Skýrslur

29. október 2020

Amnesty Internati­onal lítur inn á við

Morðið á Georg Floyd í haldi lögreglu beindi sjónum að sögu­legum og kerf­is­bundnum kynþátta­for­dómum sem enn ríkja, ekki einungis í Banda­ríkj­unum heldur um heim allan. Amnesty Internati­onal ákvað í kjöl­farið að líta inn á við og kanna hvort uppbygging og starf­semi aðal­stöðva samtak­anna, sem eiga sér næstum 60 ára sögu, viðhaldi óafvit­andi rótgrónum kynþátta­for­dómum.

Einmitt vegna mikil­vægi málstað­arins var ákveðið að kanna stöðuna til að samtökin berjist ekki aðeins gegn kynþátta­for­dómum í orði heldur einnig á borði. Samtökin létu gera óháða og sjálf­stæða rann­sókn um kynþátta­for­dóma innan aðal­stöðva samtak­anna. Hewlett Brown fram­kvæmdi rann­sóknina með rýni­hópum starfs­fólks aðal­stöðv­anna. Skýrslu með niður­stöð­unum má finna hér.

Niður­stöð­urnar eru vissu­lega óþægi­legar en samt sem áður mikil­vægar. Þar kemur fram að birt­inga­myndir kynþátta­for­dóma sem starfs­fólk fann fyrir hafi verið marg­vís­legar. Það þarf að ráðast að rótum vandans með virkum hætti. Sem leið­andi alþjóðleg mann­rétt­inda­samtök er mikil­vægt að fyrsta skref samtak­anna í átt að raun­veru­legum breyt­ingum sé að greina og viður­kenna með gagn­sæjum hætti flókið rótgróið valda­kerfi innan samtak­anna sem byggir á kynþátta­for­dómum og mismunun.

Aðgerðir sem meðal annars verður farið í:

  • Endur­skoða ráðn­ing­ar­ferlið
  • Fá utan­að­kom­andi aðila til að leiða þjálfun gegn kynþátta­for­dómum innan aðal­stöðva samtak­anna
  • Meta ferlið sem tekur við þegar kvart­anir eða uppljóstranir um kynþátta­for­dóma berast frá starfs­fólki
  • Leita leiða til að ýta undir samræður innan samtak­anna um jafn­rétti

 

Þetta er aðeins upphafið að löngu ferli til að tryggja að samtökin berjist gegn kynþátta­for­dómum og mismunun af heilum hug og á allan hátt. Þannig getum við verið hluti af þeim breyt­ingum sem við köllum eftir í mann­rétt­ind­a­starfi okkar.

Lestu einnig