Góðar fréttir

23. nóvember 2018

Suður-Afríka: Úrskurður gegn námu­fyr­ir­tæki er sigur fyrir jaðar­sam­félög í landinu

Dómstóll í Suður-Afríku úrskurðaði að stjórn­völd geta ekki veitt leyfi fyrir námugreftri á títani í Xolobeni án samþykkis frum­byggja­sam­fé­laga. „Þessi fram­sækni úrskurður er sigur fyrir Xolobeni-samfé­lagið sem hefur lengi barist fyrir rétti sínum til að hafna námugreftri á landi forfeðra sinna,“ segir fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Suður-Afríku.

„Dómurinn sendir skýr skilaboð um að fjöl­þjóðleg námu­fyr­ir­tæki geta ekki vaðið yfir rétt­indi fólks fyrir eigin gróða. Dómurinn er ekki aðeins sigur fyrir þetta tiltekna samfélag heldur öll samfélög í landinu sem eru að berjast fyrir því að vernda landið sitt, arfleifð og menn­ingu. Stjórn­völd verða að fara eftir úrskurð­inum og tryggja fram­vegis að upplýst samþykki frum­byggja­sam­fé­laga sé til staðar við veit­ingu leyfis fyrir námugreftri.“

Það er þó enn brýnt að styðja við Nonhle, eina af baráttu­kon­unum í Bréf til bjargar lífi 2018 og leið­toga samfé­lags síns, í að verja land sitt gegn námugreftri í Suður-Afríku. Hætta er á að þrýst verði á samfélag hennar til að samþykkja námugröftinn. Einnig eru áform um að áfrýja úrskurð­inum. Það er því enn mikil­vægt að styðja baráttuna og gæta að öryggi Nonhle og samfé­lags hennar.

Bakgrunnur

Transworld Energy and Minerals, dótt­ur­fyr­ir­tæki ástr­alska fyrir­tæk­isins MRC, sótti um leyfi fyrir námugreftri á títani á uMgung­und­lovu-svæðinu í aust­ur­hluta Suður-Afríku árið 2008. Xolobeni-fólkið myndaði nefnd árið 2007 til að hindra námugröftinn því hann bryti á lands­rétt­indum og væri ógn við sögu og lífs­við­ur­væri samfé­lagsins.

 

 

Lestu einnig