Leynilegar fangabúðir í Kína

Slitinn frá fjölskyldu sinni

Yiliyasijiang Reheman og kona hans Mair­in­isha Abuduaini áttu von á öðru barni sínu þegar hans var saknað. Ungu hjónin voru að byggja upp framtíð sína, stunduðu háskólanám í Egyptalandi  og fjöl­skyldan fór stækk­andi.

Líf þeirra var lagt í rúst þegar Kína þrýsti á egypsk stjórn­völd að safna saman hundruðum Úígúra í landinu, en Úígúrar eru múslimskur minni­hluta­hópur sem býr á sjálf­stjórn­ar­svæði í Xinjiang í Kína, og senda suma þeirra aftur til Kína. Yiliyasijiang var í þessum hópi.

Þremur vikum seinna fæddi Mair­in­isha barn þeirra ein. Hún var aðeins 19 ára gömul. Frá árinu 2017 hefur hún leitað að eigin­manni sínum og heldur enn fast í vonina um að fjöl­skylda þeirra sameinist á ný.

Mair­in­isha, sem býr nú í Tyrklandi, hefur frétt í gegnum vini að Yiliyasijiang hafi  verið sendur aftur til Xinjiang. Hana grunar að hann sé í leyni­legum búðum þar sem Úígúrar eru heila­þvegnir af áróðri kínverskra stjórn­valda.

Allt að ein milljón múslima hefur verið slitin frá fjöl­skyldu sinni og haldið í þessum búðum frá árinu 2017. Sterk hreyfing fólks um heim allan hefur risið upp til að bregðast við þessu órétt­læti. Mair­in­isha á sér aðeins eina ósk: að eigin­maður hennar snúi aftur heill á húfi til hennar og barna þeirra. „Það á að leysa eigin­mann minn úr haldi eins fljótt og hægt er,“ segir hún. „Börnin okkar þurfa á föður sínum að halda. Ég gefst ekki upp fyrr en við höfum sameinast á ný.“

Skrifaðu undir bréfið og krefstu þess að kínversk stjórn­völd leysi Yiliyasijiang strax úr haldi.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Tyrkland

Ákærð fyrir að fagna réttindum hinsegin fólks

Melike Balkan og Özgür Gür hafa helgað sig baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Réttað er yfir þeim ásamt öðrum fyrir að mótmæla banni við gleðigöngu á háskólalóð þeirra.

Mjanmar

Fangavist fyrir að yrkja ljóð um herinn

Paing Phyo Min er meðlimur í Peacock Generation-leikhópnum. Leikhópurinn gerði grín að hernum og voru meðlimir hans handteknir í maí 2019. Paing Phyo Min var dæmdur í sex ára fangelsi.

Búrúndí

Fangelsi Í 32 ár fyrir mannréttindabaráttu

Germain Rukuku er mannréttindafrömuður og faðir þriggja drengja. Hann var dæmdur til að dúsa í fangelsi í 32 ár vegna upploginna sakargifta og meingallaðra réttarhalda.

Sádi-Arabía

Fangelsuð fyrir kvenréttindabaráttu

Nassima var handtekin í júlí 2018. Hún barðist fyrir frelsi kvenna í Sádi-Arabíu. Baráttan leiddi til þess að hún var sjálf svipt frelsi og sætti pyndingum í varðhaldi.

Kólumbía

Hótað lífláti fyrir að vernda Amazonsvæðið

Jani Silva fæddist í hjarta Amazon-svæðisins í Kólumbíu og hefur helgað líf sitt verndun skóga og sjálfbærri þróun. Fyrir vikið hefur henni verið veitt eftirför, ógnað af óþekktum árásarmönnum og hótað lífláti.

Pakistan

Numinn á brott fyrir að fletta ofan af mannshvörfum

Idris Khattak er sérfræðingur um þvinguð mannshvörf í Pakistan. Í nóvember 2019 hvarf Idris sjálfur. Yfirvöld viðurkenndu að lokum að Idris væri í haldi þeirra og að hann yrði ákærður.

Suður-Afríka

Sækja verður morðingjana til saka

Popi Qwabe og Bongeka Phungula voru skotnar til bana. Fjölskyldur þeirra leita svara en hafa orðið fyrir vonbrigðum með rannsókn lögreglunnar sem hefur ekkert miðað áfram á síðustu þremur árum.

Alsír

Tíu ára fangelsisdómur fyrir fréttamennsku

Khaled Drareni starfar sem blaðamaður í Alsír. Hann fjallaði um Hirak-mótmælahreyfinguna og komst í ónáð hjá yfirvöldum. Khaled á tíu ára fangelsisdóm yfir höfði sér.