
Hvað eru mannréttindi?
Mannréttindi eru grundvallarréttindi okkar allra. Þau eru okkar óháð því hver við erum, hvar við búum, á hvað við trúum eða hvernig lífi við veljum okkur að lifa.
Það er aldrei hægt að taka mannréttindi frá okkur en þó eru sum þeirra takmörkum sett, eins og til dæmis ef lög eru brotin eða í þágu þjóðaröryggis. Þessi réttindi og frelsi byggjast á gildum eins og mannlegri reisn, sanngirni, jafnrétti, virðingu og sjálfstæði. Mannréttindi eru ekki einungis hugtak heldur eru þau skilgreind og vernduð samkvæmt lögum.
Það eru nokkur grundvallaratriði sem ber að hafa í huga um mannréttindi og alþjóðasamfélagið hefur einnig samþykkt. Mannréttindi eru:
Algild: Þau tilheyra hverri og einni manneskju.
Óafsalanleg: Það er ekki hægt að taka þau frá nokkurri manneskju.
Ódeilanleg og samtvinnuð: Stjórnvöld eiga ekki að geta valið hvaða réttindi þau virða og hvaða réttindi þau virða að vettugi. Mannréttindi eru samtvinnuð og hafa áhrif hvert á annað.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
Eftir grimmdarverk seinni heimstyrjaldarinnar kom 51 ríki heims saman og stofnaði Sameinuðu þjóðirnar með það að markmiði að koma í veg fyrir að hryllingur stríðsins myndi endurtaka sig og stuðla að friði með því að efla alþjóðlegt samstarf og öryggi í heiminum. Eitt af fyrstu verkefnum Sameinuðu þjóðanna var að sameinast grundvallarréttindi hverrar manneskju, skilgreina þau og vernda í sameiginlegu skjali.
Þann 10. desember árið 1948 var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þó svo að yfirlýsingin sé ekki lagalega bindandi hefur hún gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í þróun alþjóðlegra mannréttindakerfa og sem undanfari annarra mannréttindasáttmála. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er mest þýdda skjalið í sögu veraldar en hún hefur verið þýdd á yfir 300 tungumál og mállýskur.
Samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er sérhver manneskja borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum. Yfirlýsingin „kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“ Hún samanstendur af 30 grundvallarréttindum, borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum og efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum. Sem dæmi um þau réttindi sem skilgreind eru í mannréttindayfirlýsingunni er réttur til hælis sem flóttafólk, réttur til frelsis frá pyndingum, réttur til málfrelsis og réttur til menntunar.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er hornsteinn alls mannréttindastarfs Amnesty International. Hún er höfð til grundvallar í öllum okkar verkefnum og hjálpar til við að draga stjórnvöld til ábyrgðar þegar mannréttindabrot eru framin.
Af hverju koma mannréttindi mér við?
Mannréttindi eru ekki eingöngu þau réttindi sem eru skilgreind í alþjóðalögum heldur snerta þau einnig ákvarðanir sem við tökum og koma við sögu í daglegu lífi okkar allra.
Þegar við erum til dæmis óánægð með framgang stjórnmálafólks finnst okkur sjálfsagt að ræða slíkt við vini og kunningja á samfélagsmiðlum eða kaffihúsi. Í slíkum aðstæðum nýtum við réttinn til málfrelsis.
Það er einmitt það sem er svo merkilegt við mannréttindi. Þegar þau eru virt fer það iðulega framhjá okkur. Fæst börn á Íslandi fagna rétti sínum til menntunar á hverjum skóladegi en þau börn sem þurft hafa að flýja heimaland sitt þar sem þeim var neitað um rétt sinn til menntunar kunna að meta skólann eilítið betur.
Mannréttindi á Íslandi
Mannréttindum er ætlað að tryggja einstaklingum og hópum vernd fyrir vanrækslu á grundvallarréttindum og mannvirðingu eða hvers konar aðgerðum sem hindra að hægt sé að njóta þeirra. Mannréttindi eru til að mynda vernduð í stjórnarskránni, almennum lögum og alþjóðsamningum á Íslandi.
Í stjórnarskránni eru nokkur grundvallarmannréttindi vernduð. Má þar fyrst nefna jafnræðisregluna, en samkvæmt henni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá verndar stjórnarskráin trúfrelsi einstaklinga, en í því felst réttur hverrar manneskju til að iðka sína trú að eigin vali. Bann við pyndingum er einnig verndað í stjórnarskránni en enga manneskju má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
Íslenska ríkið er einnig aðili að fjölda alþjóðsamninga um mannréttindi og hefur lögfest suma þeirra. Dæmi um alþjóðlegan mannréttindasamning sem lögfestur hefur verið hér á landi er Mannréttindasáttmáli Evrópu frá 1950 en ákvæði hans hafa gildi almennra laga.
Aðrir alþjóðsamningar sem Ísland er aðili að eru alþjóðsamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966, samningurinn um réttindi barnsins frá 1989 og Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum frá 1987.
Verjum mannréttindi og berjumst gegn mannréttindabrotum
Oft lítum við á mannréttindi sem sjálfsagðan hlut því þau grundvallast af leiðandi reglum um mannlega reisn, sanngirni, jafnrétti, virðingu og sjálfstæði. Oftar en ekki er það aðeins þegar réttindi okkar eru brotin að við stöldrum við og veitum þeim athygli.
Því miður eru mannréttindabrot algeng. Þúsundum einstaklinga um heim allan er neitað um sanngjörn réttarhöld. Fólk er pyndað og fangelsað vegna skoðana sinna eða trúarbragða. Almennir borgarar eru fórnarlömb á stríðstímum. Börn eru neydd til að berjast í stríðsátökum. Nauðgunum er kerfisbundið beitt sem vopni.
Þess vegna er mikilvægt að við lítum ekki á mannréttindi sem sjálfsögð réttindi og enn mikilvægara er að mannréttindi séu vernduð samkvæmt alþjóðalögum, svo að hægt sé að draga ríki heims til ábyrgðar þegar þau fremja grimmdarleg mannréttindabrot á óbreyttum borgurum.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Fyrir ungt fólk sem vill hafa áhrif minnum við á ungliðahreyfingu Amnesty International en hópar eru starfandi um land allt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu