki hve hjarta mitt er barmafullt af hamingu.

Magai Matip Ngong — Þitt nafn bjargar lífi 2019
Þökk sé stuðningi frá fólki eins og þér var dauðadómurinn yfir Magai Matip Ngong felldur úr gildi í júlí 2020.

Víetnam

Í fangelsi fyrir að vernda umhverfið og mannréttindi

Umhverfismálalögfræðingurinn Dang Dinh Bach hefur helgað líf sitt verndun fólksins í Víetnam gegn áhrifum mengunar og loftslagsbreytinga. Bach var handtekinn 24. júní 2021 og færður í fangelsi fyrir meint skattsvik, aðferð sem víetnömsk yfirvöld beita til að þagga niður í umhverfisaðgerðasinnum. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.

Þitt nafn bjargar lífi

Undirskriftasöfnun víða um land

Árið 2001 var herferð­inni Þitt nafn bjargar lífi ýtt úr vör af aðgerða­sinnum í Varsjá í Póllandi ári. Síðan þá hefur herferðin vaxið jafnt og þétt og raun­veru­legar breyt­ingar á lífi fólks eiga sér stað á hverju ári. Í gegnum tíðina hefur tekist að umbreyta lífi rúmlega 100 þolenda.

Án aðgerða­sinna eins og þín sem lætur sig varða líf þeirra sem beittir eru grófu misrétti næðum við ekki árangri í barátt­unni gegn mann­rétt­inda­brotum.

Á Íslandi hafa undir­skrifta­safn­anir farið fram víðs vegar um landið, á bóka­söfnun, kaffi­húsum, vinnu­stöðum og í skólum með frábærum árangri.

Þú getur tekið þátt á þeim stöðum sem næstir þér eru og auglýstir eru hér.

Segðu vinum og fjöl­skyldu frá undir­skrifta­söfn­un­inni og með þinni hjálp getuherferðin orðið enn sýni­legri

Skrá mig sem skipuleggjanda