Skýrslur

30. janúar 2026

Fata­iðn­að­urinn í helstu fram­leiðslu­lönd­unum græðir á að verka­fólki er meinað að stofna stétt­ar­félög

Nýlegar skýrslur Amnesty Internati­onal sýna fram á að stór tísku­fyr­ir­tæki hagnast á láglaunuðu vinnu­afli kvenna sem sætir þöggun. Fram kemur í nýlegum skýrslum Amnesty Internati­onal að ríkis­stjórnir, verk­smiðjur og alþjóðleg tísku­fyr­ir­tæki hagnist á kúgun verka­fólks í fata­iðnaði og brotum á vinnu­rétt­indum í Bangla­dess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi.

Í skýrsl­unum Stitched Up: Denial of Freedom of Association for Garment Workers in Bangla­desh, India, Pakistan og Sri Lanka og Abandoned by Fashion: The urgent need for fashion brands to champion worker rights, eru skráð víðtæk brot gegn rétt­indum verka­fólks í fata­iðnaði sem sætir áreitni og ofbeldi af hálfu atvinnu­rek­enda.

Skýrsla Amnesty International

Skýrsl­urnar tvær byggja á rann­sóknum Amnesty Internati­onal á tíma­bilinu sept­ember 2023 til ágúst 2024, þar á meðal 88 viðtölum sem náðu til 20 verk­smiðja í lönd­unum fjórum. Af þeim voru 64 viðmæl­endur verka­fólk í fata­iðnaði og 12 viðmæl­endur voru stétt­ar­fé­lags­leið­togar og baráttu­fólk fyrir vinnu­rétt­inum. Rúmlega tveir þriðju viðmæl­enda voru konur.

Tuttugu og eitt tísku­fyr­ir­tæki fékk senda könnun frá Amnesty Internati­onal í nóvember 2023 til í níu löndum, þar á meðal í Þýskalandi, Danmörku, Japan, Svíþjóð, Bretlandi, Banda­ríkj­unum, Kína og á Spáni. Óskað var eftir upplýs­ingum um mann­rétt­inda­stefnu þeirra, eftirlit og aðgerðir sem tengjast félaga­frelsi, jafn­rétti kynj­anna og verklagi í innkaupum.

Adidas, ASOS, Fast Retailing, Inditex, Otto Group og Primark svöruðu öllum spurn­ing­unum. Mörg önnur vörumerki veittu ófull­nægj­andi upplýs­ingar, þar á meðal M&S og Walmart, á meðan sum fyrir­tæki veittu engar upplýs­ingar, þar á meðal Boohoo, H&M,  Desigual, Next og Gap.

„Siðlaust bandalag tísku­fyr­ir­tækja, verk­smiðju­eig­enda og stjórn­valda í Bangla­dess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi skýtur stoðum undir iðnað sem er þekktur fyrir kerf­is­bundin brot á mann­rétt­indum. Fata­iðn­að­urinn hefur í áratugi þrifist á arðráni á ofkeyrðu, vangreiddu vinnu­afli sem saman­stendur að mestu leyti af konum með því að virða ekki rétt verka­fólks til að stofna stétt­ar­félag og semja sameig­in­lega um sín kjör. Þetta er áfell­is­dómur yfir viðskipta­módeli fata­iðn­að­arins sem fórnar rétt­indum verka­fólks í fata­iðnaði í Bangla­dess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi í skefja­lausri gróðavon fyrir hlut­hafa tísku­fyr­ir­tækja sem eru að mestu vestræn.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

„Yfirmenn öskra á okkur að ef við göngum í stéttarfélag, verðum við líka rekin“

Fata­iðn­að­urinn á alþjóða­markaði hefur lengi sætt gagn­rýni vegna brota á mann­rétt­indum sem tengjast aðfanga­keðjum þeirra og viðskipta­módeli. Verka­fólk í fata­iðnaði í Suður-Asíu, einkum konur, er kerf­is­bundið svipt rétt­indum með óform­legum og ótryggum ráðn­ing­ar­samn­ingum, lágum launum og ótryggum starfs­að­stæðum.

Í öllum lönd­unum fjórum sagði verka­fólk í fata­iðnaði að óttinn við viðbrögð atvinnu­rek­enda kæmi í veg fyrir að það gengi í stétt­ar­félag. Allir þeir stétt­ar­fé­lags­full­trúar sem Amnesty Internati­onal ræddi við lýstu andrúms­lofti ótta þar sem eftir­lits­fólk og verk­smiðju­stjórar áreittu, ráku og hótuðu starfs­fólki reglu­lega fyrir að vera í eða stofn­setja stétt­ar­félag, sem er skýrt brot á rétti þeirra til félaga­frelsis.

„Þegar verka­fólk lætur í sér heyra er það hunsað. Þegar það reynir að skipu­leggja sig er því hótað og það rekið. Og loks þegar verka­fólk mótmælir er það barið, skotið á það eða hand­tekið.“

Taufiq*, starfs­maður frjálsra félaga­sam­taka á sviði vinnu­rétt­inda í Bangla­dess.

 

Fata­verk­smiðja í Bangla­dess © MUNIR UZ ZAMAN/AFP – Getty Images

 

 

 

 

„Mannréttindabrot eiga sér stað á hverjum degi, í næstum hverri einustu verksmiðju.“

Yfir­völd í öllum lönd­unum fjórum beita fjöl­mörgum aðferðum til að hindra skipu­lagða samstöðu meðal verka­fólks í fata­iðnaði eða til að svipta það vinnu­rétt­indum sínum, meðal annars með því að leysa upp stétt­ar­félög og setja hindr­anir á verk­falls­réttinn.

Í Bangla­dess eru laga­legar takmark­anir sem svipta verka­fólk í fata­iðnaði rétt­inum til félaga­frelsis. Starfs­fólk er þess í stað hvatt til að stofna félög eða nefndir um velferð sem hafa mjög takmarkaða getu til að verja hags­muni þess. Yfir­völd hafa brotið mótmæli verka­fólks á bak aftur með ofbeld­is­fullum hætti og misbeitt lögum til að refsa fólki sem tekur þátt í mótmælum sem eru að mestu frið­samleg.

Á Indlandi vinnur margt verka­fólk í fata­iðnaði, sem starfar við útsaum eða frágang fatn­aðar, heiman frá sér. Starfs­fólk sem vinnur að heiman telst ekki vinn­andi fólk samkvæmt vinnu­lög­gjöf landsins. Það á því ekki rétt á lífeyri, nýtur ekki annarra starfstengdra rétt­inda og getur ekki sótt um aðild að stétt­ar­fé­lagi.

Í Pakistan er það dagleg barátta fyrir verka­fólk í fata­iðnaði að fá greidd lágmarks­laun og viðeig­andi ráðn­ing­ar­samn­inga. Vangreiðsla launa er útbreidd vegna skorts á skrif­legum samn­ingum og eftir­liti.

Á Srí Lanka er verka­fólki meinað félaga­frelsi fyrir tilstuðlan flók­inna stjórn­sýslu­að­gerða sem oft gera stofnun stétt­ar­fé­laga nær ómögu­lega. Þegar starfs­fólki tekst að stofna stétt­ar­félög er það áreitt, ógnað og oft rekið þar sem yfir­völd bregðast ítrekað þeirri skyldu sinni að vernda það.

 

Alþjóðleg tískufyrirtæki: ómetanlegur bandamaður kúgandi stjórnvalda

Tísku­fyr­ir­tæki stuðla að viðkvæmri stöðu verka­fólks í fata­iðnaði þar sem þau uppfylla ekki mann­rétt­inda­skyldur sínar, en líta þess í stað á mann­rétt­inda­áreið­an­leikak­ann­anir og siða­reglur sem forms­at­riði án raun­veru­legs inni­halds. Fyrir­tækin hafa leyft ógagn­sæjum aðfanga­keðjum að þrífast og sýnt að þau eru tilbúin að nýta vinnuafl frá stjórn­völdum og viðskipta­að­ilum sem hafa brugðist skyldum sínum að hafa eftirlit með lélegum starfs­háttum og gera úrbætur eða bæla mark­visst niður félaga­frelsi.

Skortur á löggjöf um áreið­an­leika­könnun í mörgum löndum þýðir að tísku­fyr­ir­tæki bera enga ábyrgð á aðfanga­keðjum sínum, sem gerir iðnað­inum kleift að vera drifinn áfram af arðráni og arðsemi. Þar sem slík lög eru til staðar er fram­kvæmd þeirra og umfang enn í mótun.

Alþjóðleg lög og viðmið, þar á meðal leið­bein­andi megin­reglur Sameinuðu þjóð­anna um viðskipti og mann­rétt­indi og leið­bein­ingar Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­innar (OECD) fyrir fjöl­þjóða­fyr­ir­tæki, gera kröfu um að tísku­fyr­ir­tæki greini áhættur og bregðist við þeim með viðvar­andi mann­rétt­inda­áreið­an­leika­könnun í allri aðfanga­keðj­unni.

 

Í flestum ríkjum hefur skortur á bind­andi löggjöf leitt til þess að brot á rétt­indum verka­fólks eru orðin rótgróin í aðfanga­keðjum án raun­veru­legra aðgerða til úrbóta. Að auki hafa stjórn­völd í löndum með höfuð­stöðvar alþjóð­legra vörumerkja ekki gripið til nauð­syn­legra aðgerða til að koma í veg fyrir að fyrir­tækin undir þeirra lögsögu fremji brot á erlendri grundu.

Vegna skorts á gagnsæi í alþjóð­legum aðfanga­keðjum er erfitt að ganga úr skugga um hvort mann­rétt­inda­stefnum sé í raun fram­fylgt í verk­smiðjum. Öll tísku­fyr­ir­tækin, sem fengu senda til sín könn­unina, hafa einhvers konar reglur eða stefnur þar sem kemur fram að fyrir­tækið virði félaga­frelsi verka­fólks.

Þrátt fyrir það fann Amnesty Internati­onal afar fá sjálf­stæð stétt­ar­félög starf­andi í aðfanga­keðjum þeirra í öllum fjórum lönd­unum. Þessi skortur á félaga­frelsi og samn­ings­rétti heldur áfram að koma í veg fyrir að hægt sé að draga úr og bæta úr brotum á mann­rétt­indum í aðfanga­keðjum.

„Aðgangur að réttlæti er almennt mjög takmarkaður fyrir allar konur … og þetta á enn frekar við um Dalit-konur“

Meiri­hluti starfs­fólks í fatna­iðnaði í Suður-Asíu eru konur sem hafa flust úr sveitum eða tilheyra jaðar­settum erfða­stéttum. Þrátt fyrir þennan fjölda gegna konurnar sjaldan stjórn­un­ar­stöðum í verk­smiðjum sem endur­speglar bæði feðra­veldið sem ríkir í samfé­laginu og rótgróna mismunun á grund­velli stéttar, þjóð­ar­brots, trúar og stétta­skipt­ingar.

Konur í fata­iðnaði segja frá því að þær verði reglu­lega fyrir áreitni, árásum og líkam­legu eða kynferð­is­legu ofbeldi á vinnu­stað en fá sjaldnast rétt­láta meðferð á máli sínu. Þær þjást vegna skorts á skil­virkum og óháðum úrræðum til að taka við kvört­unum þeirra í verk­smiðjum sem stjórnað er af körlum ásamt hindr­unum stjórn­valda á starf­semi stétt­ar­fé­laga og hótunum atvinnu­rek­enda gegn þeim sem ganga í stétt­ar­félög.

„Það var þreifað á mér og ég beitt andlegu ofbeldi. Enginn í stjórn fyrir­tæk­isins hlustaði á kvart­anir mínar og þá hvatti ég aðrar konur til safnast saman. Mér var margoft hótað uppsögn.“

Suma­ayaa*, stétt­ar­fé­lags­full­trúi frá Lahore í Pakistan, við Amnesty Internati­onal.

„Félagafrelsi er lykillinn að raunverulegum breytingum í iðnaðinum“

Eins og sérstakur skýrslu­gjafi Sameinuðu þjóð­anna um réttinn til frið­sam­legs funda- og félaga­frelsis benti á í skýrslu sinni frá árinu 2016, hefur verka­fólk í fata­iðnaði fá úrræði til að breyta þeim aðstæðum sem viðhalda fátækt og ýta undir ójöfnuð fái það ekki að nýta rétt sinn til funda- og félaga­frelsis. Samkvæmt nefnd Sameinuðu þjóð­anna um efna­hagsleg, félagsleg og menn­ing­arleg rétt­indi eru stétt­ar­fé­lags­rétt­indi, félaga­frelsi og verk­falls­réttur lykilúr­ræði til að koma á og tryggja rétt­látar og hagstæðar starfs­að­stæður.

Amnesty Internati­onal hvetur ríki til að tryggja að allt verka­fólk í fata­iðnaði geti nýtt rétt sinn til félaga­frelsis, meðal annars með því að fá að stofna og ganga í stétt­ar­félög og taka þátt í kjara­samn­ings­við­ræðum. Ríki verða einnig að rann­saka öll möguleg brot á vinnu­lög­gjöf og öðrum viðhlít­andi lögum. Komi í ljós brot á rétt­indum ber að refsa atvinnu­rek­endum með viðeig­andi hætti, meðal annars með saksóknum, og tryggja full­nægj­andi og tíman­legar úrbætur fyrir brota­þola.

Fyrir­tækin verða að grípa til áþreif­an­legra aðgerða án tafar til að vernda rétt­indi verka­fólks í aðfanga­keðjum sínum og styðja við vald­efl­ingu kvenna á vinnu­markaði. Brýn þörf er á lögbund­inni áreið­an­leika­könnun til að tryggja að fyrir­tækin sjái til þess að verk­smiðjur í allri alþjóð­legu aðfanga­keðju sinni standi við skyldur sínar og ekki síst að þau tryggi úrbætur fyrir starfs­fólk sem brotið hefur verið á og vinni að því að koma í veg fyrir frekari brot í fram­tíð­inni.

„Það sem er brýnast nú er að móta innkaupa­stefnu fyrir alþjóð­legan fata­iðnað þar sem virðing er borin fyrir mann­rétt­indum. Stefnan þarf að tryggja raun­veru­legt félaga­frelsi, refsa fyrir það þegar fólki er neitað um það, banna hefndarað­gerðir gegn stétt­ar­fé­lögum og endur­skoða innkaup frá öllum svæðum þar sem réttur verka­fólks til félaga­frelsis og kjara­samn­inga er ekki virtur.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Velgengni fata­iðn­að­arins verður að haldast í hendur við raun­veru­lega rétt­inda­vernd verka­fólks. Félaga­frelsi er lykil­at­riði í barátt­unni gegn brotum á rétt­indum verka­fólks. Félaga­frelsið verður að verja, efla og standa vörð um.

Lestu einnig