Fréttir
25. mars 2024Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja á ný greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Ísland var á meðal þeirra ríkja sem ákváðu í janúar að frysta greiðslur í kjölfar þess að Ísraelar sögðu 12 af 30 þúsund starfsmönnum UNRWA hefðu átt þátt í árás Hamas á Ísrael 7. október síðastliðinn. Ákvörðunin var mjög umdeild og gagnrýnd af hálfu margra, þ.á.m. Amnesty International.
Íslandsdeild Amnesty International birti opinbert bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og stofnaði til undirskriftarsöfnunar til hvatningar um að ákvörðuninni yrði snúið við. Í bréfinu var meðal annars bent á að frysting fjármagns eykur á þjáningar yfir tveggja milljóna palestínskra flóttamanna sem skráðir eru flóttamenn hjá UNRWA. Þá sagði í bréfinu að ásakanir á hendur fáeinum einstaklingum um verknað sem tengist ekki þeirra starfssviði réttlæti aldrei jafn róttæka ákvörðun og ríkisstjórn Íslands tók þar sem hún hefði hörmuleg áhrif á líf og afdrif milljóna einstaklinga.
3224 undirskriftir
Að frysta fjármögnun til UNRWA, sérstaklega í ljósi þess að enginn annar aðili í mannúðarstarfi er til staðar sem getur fyllt skarðið, eykur mjög á vandann og brýtur í bága við fyrirskipun Alþjóðadómstólsins í Haag og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að auka en ekki minnka mannúðaraðstoð til allra óbreyttra borgara á Gaza.
Þann 8. mars sendi Íslandsdeild Amnesty International forsætisráðherra opinbert bréf ásamt undirskriftum 3244 einstaklinga sem tóku undir ákall deildarinnar um að snúa við ákvörðuninni um frystingu.
Undanfarnar vikur hafa óháðar úttektir á starfsemi UNRWA átt sér stað, innra eftirlit verið styrkt og eftirlit aukið með starfsfólki. Utanríkisráðherra gaf út yfirlýsingu 19. mars um að ákveðið hafi verið að greiða kjarnaframlag Íslands til UNRWA fyrir gjalddaga, þann 1. apríl næstkomandi.
Með ákvörðuninni stendur Ísland við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og sýnir gott fordæmi og leiðtogafærni á alþjóðavettvangi er lýtur að virðingu fyrir mannúð og mannréttindum. Töluverður þrýstingur hafði verið í samfélaginu um að stjórnvöld endurskoðuðu ákvörðun sína um að frysta greiðslur til UNRWA og stóð meðal annars Íslandsdeild Amnesty International fyrir mótmælum á Austurvelli þann 1. mars til að kalla eftir því að frystingunni yrði aflétt.
Fjárframlög til UNRWA skipta gríðarlegu máli þar sem ástandið á Gaza hefur hríðversnað á seinustu misserum og mannúðarneyðin er skelfileg. Meira en helmingur íbúa Gaza stendur frammi fyrir hungursneyð. Grimmileg stefna Ísraels hefur valdið mannúðarneyðinni á Gaza þar sem Ísrael hefur með vísvitandi hætti svipt Palestínubúa mannúðaraðstoð. Kerfisbundin hungursneyð á sér stað á sama tíma og hrikalegar sprengjuárásir sem hafa drepið rúmlega 31.000 Palestínubúa og gert stór svæði norðurhluta Gaza óbyggileg.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu