Yfirlýsing
18. desember 2025
Vegna frétta um ungu konuna sem þjáist af þunglyndi og ýmsum röskunum og hefur samkvæmt þeim verið meira eða minna í einangrun í fangelsinu á Hólmheiði vill stjórn Íslandsdeildar Amnesty International koma eftirfarandi á framfæri.
Mál konununna hefur vakið athygli okkar og áhyggjur. Við minnum á að samkvæmt alþjóðalögum skalbeiting einangrunarvistar heyra til algjörra undantekninga, hún skal vara í sem skemmstan tíma og ávallt vera háð ströngum skilyrðum. Neikvæð heilsufarsáhrif geta komið í ljós eftir aðeins örfáa daga í einangrun. Sjálfsvígshætta og sjálfsskaði eykst á fyrstu tveimur vikum einangrunarvistar. Hætta á heilsutjóni eykst með degi hverjum í einangrun.
Í samræmi við alþjóðlegt bann gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu ætti aldrei að hafa fólk í viðkvæmri stöðu í einangrunarvist, svo sem fólk með fötlun, geðraskanir eða taugaþroskaraskanir, þar sem einkenni gætu versnað við einangrun sem er því líkleg til að valda skaða. Að sama skapi er það skýrt brot á banni Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum að einstaklingur sæti langvarandi einangrunarvist, þ.e. lengur en í 15 daga.
Amnesty International minnir jafnframt á gagnrýni CPT-nefndar Evrópuráðsins, sem heimsótti Ísland í maí 2019 og gerði úttekt á fangelsum landsins. Nefndin lýsir þar yfir alvarlegum áhyggjum yfir því að fangar á Íslandi hafi mjög takmarkaðan aðgang að geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu. Nefndin kallaði á íslensk stjórnvöld að grípa tafarlaust til aðgerða til að tryggja að fangar með geðraskanir sem þurfa á geðheilbrigðismeðferð að halda séu vistaðir á viðeigandi stofnunum með fullnægjandi þjónustu.
Við köllum eftir því að íslensk stjórnvöld komi tafarlaust á mikilvægum umbótum og tryggi rétt þeirra sem sitja í fangelsi að vera frjáls undan pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Virðingarfyllst,
Eva Einarsdóttir
f.h. stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International
Formaður Íslandsdeildar Amnesty International
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu