Íran

Eftir írönsku bylt­inguna árið 1979 lögðu írönsk stjórn­völd grunninn að þeirri kúgun­ar­stjórn sem er enn við lýði. Þá voru sett lög sem takmörkuðu tján­ingar-, félaga- og funda­frelsið með ýmsum hætti. Í kjölfar umdeildra kosn­inga árið 2009 hertu stjórn­völd enn frekar tökin. Þúsundir einstak­linga voru hand­teknir eftir kosn­ing­arnar og margir ákærðir og fang­els­aðir. Aðrir flúðu land eða hættu að tjá sig.

Miklar vonir voru bundnar við nýjan forseta, Hassan Rouhani, sem var kosinn árið 2013 vegna loforða hans um aukið frelsi. Raunin varð önnur þar sem fjöldi fólks hefur sætt fang­elsis­vist, eftir­liti, yfir­heyrslu og langvar­andi málsóknum og þannig þvingað til sjálfs­rit­skoð­unar.

Aukin harka gegn gagnrýni

Það hefur lengi verið hættu­legt að tjá skoð­anir sínar í Íran. Hættan á hand­töku hefur lengi fylgt einstak­lingum sem þora að tjá skoð­anir sem eru í óþökk stjórn­valda. Ákærur á hendur þeim tengjast oftast brotum gegn þjóðarör­yggi. Skil­grein­ingar á þessum brotum eru allt of víðtækar og óljósar og gefa yfir­völdum færi á að beita þeim að geðþótta. Flest þessi brot stangast á við alþjóðalög um hvað telst vera glæpur.

Undan­farin ár hefur aukinni hörku verið beitt gegn þeim sem eru hand­teknir fyrir að tjá sig frið­sam­lega. Dómarnir hafa þyngst og minna tilefni þarf til að fá á sig ákæru á borð við „brot gegn þjóðarör­yggi“. Sem dæmi má nefna hafa viðtöl við erlendan fjöl­miðil um stöðu mann­rétt­inda eða þátt­taka  í umræðum um mann­rétt­indi á samfé­lags­miðlum eins og Face­book verið notuð sem sönnun um glæp­sam­legt athæfi. Fjöl­skyldu­með­limir geta einnig átt á hættu að sæta yfir­heyrslum og áreitni yfir­valda.

Yfir­völd herja einnig gegn þeim sem gagn­rýna stjórn­völd með mynd­birt­ingum og rógburði á netinu þar sem einstak­lingar eru kall­aðir föður­lands­svik­arar og útsend­arar erlendra afla sem ógna þjóðarör­yggi og menn­ing­ar­legum gildum.

Árið 2019 voru að minnsta kosti 240 mann­rétt­inda­fröm­uðir hand­teknir, þeirra á meðal fjöl­miðla­fólk, stjórn­ar­and­stæð­ingar, lögfræð­ingar, umhverf­is­vernd­arsinnar, aðgerða­sinnar gegn dauðarefs­ing­unni og baráttu­fólk fyrir rétt­indum kvenna, verka­fólks og minni­hluta­hópa.

Barátta fyrir rétt­indum kvenna er talin vera „samsæri gegn þjóðarör­yggi“.

Fjöl­margar konur hafa verið hand­teknar fyrir að mótmæla löggjöf um höfuðslæðu sem þvingar konur til að ganga með höfuðslæðu á almanna­færi. Ein af þeim er Yasaman Aryani sem var upphaf­lega dæmd í 16 ára fang­elsi fyrir gjörning á baráttu­degi kvenna í mars 2019 þar sem hún dreifði blómum og talaði um vonir sínar um frelsi kvenna til að velja hverju þær klæðast. Eftir að mynd­band af gjörn­ingi hennar fór á flug var hún hand­tekin. Móðir hennar sem var með henni var einnig dæmd í fang­elsi. Saba Kordafs­hari, 21 árs baráttu­kona fyrir mann­rétt­indum, var dæmd í 24 ára fang­elsi m.a. fyrir mótmæli gegn írönskum lögum um höfuðslæðu.

Fjölmiðlafrelsi

Fjöl­miðla­frelsi hefur lengi verið takmarkað í Íran og í kjölfar kosn­ing­anna árið 2009 var reynt að bæla niður allt andóf með enn frekari takmörk­unum. Fjöldi fjöl­miðla­fólks var hand­tekinn og fang­els­aður, lokað var á útgáfu ýmiss efnis og frétta­flutn­ings. Í janúar 2010 bönnuðu írönsk yfir­völd samskipti við 60 erlenda fjöl­miðla og samtök, þar á meðal BBC.

Stjórn­völd hafa einnig beitt leiðum eins og ritskoðun fjöl­miðla, truflun á útsend­ingu erlendra gervi­hnatta­stöðva og lokun á Face­book, Telegram, Twitter og YouTube. Insta­gram-notendur með marga fylgj­endur, eins og tónlistar­fólk, hafa verið yfir­heyrðir og í sumum tilfellum hand­teknir. Yfir­völd hafa tekið yfir reikning sumra þeirra.

Fjöl­miðla­fólk er fang­elsað fyrir störf sín með beit­ingu óljósra ákvæða í lögum á borð við „útbreiðslu lyga“, „dreif­ingu áróðurs gegn stjórn­kerfinu“ og „móðgun við ríkis­starfs­menn“.

Fjöl­miðla­konan Marzieh Amiri var hand­tekin þegar hún fjallaði um kröfu­göngu á alþjóð­lega verka­lýðs­deg­inum í maí 2019. Hún var ákærð fyrir „dreif­ingu áróðurs gegn stjórn­kerfinu“ og dæmd í rúmlega tíu ára fang­elsi auk 148 svipu­högga en dómur var mild­aður í fimm ár við áfrýjun.

Funda-og félagafrelsi

Fundafrelsi

Funda­frelsi er skert í Íran og það þarf hugrekki til að mæta á friðsöm mótmæli þar sem stjórn­völd bregðast harka­lega við. Þrátt fyrir það hefur fjöldi mótmæla átt sér stað undan­farin ár. Árið 2018 voru 7.0000 einstak­lingar hand­teknir fyrir andóf gegn stjórn­völdum í tengslum við mótmæli. Á meðal þeirra voru mótmæl­endur, fjöl­miðla­fólk, umhverf­is­vernd­arsinnar og mann­rétt­inda­fröm­uðir. Hundruð voru dæmd í fang­elsi eða til hýðingar og 26 mótmæl­endur voru myrtir. Níu einstak­lingar sem voru hand­teknir fyrir mótmæli létu lífið í varð­haldi við grun­sam­legar aðstæður.

Ein harka­leg­ustu viðbrögð stjórn­valda við mótmælum voru dagana 15.-18. nóvember 2019 í mótmælum gegn olíu­hækk­unum sem fram fóru um land allt. Örygg­is­sveitir beittu óhóf­legu valdi til að brjóta á bak mótmælin. 304 mótmæl­endur féllu fyrir hendi örygg­is­sveita, þar af 23 börn. Skotsár var algeng dánar­orsök. Þúsundir mótmæl­enda voru hand­teknir að geðþótta. Sumir þeirra sættu þvinguðu manns­hvarfi, pynd­ingum og annarri illri meðferð. Stjórn­völd lokuðu einnig nánast algjör­lega fyrir netið á meðan mótmælin stóðu yfir til að koma í veg fyrir að fólk myndi deila myndum og mynd­böndum af ofbeldi örygg­is­sveita.

Írönsk stjórn­völd reyna að auka enn á óttann til að koma í veg fyrir frekari mótmæli í versn­andi póli­tísku og efna­hags­legu ástandi með beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar. Rouhollah Zam, ritstjóri AmadNews vinsæls netmiðils, var hand­tekinn í október 2019 og ásak­aður um að hvetja til mótmæla tveimur árum áður. Ríkis­sjón­varpið í Íran birti í kjöl­farið „játn­ingu“ hans í áróð­urs­mynd­bandi. Í lok júní 2020 var tilkynnt að Rouhollah hefði verið dæmdur til dauða fyrir „dreif­ingu spill­ingar í heim­inum“.

Félagafrelsi

Verka­lýðs­félög eru bönnuð í Íran en þrátt fyrir það hefur verka­fólk stofnað slík félög. Baráttu­fólk fyrir bættum kjörum hefur verið rekið úr starfi eða þvingað á eftir­laun, sætt ofbeldi lögreglu, hand­tekið að geðþótta, sætt varð­haldi, pynd­ingum og annarri illri meðferð og fengið langa fang­els­is­dóma fyrir að „brjóta gegn þjóðarör­yggi“. Þátt­taka í kröfu­göngu á verka­lýðs­dögum og boð á alþjóð­legar ráðstefnur fyrir verka­lýðs­félög hafa verið notuð sem sönn­un­ar­gögn gegn þeim í rétt­ar­höldum. Mehran Raoof var hand­tekinn í október 2020 fyrir baráttu sína fyrir rétt­indum verka­fólks. Sjá ákall hér.

Mann­rétt­inda­miðuð samtök og samtök sem eru gagn­rýnin á stjórn­völd hafa verið bönnuð frá árinu 2009. Þá var öllum slíkum samtökum lokað og þeim neitað um skrán­ingu eða starfs­leyfi. Fjöldi stofn­enda og meðlima var hand­tekinn og dæmdur í fang­elsi.

Baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum hefur því ekki lengur samtök á bak við sig. Það berst oft sjálf­stætt eða sem hluti af óform­legum hópi. Samfé­lags­miðlar og samskipta­forrit eru því mikilvæg fyrir samskipti og skipu­lagn­ingu. Yfir­völd hafa í auknum mæli notað færslur á samfé­lags­miðlum sem sönnun um glæp­sam­legt athæfi.

Einnig er brot­legt að ræða um stöðu mann­rétt­inda við frjáls félaga­samtök eins og Amnesty Internati­onal.

Arash Sadeghi var dæmdur í 19 ára fang­elsi fyrir brot gegn þjóðarör­yggi vegna mann­rétt­ind­astarfa hans og eitt af því sem var notað gegn honum voru samskipti hans við Amnesty Internati­onal. Önnur sönn­un­ar­gögn gegn honum voru fjöl­miðla­viðtöl við hann og færslur hans á Face­book um mann­rétt­inda­brot. Rétt­ar­höld yfir Arash voru ósann­gjörn og stóðu yfir í samtals 30 mínútur.

Tengt efni