Yfirlýsing

4. júlí 2019

Yfir­lýsing vegna brott­vísana barna á flótta

Í dag, þann 4. júlí 2019, sendi ungl­iða­hreyfing Amnesty Internati­onal ásamt ungmenna­ráði UNICEF á Íslandi, ungmenna­ráði Barna­heilla og ráðgjaf­ar­hóps Umboðs­manns barna frá sér sameig­in­lega yfir­lýs­ingu vegna brott­vísana barna á flótta aftur til Grikk­lands. Ungmenna­ráðin skora á yfir­völd að grípa til aðgerða og vernda börn á flótta eins og þeim ber skylda til, sama hvað það kostar.

Yfir­lýs­ingin í heild sinni:

Sameig­inleg yfir­lýsing ungmenna­ráðs UNICEF á Íslandi, ungmenna­ráðs Barna­heilla, Ráðgjaf­ar­hóps Umboðs­manns barna og ungl­iða­hreyf­ingar Amnesty Internati­onal vegna brott­vísana barna á flótta.  

Sein­ustu daga hefur mikið verið fjallað um brott­vís­anir barna á flótta frá Íslandi og þá sérstak­lega mál ​Shahnaz Safari og barna henn​ar tveggja, Zainab og Amil. Mikil samstaða er á milli ráðanna sem standa að þessari yfir­lýs­ingu um að brott­vís­anir barna til Grikk­lands, þar sem þau hafa fengið alþjóð­lega vernd en hafa þrátt fyrir það leitað hingað til lands, þurfi að stöðva og sömu­leiðis brott­vís­anir fjöl­skyldna með börn.

Árið 2013 lögfesti Ísland Barna­sátt­málann og hefur hann því sama gildi og hver önnur lög og ber stjórn­völdum þá skylda til að fram­fylgja honum jafnt öðrum lögum. Í Barna­sátt­mál­anum stendur:

,,Aðild­ar­ríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau rétt­indi sem kveðið er á um í samn­ingi þessum, án mismun­unar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litar­háttar, kynferðis, tungu, trúar­bragða, stjórn­mála­skoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóð­ernis, þjóð­hátta eða félags­legrar stöðu, eigna, fötl­unar, ætternis eða annarra aðstæðna.” Einnig segir að ,,Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félags­mála­stofn­anir á vegum hins opin­bera eða einka­aðila, dómstólar, stjórn­völd eða löggjaf­ar­stofn­anir gera ráðstaf­anir sem varða börn.​”

UNICEF á Íslandi og önnur félaga­samtök hafa reynt að vekja athygli á því að aðstæður flótta­barna í Grikklandi eru óvið­un­andi og er það skoðun ráðanna að það sé alls ekki verið að gæta hags­muna barna með því að vísa þeim þangað, heldur þvert á móti. Aðstæðum í Grikklandi hefur verið lýst sem ógnandi og ómann­úð­legum. Þar er lítið aðgengi að grunn­menntun fyrir börn og lítill stuðn­ingur í boði vegna fjölda flótta­manna. Ísland er í þeirri stöðu að geta tekið á móti umræddum börnum og veitt þeim: tæki­færi til mennt­unar, aðgengi að heil­brigðis­kerfi og annan stuðning. Börn eiga ekki að þurfa að flakka á milli landa. Börn eiga alltaf rétt á vernd sama í hvaða ríki þau dvelja og þá sérstak­lega í velferð­ar­ríki eins og á Íslandi.  Hættum að synja börnum um tæki­færi til að alast upp í öruggu umhverfi.

Stjórn­völd þurfa að virða Barna­sátt­málann og tryggja að honum sé fram­fylgt svo rétt­indi barna á flótta séu ávallt tryggð. Byrjum að taka Barna­sátt­málann alvar­lega því börnin okkar og börnin sem hingað koma eru framtíð okkar og nútíð. Ekkert segir jafn­mikið um þjóð­félag eins og hvernig það hugsar um börnin sín og Ísland ætti að vera fremst í flokki hvað það varðar. Barna­sátt­málinn nær til allra barna innan lögsögu Íslands og ætti ekkert barn á Íslandi að þurfa óttast hvar það gistir í næstu viku eða að fá ekki grunn­menntun eða vernd.

Við skorum á yfir­völd að grípa til aðgerða og vernda börn á flótta eins og stjón­völdum ber skylda til, sama hvað það kostar!

Lestu einnig