Fréttir
1. apríl 2020Ungverska þingið samþykkti ný lög þann 30. mars síðastliðinn sem veita stjórnvöldum umboð til að breyta lögum án þess að fara með þau í gegnum þingið. Í nýju lögunum er ekkert ákvæði um eftirlit, hvenær lögin falla úr gildi eða reglubundna endurskoðun á meðan neyðarástand ríkir.
„Með lögunum getur tímabundið neyðarástand verið stjórnlaust og varað í ótilgreindan tíma sem veitir stjórn Viktor Orbán frjálsar hendur til að skerða mannréttindi. Þetta er ekki leiðin til að takast á við það alvarlega ástand sem kórónuveirufaraldurinn veldur.“
David Vig, framkvæmdastjóri Amnesty International í Ungverjalandi.
Lögin
Í nýju lögunum eru tvær meginstoðir. Í fyrsta lagi veita lögin stjórnvöldum ótakmarkað umboð án nokkurra fyrirvara eða ákvæða sem tryggja að þingið geti haft eftirlit eins og þeim ber skylda til.
Í öðru lagi verða til tvö ný refsiverð athæfi sem stangast á við alþjóðlega mannréttindastaðla og -lög. Það að birta falskar eða misvísandi staðreyndir sem kemur í veg fyrir „árangursríka vernd“ almennings eða vekur ótta eða kvíða getur falið í sér allt að fimm ára fangelsisvist. Truflun á aðgerðum sem tengjast sóttkví eða einangrun getur sömuleiðis þýtt allt að fimm ára fangelsisvist og átta ár ef athæfið leiðir til dauða annars einstaklings.
„Það þarf öfluga varnagla til að tryggja að allar aðgerðir sem skerða mannréttindi þegar neyðarástand ríkir séu bráðnauðsynlegar og hóflegar til að vernda heilsu almennings. Þessi nýju lög gefa stjórnvöldum ótakmörkuð völd umfram þann tíma sem faraldurinn geisar.“
David Vig, framkvæmdastjóri Amnesty International í Ungverjalandi.
Mannréttindi
Frá því að Viktor Orbán tók við embætti forsætisráðherra hafa mannréttindi verið skert í Ungverjalandi sem hefur ýtt undir vaxandi óvild gagnvart jaðarhópum og er tilraun til að þagga niður í gagnrýnisröddum. Ótakmarkað umboð stjórnvalda mun aðeins hraða á skerðingum mannréttinda.
Evrópuráðið, Evrópuþingið, Alþjóðastofnun blaðafólks og Öryggis- og Samvinnustofnun Evrópu eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt nýju lögin.
Amnesty International kallar eftir því í opinberri yfirlýsingu að ungversk stjórnvöld tryggi mannréttindi í öllum aðgerðum sínum í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum og að viðeigandi eftirlit löggjafarvalds og dómstóla sé haft með þeim aðgerðum sem gripið er til í þessu neyðarástandi.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu