Skýrslur
30. janúar 2026
Nýlegar skýrslur Amnesty International sýna fram á að stór tískufyrirtæki hagnast á láglaunuðu vinnuafli kvenna sem sætir þöggun. Fram kemur í nýlegum skýrslum Amnesty International að ríkisstjórnir, verksmiðjur og alþjóðleg tískufyrirtæki hagnist á kúgun verkafólks í fataiðnaði og brotum á vinnuréttindum í Bangladess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi.
Í skýrslunum Stitched Up: Denial of Freedom of Association for Garment Workers in Bangladesh, India, Pakistan og Sri Lanka og Abandoned by Fashion: The urgent need for fashion brands to champion worker rights, eru skráð víðtæk brot gegn réttindum verkafólks í fataiðnaði sem sætir áreitni og ofbeldi af hálfu atvinnurekenda.
Skýrsla Amnesty International
Skýrslurnar tvær byggja á rannsóknum Amnesty International á tímabilinu september 2023 til ágúst 2024, þar á meðal 88 viðtölum sem náðu til 20 verksmiðja í löndunum fjórum. Af þeim voru 64 viðmælendur verkafólk í fataiðnaði og 12 viðmælendur voru stéttarfélagsleiðtogar og baráttufólk fyrir vinnuréttinum. Rúmlega tveir þriðju viðmælenda voru konur.
Tuttugu og eitt tískufyrirtæki fékk senda könnun frá Amnesty International í nóvember 2023 til í níu löndum, þar á meðal í Þýskalandi, Danmörku, Japan, Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kína og á Spáni. Óskað var eftir upplýsingum um mannréttindastefnu þeirra, eftirlit og aðgerðir sem tengjast félagafrelsi, jafnrétti kynjanna og verklagi í innkaupum.
Adidas, ASOS, Fast Retailing, Inditex, Otto Group og Primark svöruðu öllum spurningunum. Mörg önnur vörumerki veittu ófullnægjandi upplýsingar, þar á meðal M&S og Walmart, á meðan sum fyrirtæki veittu engar upplýsingar, þar á meðal Boohoo, H&M, Desigual, Next og Gap.
„Siðlaust bandalag tískufyrirtækja, verksmiðjueigenda og stjórnvalda í Bangladess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi skýtur stoðum undir iðnað sem er þekktur fyrir kerfisbundin brot á mannréttindum. Fataiðnaðurinn hefur í áratugi þrifist á arðráni á ofkeyrðu, vangreiddu vinnuafli sem samanstendur að mestu leyti af konum með því að virða ekki rétt verkafólks til að stofna stéttarfélag og semja sameiginlega um sín kjör. Þetta er áfellisdómur yfir viðskiptamódeli fataiðnaðarins sem fórnar réttindum verkafólks í fataiðnaði í Bangladess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi í skefjalausri gróðavon fyrir hluthafa tískufyrirtækja sem eru að mestu vestræn.“
Agnès Callamard aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
„Yfirmenn öskra á okkur að ef við göngum í stéttarfélag, verðum við líka rekin“
Fataiðnaðurinn á alþjóðamarkaði hefur lengi sætt gagnrýni vegna brota á mannréttindum sem tengjast aðfangakeðjum þeirra og viðskiptamódeli. Verkafólk í fataiðnaði í Suður-Asíu, einkum konur, er kerfisbundið svipt réttindum með óformlegum og ótryggum ráðningarsamningum, lágum launum og ótryggum starfsaðstæðum.
Í öllum löndunum fjórum sagði verkafólk í fataiðnaði að óttinn við viðbrögð atvinnurekenda kæmi í veg fyrir að það gengi í stéttarfélag. Allir þeir stéttarfélagsfulltrúar sem Amnesty International ræddi við lýstu andrúmslofti ótta þar sem eftirlitsfólk og verksmiðjustjórar áreittu, ráku og hótuðu starfsfólki reglulega fyrir að vera í eða stofnsetja stéttarfélag, sem er skýrt brot á rétti þeirra til félagafrelsis.
„Þegar verkafólk lætur í sér heyra er það hunsað. Þegar það reynir að skipuleggja sig er því hótað og það rekið. Og loks þegar verkafólk mótmælir er það barið, skotið á það eða handtekið.“
Taufiq*, starfsmaður frjálsra félagasamtaka á sviði vinnuréttinda í Bangladess.

Fataverksmiðja í Bangladess © MUNIR UZ ZAMAN/AFP – Getty Images
„Mannréttindabrot eiga sér stað á hverjum degi, í næstum hverri einustu verksmiðju.“
Yfirvöld í öllum löndunum fjórum beita fjölmörgum aðferðum til að hindra skipulagða samstöðu meðal verkafólks í fataiðnaði eða til að svipta það vinnuréttindum sínum, meðal annars með því að leysa upp stéttarfélög og setja hindranir á verkfallsréttinn.
Í Bangladess eru lagalegar takmarkanir sem svipta verkafólk í fataiðnaði réttinum til félagafrelsis. Starfsfólk er þess í stað hvatt til að stofna félög eða nefndir um velferð sem hafa mjög takmarkaða getu til að verja hagsmuni þess. Yfirvöld hafa brotið mótmæli verkafólks á bak aftur með ofbeldisfullum hætti og misbeitt lögum til að refsa fólki sem tekur þátt í mótmælum sem eru að mestu friðsamleg.
Á Indlandi vinnur margt verkafólk í fataiðnaði, sem starfar við útsaum eða frágang fatnaðar, heiman frá sér. Starfsfólk sem vinnur að heiman telst ekki vinnandi fólk samkvæmt vinnulöggjöf landsins. Það á því ekki rétt á lífeyri, nýtur ekki annarra starfstengdra réttinda og getur ekki sótt um aðild að stéttarfélagi.
Í Pakistan er það dagleg barátta fyrir verkafólk í fataiðnaði að fá greidd lágmarkslaun og viðeigandi ráðningarsamninga. Vangreiðsla launa er útbreidd vegna skorts á skriflegum samningum og eftirliti.
Á Srí Lanka er verkafólki meinað félagafrelsi fyrir tilstuðlan flókinna stjórnsýsluaðgerða sem oft gera stofnun stéttarfélaga nær ómögulega. Þegar starfsfólki tekst að stofna stéttarfélög er það áreitt, ógnað og oft rekið þar sem yfirvöld bregðast ítrekað þeirri skyldu sinni að vernda það.
Alþjóðleg tískufyrirtæki: ómetanlegur bandamaður kúgandi stjórnvalda
Tískufyrirtæki stuðla að viðkvæmri stöðu verkafólks í fataiðnaði þar sem þau uppfylla ekki mannréttindaskyldur sínar, en líta þess í stað á mannréttindaáreiðanleikakannanir og siðareglur sem formsatriði án raunverulegs innihalds. Fyrirtækin hafa leyft ógagnsæjum aðfangakeðjum að þrífast og sýnt að þau eru tilbúin að nýta vinnuafl frá stjórnvöldum og viðskiptaaðilum sem hafa brugðist skyldum sínum að hafa eftirlit með lélegum starfsháttum og gera úrbætur eða bæla markvisst niður félagafrelsi.
Skortur á löggjöf um áreiðanleikakönnun í mörgum löndum þýðir að tískufyrirtæki bera enga ábyrgð á aðfangakeðjum sínum, sem gerir iðnaðinum kleift að vera drifinn áfram af arðráni og arðsemi. Þar sem slík lög eru til staðar er framkvæmd þeirra og umfang enn í mótun.
Alþjóðleg lög og viðmið, þar á meðal leiðbeinandi meginreglur Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi og leiðbeiningar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) fyrir fjölþjóðafyrirtæki, gera kröfu um að tískufyrirtæki greini áhættur og bregðist við þeim með viðvarandi mannréttindaáreiðanleikakönnun í allri aðfangakeðjunni.
Í flestum ríkjum hefur skortur á bindandi löggjöf leitt til þess að brot á réttindum verkafólks eru orðin rótgróin í aðfangakeðjum án raunverulegra aðgerða til úrbóta. Að auki hafa stjórnvöld í löndum með höfuðstöðvar alþjóðlegra vörumerkja ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir að fyrirtækin undir þeirra lögsögu fremji brot á erlendri grundu.
Vegna skorts á gagnsæi í alþjóðlegum aðfangakeðjum er erfitt að ganga úr skugga um hvort mannréttindastefnum sé í raun framfylgt í verksmiðjum. Öll tískufyrirtækin, sem fengu senda til sín könnunina, hafa einhvers konar reglur eða stefnur þar sem kemur fram að fyrirtækið virði félagafrelsi verkafólks.
Þrátt fyrir það fann Amnesty International afar fá sjálfstæð stéttarfélög starfandi í aðfangakeðjum þeirra í öllum fjórum löndunum. Þessi skortur á félagafrelsi og samningsrétti heldur áfram að koma í veg fyrir að hægt sé að draga úr og bæta úr brotum á mannréttindum í aðfangakeðjum.
„Aðgangur að réttlæti er almennt mjög takmarkaður fyrir allar konur … og þetta á enn frekar við um Dalit-konur“
Meirihluti starfsfólks í fatnaiðnaði í Suður-Asíu eru konur sem hafa flust úr sveitum eða tilheyra jaðarsettum erfðastéttum. Þrátt fyrir þennan fjölda gegna konurnar sjaldan stjórnunarstöðum í verksmiðjum sem endurspeglar bæði feðraveldið sem ríkir í samfélaginu og rótgróna mismunun á grundvelli stéttar, þjóðarbrots, trúar og stéttaskiptingar.
Konur í fataiðnaði segja frá því að þær verði reglulega fyrir áreitni, árásum og líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á vinnustað en fá sjaldnast réttláta meðferð á máli sínu. Þær þjást vegna skorts á skilvirkum og óháðum úrræðum til að taka við kvörtunum þeirra í verksmiðjum sem stjórnað er af körlum ásamt hindrunum stjórnvalda á starfsemi stéttarfélaga og hótunum atvinnurekenda gegn þeim sem ganga í stéttarfélög.
„Það var þreifað á mér og ég beitt andlegu ofbeldi. Enginn í stjórn fyrirtækisins hlustaði á kvartanir mínar og þá hvatti ég aðrar konur til safnast saman. Mér var margoft hótað uppsögn.“
Sumaayaa*, stéttarfélagsfulltrúi frá Lahore í Pakistan, við Amnesty International.
„Félagafrelsi er lykillinn að raunverulegum breytingum í iðnaðinum“
Eins og sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðsamlegs funda- og félagafrelsis benti á í skýrslu sinni frá árinu 2016, hefur verkafólk í fataiðnaði fá úrræði til að breyta þeim aðstæðum sem viðhalda fátækt og ýta undir ójöfnuð fái það ekki að nýta rétt sinn til funda- og félagafrelsis. Samkvæmt nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eru stéttarfélagsréttindi, félagafrelsi og verkfallsréttur lykilúrræði til að koma á og tryggja réttlátar og hagstæðar starfsaðstæður.
Amnesty International hvetur ríki til að tryggja að allt verkafólk í fataiðnaði geti nýtt rétt sinn til félagafrelsis, meðal annars með því að fá að stofna og ganga í stéttarfélög og taka þátt í kjarasamningsviðræðum. Ríki verða einnig að rannsaka öll möguleg brot á vinnulöggjöf og öðrum viðhlítandi lögum. Komi í ljós brot á réttindum ber að refsa atvinnurekendum með viðeigandi hætti, meðal annars með saksóknum, og tryggja fullnægjandi og tímanlegar úrbætur fyrir brotaþola.
Fyrirtækin verða að grípa til áþreifanlegra aðgerða án tafar til að vernda réttindi verkafólks í aðfangakeðjum sínum og styðja við valdeflingu kvenna á vinnumarkaði. Brýn þörf er á lögbundinni áreiðanleikakönnun til að tryggja að fyrirtækin sjái til þess að verksmiðjur í allri alþjóðlegu aðfangakeðju sinni standi við skyldur sínar og ekki síst að þau tryggi úrbætur fyrir starfsfólk sem brotið hefur verið á og vinni að því að koma í veg fyrir frekari brot í framtíðinni.
„Það sem er brýnast nú er að móta innkaupastefnu fyrir alþjóðlegan fataiðnað þar sem virðing er borin fyrir mannréttindum. Stefnan þarf að tryggja raunverulegt félagafrelsi, refsa fyrir það þegar fólki er neitað um það, banna hefndaraðgerðir gegn stéttarfélögum og endurskoða innkaup frá öllum svæðum þar sem réttur verkafólks til félagafrelsis og kjarasamninga er ekki virtur.“
Agnès Callamard aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Velgengni fataiðnaðarins verður að haldast í hendur við raunverulega réttindavernd verkafólks. Félagafrelsi er lykilatriði í baráttunni gegn brotum á réttindum verkafólks. Félagafrelsið verður að verja, efla og standa vörð um.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu