Góðar fréttir

23. maí 2019

Myanmar: Tveir blaða­menn lausir úr fang­elsi

Tveir blaða­menn Reuters í Myanmar, Wa Lone og Kyaw Soe Oo, voru leystir úr haldi án skil­yrða þann 7. maí eftir náðun forseta landsins.

Þeir höfðu þá afplánað rúmlega 500 daga af sjö ára dómi. Þeir fengu frelsi sitt aðeins tveimur vikum eftir að hæstiréttur hafnaði áfrýjun þeirra. Blaða­menn­irnir voru að rann­saka fjölda­morð á tíu Róhingjum af hálfu örygg­is­sveita Myanmar þegar þeir voru hand­teknir í desember 2017. Síðar voru sjö hermenn fundnir sekir í herrétti fyrir morðin.

„Ég vil þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur í fang­elsinu og þeim sem kölluðu eftir lausn okkar víðs­vegar að úr heim­inum. Ég get ekki beðið eftir því að fara aftur á frétta­stofuna.“

Wa Lone, annar blaða­mann­anna, fyrir utan fang­elsið við frétta­fólk þegar hann var leystur úr haldi.

Amnesty International

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að sakfelling Wa Lone og Kyaw Soe Oo, verði dregin til baka og saka­skrá þeirra hreinsuð þar sem aldrei hefði átt að hand­taka þá eða setja í fang­elsi. Amnesty Internati­onal hefur áhyggjur af tján­ing­ar­frelsi og funda­frelsi í landinu og mun halda áfram að kalla eftir lausn samviskufanga og afnámi þessara harð­neskju­legu laga.

„Ákvörðun stjórn­valda er fagn­að­ar­efni en samt sem áður eru enn í gildi harð­neskjuleg lög í landinu sem er beitt gegn aðgerða­sinnum, frétta­fólki og gagn­rýn­endum stjórn­valda. Þar til þessi lög hafa verið afnumin á frétta­fólk og aðgerða­sinnar stöðugt hættu á hand­töku og varð­haldi.“

Nicholas Bequ­elin, fram­kvæmda­stjóri svæð­is­skrif­stofu Austur-og suðaustur-Asíu, Amnesty Internati­onal.

Við þökkum kærlega fyrir allan stuðn­inginn!

SMS-félagar Amnesty Internati­onal kölluðu eftir lausn Wa Lone og Kyaw Soe Oo sumarið 2018.

Lestu einnig