Friðsamir mótmælendur voru handteknir á Bretlandi fyrir að mótmæla banni við Palestine Action-aðgerðahópnum sem tók gildi 5. júlí 2025. Í ágúst voru rúmlega 700 mótmælendur handteknir í London og víðar um Bretland. Til viðbótar voru 857 mótmælendur handteknir í London á einum degi, þann 6. september.
Ákærur
Úr þessum hópi hafa um 114 mótmælendur verið ákærðir fyrir hryðjuverkatengd brot á grundvelli hryðjuverkalaga í Bretlandi og hætta er á að fleiri verði ákærðir. Sjö talsmenn aðgerðahópsins Defend Our Juries (DOJ) voru handteknir 2. september fyrir að skipuleggja mótmælin 6. september og eiga yfir höfði sér allt að níu ára fangelsisdóm.
Friðsamleg mótmæli
Friðsamir mótmælendur voru handteknir fyrir skilaboðin: „Ég er á móti hópmorði. Ég styð Palestine Action-aðgerðahópinn (e. I Oppose Genocide. I Support Palestine Action). Mótmælendur hafa rétt á að tjá andúð sína á hópmorði sem Ísrael fremur gegn Palestínubúum á Gaza.
Lögreglan í London gaf út yfirlýsingu eftir mótmælin 6. september þar sem fram kom að mótmælendur hefðu reynt að hvetja til ofbeldis gegn lögreglu. Amnesty International vaktaði þessi mótmæli og telur yfirlýsinguna ekki gefa rétta mynd af mótmælunum. Aftur á móti sást til lögreglu beita hörku með því að hrinda mótmælendum og draga upp kylfur.
Alþjóðalög
Samkvæmt alþjóðalögum sem Bretlandi ber að framfylgja þurfa allar takmarkanir á tjáningar- og fundafrelsinu að vera lögmætar, nauðsynlegar og gæta meðalhófs. Aðeins skal tjáning sem hvetur til ofbeldis, haturs eða mismununar vera refsiverð. Stuðningur við aðgerðir í þágu Palestínu telst ekki hvatning til neins af þessu.
Gríptu til aðgerða
Skrifaðu undir og krefstu þess að bresk yfirvöld felli niður ákærur á hendur mótmælendum sem voru handteknir fyrir það eitt að nýta sér tjáningar- og fundafrelsið með friðsamlegum hætti.