Að minnsta kosti tíu einstaklingar í Íran eiga yfir höfði sér aftöku í kjölfar dauðadóma í tengslum við mótmæli sem áttu sér stað víðs vegar um landið í september til desember 2022 í uppreisn sem kennd var við slagorðið „Kona, líf, frelsi“. Sumir þeirra hafa verið beittir pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð, svo sem barsmíðum, raflosti og kynferðislegu ofbeldi.
Írönsk yfirvöld hafa nú þegar tekið tíu einstaklinga af lífi sem voru dæmdir til dauða í tengslum við mótmælin í kjölfar sýndarréttarhalda. Áhyggjur eru um frekari aftökur í aftökuhrinu yfirvalda. Frá því að uppreisnin hófst árið 2022 hafa írönsk yfirvöld beitt dauðarefsingunni í auknum mæli til að vekja ótta hjá fólki og herða valdatök sín. Árið 2023 tóku írönsk yfirvöld að minnsta kosti 853 einstaklinga af lífi sem er 48% aukning frá árinu 2022. Árið 2024 héldu írönsk yfirvöld áfram að beita dauðarefsingunni, þar með talið á gegn minnihutahópum og mótmælendum.
Dauðarefsingin hefur bitnað hlutfallslega verst á einstaklingum af þjóðarbrotinu Baluchi, sem eru einungis 5% íbúa í Íran en 20% þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi árið 2023 voru Baluchi.
Amnesty International fordæmir dauðrefsinguna og er alfarið á móti henni í öllum tilfellum án undantekninga. Dauðarefsingin er brot á réttinum til lífs sem kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Skrifaðu undir ákall um að írönsk stjórnvöld ógildi dauðadóma yfir friðsama mótmælendur og leysi úr haldi þá mótmælendur sem eru í haldi fyrir það eitt að tjá sig með friðsamlegum hætti.