Esraa Abdefattah, aðgerðasinni og blaðakona, var numin af brott af óeinkennisklæddum lögreglumönnum og sætti pyndingum á ótilgreindum stað í október 2019. Síðan þá hefur hún sætt ólöglegu varðhaldi fyrir rangar sakargiftir sem tengjast hryðjuverkum. Hún var ein af fjölmörgum aðgerðasinnum sem herjað var á eftir að mótmæli brutust út þann 20. september 2019. Amnesty International skilgreinir hana sem samviskufanga.
Esraa Abdefattah var yfirheyrð þann 30. ágúst þar sem hún var sökuð um að hafa „gengið til liðs við hryðjuverkasamtök“ og „tekið þátt í að gera samkomulag um að fremja hryðjuverk frá fangelsinu“. Samkvæmt lögfræðingi hennar var hún einnig sökuð um að eiga í samskiptum við einstaklinga utan fangelsisins í þeim tilgangi að dreifa sögusögnum og fölskum fréttum. Esraa segir að ásakanirnar séu með öllu tilhæfulausar þar sem hún var í engu sambandi við umheiminn frá 10. mars til 22. ágúst þegar lokað var fyrir allar heimsóknir í fangelsið vegna kórónuveirufaraldursins.
Hún hefur áður verið áreitt af stjórnvöldum og var ein af fyrstu mannréttindafrömuðum Egyptalands sem settir voru í ferðabann í tengslum við ákvæði í lögum sem banna frjálsum félagasamtökum að taka við erlendu fjármagni. Henni var meinað um að fara um borð í flugvél á alþjóðaflugvellinum í Kaíró í janúar 2015.
Esraa er í haldi fyrir það eitt að nýta tjáningar- og fundafrelsi sitt!
Skrifaðu undir og krefstu þess að Esraa Abdefattah verði leyst úr haldi án tafar!
Lestu nánar um stöðu tjáningarfrelsis í Egyptalandi
Esraa Abdefattah var loks leyst úr haldi 17. júlí 2021.