Tilkynning

23. nóvember 2021

Málþing um ofbeldi og morð á konum í Mexíkó

Íslands­deild Amnesty Internati­onal stendur að málþingi um stöðu kvenna í Mexíkó, þriðju­daginn 30. nóvember í Lögbergi, Háskóla Íslands, stofu 101, frá kl. 12 til 13. Claudia Ashanie Wilson, héraðs­lög­maður og vara­formaður Íslands­deildar Amnesty Internati­onal, leiðir málþingið. Sérstakir gestir málþingsins eru Wendy Andrea Galarza, femin­isti og baráttu­kona, og Edith Olivares Ferreto, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Mexíkó. Heim­sóknin er hluti af árlegri, alþjóð­legri herferð Amnesty Internati­onal, Þitt nafn bjargar lífi.

Í erindi sínu greinir Edith Olivares frá alvar­legum brotum á rétti kvenna til lífs og líkam­legs öryggis í Mexíkó, hvernig það þrífst og hvernig aðgerða­sinnar og alþjóða­sam­fé­lagið getur gripið til aðgerða til verndar rétt­indum kvenna og stúlkna í landinu.

Wendy Galarza segir sögu sína á málþinginu og greinir frá baráttu sinni fyrir rétt­indum kvenna í Mexíkó.

Kynbundið ofbeldi í Mexíkó

 

Kynbundið ofbeldi, manns­hvörf og morð á konum í Mexíkó eru tíð en fáir eru látnir sæta ábyrgð. Að meðal­tali eru tíu konur myrtar á degi hverjum. Í skýrslu sem Amnesty Internati­onal í Mexíkó gaf út í sept­ember 2021 og nefnist Justice on Trial kemur fram að á síðasta ári voru 3.723 morð á konum skráð en þar af voru 940 konur myrtar af hendi karl­manns fyrir það eitt að vera konur.

Yfir­völd láta undir höfuð leggjast að rann­saka morðin með full­nægj­andi hætti, ýmist vegna þess að vett­vangur glæps er ekki skoð­aður nægi­lega vel, sönn­un­ar­gögn týnast eða áhugi er ekki til staðar á að sinna rann­sókn. Þessir alvar­legu ágallar koma í veg fyrir að málin rati til dóms­stóla og að hinir seku sæti ábyrgð. Oft þurfa fjöl­skyldur hinna myrtu sjálfar að rann­saka morðin með tilheyr­andi álagi og kostnaði en þessi ábyrgð fellur oftast í skaut kvenna.

Í sumum tilfellum hóta og ógna yfir­völd fjöl­skyld­unum í þeim tilgangi að reyna að kæfa málið. Embætti saksóknara er einnig vanbúið til að fram­fylgja rann­sókn á morðum á konum, ýmist vegna skorts á mannafla, búnaði eða sérfræði­þekk­ingu. Að auki sæta konur sem rísa upp og mótmæla ofbeldinu kúgun af hálfu yfir­valda, geðþótta­hand­tökum, útskúfun og marg­vís­legu ofbeldi.

 

Ofbeldi og morð á konum í Mexíkó eiga sér langa sögu en á síðustu árum hafa þessi grófu brot gegn konum fengið aukna athygli í kjölfar fjölda mótmæla gegn ofbeldi á konum á vegum kven­rétt­inda­hreyf­inga í landinu.

Wendy Galarza, sem er baráttu­kona fyrir rétt­látara samfé­lagi í heimalandi sínu, tók þátt í einum slíkum mótmælum þann 9. nóvember 2020 í Cancún og týndi næstum lífi sínu. Þegar hópur mótmæl­enda hóf að toga niður og brenna viðar­tálma skaut lögreglan skotum upp í loft en að sögn sumra skaut hún í átt að mann­fjöld­anum. Wendy áttaði sig síðar á því að hún væri með skotsár á fótlegg og sköpum. Þeir sem grun­aðir eru um að hafa staðið að skotárás­inni hafa ekki enn sætt ábyrgð.

Mál hennar er eitt af tíu málum þolenda mann­rétt­inda­brota sem eru hluti af herferð­inni, Þitt nafn bjargar lífi. Unnt er að skrifa undir mál hennar og fleiri þolenda hér.

Lestu einnig