Fréttir

31. janúar 2023

Ísland: Binda verður enda á misbeit­ingu einangr­un­ar­vistar án tafar

Ísland beitir einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi óhóf­lega og brýtur þannig m.a. gegn  samn­ingi Sameinuðu þjóð­anna gegn pynd­ingum og annarri grimmi­legri, ómann­legri eða vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu með alvar­legum afleið­ingum fyrir sakborn­inga og rétt þeirra til sann­gjarnra rétt­ar­halda. Þetta eru niður­stöður nýrrar skýrslu Amnesty Internati­onal, „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“.

  • Einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi er beitt óhóf­lega á Íslandi.
  • Einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi hefur verið beitt gegn börnum og einstak­lingum með fötlun og geðrask­anir.
  • Dæmi eru um að grun­aðir einstak­lingar hafi sætt einangrun í gæslu­varð­haldi í tæpa tvo mánuði. Það er skýrt mann­rétt­inda­brot.

 

Skorað er á íslensk stjórn­völd, sem nú gegna formennsku í Evrópu­ráðinu, að skuld­binda sig til að koma á mikil­vægum og tafar­lausum umbótum.

Óhófleg beiting

Árið 2021 sættu sex af hverjum tíu allra gæslu­varð­halds­fanga einangr­un­ar­vist á Íslandi.

„Íslensk stjórn­völd hafa um árabil verið meðvituð um óhóf­lega beit­ingu einangr­un­ar­vistar hér á landi og skað­semi hennar. Engu að síður voru að meðal­tali rúmlega 80 einstak­lingar ár hvert, frá 2012 til 2021, þeirra á meðal börn og einstak­lingar með þroska­hömlun, læstir einir í klefum í rúmlega 22 klukku­stundir á sólar­hring.“ 

Simon Crowther, lögfræð­ingur hjá alþjóða­skrif­stofu Amnesty Internati­onal.

Enda þótt einangr­un­ar­vist sé ekki með öllu bönnuð samkvæmt alþjóða­lögum þá kveða þau á um að beiting hennar skuli heyra til algjörra undan­tekn­inga, hún skuli vara í sem skemmstan tíma og ávallt vera háð ströngum skil­yrðum. Engin þessara atriða eru virt á Íslandi þar sem kröfur lögreglu um einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi eru nánast ávallt samþykktar af dómurum. Samkvæmt rann­sókn Amnesty Internati­onal samþykktu dómarar kröfur ákæru­valdsins um einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi í 99% tilvika á árunum 2016 til 2018. Rann­sókn Amnesty Internati­onal gefur til kynna að lítið hafi breyst frá árinu 2018.

Í skýrslu Amnesty Internati­onal kemur fram að enda þótt hið illræmda Guðmundar- og Geirfinnsmál hafi leitt til breyttrar stefnu um beit­ingu einangr­un­ar­vist­unar til lengri tíma í gæslu­varð­haldi hér á landi, þá hafa ekki nægar úrbætur átt sér stað. Á tíu ára tíma­bili, frá 2012 til 2021, sættu 99 einstak­lingar langvar­andi einangr­un­ar­vist þ.e. lengur en í 15 daga. Það er skýrt brot á alþjóð­legu banni gegn pynd­ingum og annarri grimmi­legri, ómann­legri eða vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu.

„Stjórn­völd verða að horfast í augu við stað­reyndir. Íslensk stjórn­völd brjóta gegn alþjóð­legum skuld­bind­ingum sínum á sama tíma og Ísland gegnir formennsku stofn­unar sem ber ábyrgð á að koma í veg fyrir og útrýma pynd­ingum í Evrópu. Ísland verður að gera mark­tækar breyt­ingar til að sporna gegn pynd­ingum og annarri ómann­legri eða vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu.“

Simon Crowther, lögfræð­ingur hjá alþjóða­skrif­stofu Amnesty Internati­onal.

Réttlæting á beitingu

Megin rétt­læting yfir­valda á beit­ingu einangr­un­ar­vistar í gæslu­varð­haldi er verndun rann­sókn­ar­hags­muna. Amnesty Internati­onal lítur svo á að aldrei skuli beita einangr­un­ar­vist til þess eins að vernda rann­sókn­ar­hags­muni lögreglu enda stríðir það gegn alþjóð­legri mann­rétt­inda­lög­gjöf um nauðsyn og meðalhóf. Önnur og vægari úrræði eru tiltæk til að gæta rann­sókn­ar­hags­muna, eins og að aðskilja gæslu­varð­halds­fanga frá tilteknum einstak­lingum og takmarka síma­notkun.

Lögfræð­ingar sem Amnesty Internati­onal ræddi við sögðu að skaðleg áhrif einangr­un­ar­vistar á skjól­stæð­inga sína væru skýr: „Það er augljóst að lögregla beitir einangrun til að setja þrýsting á grunaða einstak­linga og ná því fram sem hún ætlar sér.“

Erfitt er að ákvarða með fullri vissu hvort lögregla og saksókn­arar beiti einangr­un­ar­vist vísvit­andi í þeim tilgangi að beita þrýst­ingi. Það er hins vegar enginn vafi á því að einangr­un­ar­vist skapar ákveðinn þrýsting. Ef einangr­un­ar­vist er beitt í þeim eina tilgangi að ná fram upplýs­ingum eða játn­ingu telst það til pynd­inga og annarrar grimmi­legrar meðferðar.

Börn og fólk með fötlun

Skortur er á varnöglum til verndar börnum og einstak­lingum í viðkvæmri stöðu sem eru í mikilli hættu á að bera skaða af einangr­un­ar­vist, s.s. einstak­lingar með líkam­lega fötlun, geðrask­anir eða þroska­hömlun. Þetta á einnig við um einstak­linga með sumar tauga­þrosk­arask­anir.

Viðtöl rann­sak­enda Amnesty Internati­onal við lögfræð­inga og gæslu­varð­halds­fanga sýndu fram á fjölda tilfella þar sem einangr­un­ar­vist var beitt gegn einstak­lingum þrátt fyrir mikla hættu á skaða. Það gengur í berhögg við alþjóð­legar skuld­bind­ingar Íslands. Einn lögfræð­ingur upplýsti samtökin um að skjól­stæð­ingur hans hafi verið svo þjáður að „honum voru gefin lyf til að róa hann“.

Fyrrum gæslu­varð­halds­fangi sem sat í einangrun sagði eftir­far­andi: „Ég er með áráttu- og þráhyggjuröskun og það er mjög erfitt fyrir mig að vera einn með hugs­unum mínum… ég held að enginn [í geðheilsu­teyminu] viti að ég sé með þetta.“

Í samræmi við alþjóð­legt bann gegn pynd­ingum og annarri illri meðferð ætti aldrei að hafa fólk í viðkvæmri stöðu í einangr­un­ar­vist, svo sem fólk með fötlun, geðrask­anir eða tauga­þrosk­arask­anir, þar sem einkenni gætu versnað við einangrun sem er því líkleg til að valda skaða.

Á árunum 2012 til 2021 hafa tíu börn sætt einangrun í gæslu­varð­haldi á Íslandi. Þegar einangr­un­ar­vist er beitt gegn börnum brjóta íslensk stjórn­völd gegn alþjóð­legu banni við pynd­ingum og annarri grimmi­legri, ómann­legri eða vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu.

Áhrif einangrunarvistar

Fjöldi rann­sókna bendir til þess að einangr­un­ar­vist hafi alvarleg heilsu­farsáhrif, bæði líkamleg og andleg. Einkenni fela m.a. í sér svefn­leysi, rugling, ofsjónir og geðrof. Neikvæð heilsu­farsáhrif geta komið í ljós eftir aðeins örfáa daga í einangrun. Sjálfs­vígs­hætta og sjálfsskaði eykst á fyrstu tveimur vikum einangr­un­ar­vistar. Hætta á heilsutjóni eykst með degi hverjum í einangrun.

„Íslands­deild Amnesty Internati­onal er gríð­ar­lega stolt af þeirri vinnu sem deildin hefur lagt í gerð þess­arar skýrslu. Það er mikil­vægt að horft sé gagn­rýnum augum á stöðu mann­rétt­inda­mála hér á landi. Niður­stöður skýrsl­unnar eru sláandi og mikil­vægt að íslensk stjórn­völd taki tilmælum Amnesty Internati­onal alvar­lega. Íslensk stjórn­völd eru ekki undan­skilin skoðun og gagn­rýni, sérstak­lega ekki þegar kemur að því hvernig komið er fram við fólk í viðkvæmri stöðu.“

Anna Lúðvíks­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal.

„Misbeiting einangr­un­ar­vistar er gríð­ar­lega umfangs­mikil á Íslandi, meðal annars á börnum og einstak­lingum með fötlun. Íslensk stjórn­völd verða að tryggja viðeig­andi úrbætur á hegn­ing­ar­lögum og að bæta menn­inguna í rétt­ar­kerfinu til að binda enda á mann­rétt­inda­brot. Til eru önnur úrræði sem ætti að beita frekar“,

Simon Crowther, lögfræð­ingur hjá alþjóða­skrif­stofu Amnesty Internati­onal.

Amnesty Internati­onal fagnar þeirri vinnu sem hafin er hjá stjórn­völdum við endur­skoðun á lögum um meðferð saka­mála, sérstak­lega er varðar beit­ingu einangr­un­ar­vistar barna. Um leið hvetja samtökin stjórn­völd að standa við alþjóð­legar mann­rétt­inda­skuld­bind­ingar sínar og tryggja að hætt verði að beita einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi eingöngu á grund­velli rann­sókn­ar­hags­muna.

Nöfn viðmæl­enda í rann­sókn Amnesty Internati­onal er hvorki getið í skýrsl­unni né frétta­til­kynn­ing­unni.

Lestu einnig