Fréttir

1. apríl 2020

Ungverja­land: Óhugn­anleg þróun vegna nýrra laga tengdum COVID-19

Ungverska þingið samþykkti ný lög þann 30. mars síðast­liðinn sem veita stjórn­völdum umboð til að breyta lögum án þess að fara með þau í gegnum þingið. Í nýju lögunum er ekkert ákvæði um eftirlit, hvenær lögin falla úr gildi eða reglu­bundna endur­skoðun á meðan neyð­ar­ástand ríkir.

„Með lögunum getur tíma­bundið neyð­ar­ástand verið stjórn­laust og varað í ótil­greindan tíma sem veitir stjórn Viktor Orbán frjálsar hendur til að skerða mann­rétt­indi. Þetta er ekki leiðin til að takast á við það alvar­lega ástand sem kórónu­veirufar­ald­urinn veldur.“

David Vig, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Ungverjalandi.

Lögin

Í nýju lögunum eru tvær megin­stoðir. Í fyrsta lagi veita lögin stjórn­völdum ótak­markað umboð án nokk­urra fyrir­vara eða ákvæða sem tryggja að þingið geti haft eftirlit eins og þeim ber skylda til.

Í öðru lagi verða til tvö ný refsi­verð athæfi sem stangast á við alþjóð­lega mann­rétt­indastaðla og -lög. Það að birta falskar eða misvís­andi stað­reyndir sem kemur í veg fyrir „árang­urs­ríka vernd“ almenn­ings eða vekur ótta eða kvíða getur falið í sér allt að fimm ára fang­elsis­vist. Truflun á aðgerðum sem tengjast sóttkví eða einangrun getur sömu­leiðis þýtt allt að fimm ára fang­elsis­vist og átta ár ef athæfið leiðir til dauða annars einstak­lings.

 „Það þarf öfluga varnagla til að tryggja að allar aðgerðir sem skerða mann­rétt­indi þegar neyð­ar­ástand ríkir séu bráðnauð­syn­legar og hóflegar til að vernda heilsu almenn­ings. Þessi nýju lög gefa stjórn­völdum ótak­mörkuð völd umfram þann tíma sem farald­urinn geisar.“

David Vig, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Ungverjalandi.

Mannréttindi

Frá því að Viktor Orbán tók við embætti forsæt­is­ráð­herra hafa mann­rétt­indi verið skert í Ungverjalandi sem hefur ýtt undir vaxandi óvild gagn­vart jaðar­hópum og er tilraun til að þagga niður í gagn­rýn­is­röddum. Ótak­markað umboð stjórn­valda mun aðeins hraða á skerð­ingum mann­rétt­inda.

Evrópu­ráðið, Evrópu­þingið, Alþjóða­stofnun blaða­fólks og Öryggis- og Samvinnu­stofnun Evrópu eru meðal þeirra sem hafa gagn­rýnt nýju lögin.

Amnesty Internati­onal kallar eftir því í opin­berri yfir­lýs­ingu að ungversk stjórn­völd tryggi mann­rétt­indi í öllum aðgerðum sínum í barátt­unni gegn kórónu­veirufar­aldr­inum og að viðeig­andi eftirlit löggjaf­ar­valds og dómstóla sé haft með þeim aðgerðum sem gripið er til í þessu neyð­ar­ástandi.

Lestu einnig