Fréttir

11. október 2019

Mann­rétt­inda­skóli ársins 2019 – Er þinn skóli skráður?

Nú líður að stærsta árlega viðburði Amnesty Internati­onal, Þitt nafn bjargar lífi (áður Bréf til bjargar lífi). Þá skrifar fjöldi fólks nafn sitt á bréf til stjórn­valda sem brjóta mann­rétt­indi og krefst rétt­lætis fyrir þolendur. Samtímis munu hundruð þúsunda einstak­linga víða um heim gera slíkt hið sama.

Eins og fyrr blásum við til samkeppni meðal grunn- og fram­halds­skóla landsins þar sem nemendum gefst tæki­færi til að safna sem flestum undir­skriftum fyrir sinn skóla, vinna farand­bikar og hljóta titilinn Mann­rétt­inda­grunn­skóli ársins og Mann­rétt­inda­fram­halds­skóli ársins.

Keppt er í tveimur flokkum á hvoru skóla­stigi. Annars vegar keppa skól­arnir um að safna sem flestum undir­skriftum á landsvísu og hins vegar um söfnun flestra undir­skrifta miðað við nemenda­fjölda. Þannig gefst smærri skólum tæki­færi til að vinna til verð­launa.

Í ár beinir herferðin sjónum að börnum og ungu fólki í þeim tilgangi að styðja þau, veita þeim styrk og gera þeim kleift að halda áfram að bjóða vald­höfum sem bregðast hlut­verki sínu, birginn og þannig breyta ásýnd okkar á heim­inum.

En Þitt nafn bjargar lífi er ekki einungis keppni um fjölda undir­skrifta því herferð­inni fylgir kennslu­efni um málin þar sem nemendum gefst tæki­færi til að kafa dýpra í heim mann­rétt­inda og mann­rétt­inda­brota. Kennslu­efnið má finna hér.

Þitt nafn bjargar lífi er tilvalið sem þema­verk­efni eða viðbót við jóla­við­burð innan skólans eða í nærsam­fé­laginu.

Keppnin stendur frá 25. október til 31. desember 2019.

Ætlar þinn skóli að taka þátt? Skráning og frekari upplýs­ingar um fyrir­komulag má nálgast í síma 5117900 eða með því að senda tölvu­póst á amnesty@amnesty.is

+ Lesa meira

Lestu einnig