Abdulrahman al-Sadhan, 41 árs starfsmaður Rauða hálfmánans (systurfélag Rauða krossins), var handtekinn af yfirvöldum á vinnustað sínum í Sádi-Arabíu þann 12. mars 2018. Í næstum tvö ár var hann í engu sambandi við fjölskyldu sína en í febrúar 2020 fékk hann loks að hringja í hana og gat látið vita í hvaða fangelsi hann væri. Hann sagði að hann hefði sætt pyndingum fyrstu mánuðina í leynilegu fangelsi. Hann var meðal annars barinn, látinn hanga úr lofti, settur í einangrun og honum gefið raflost. Heilsu og líðan hans hrakaði verulega í kjölfarið.
Hann var dæmdur af sérstaka sakamáladómstólnum í Riyad þann 5. apríl 2021 í 20 ára fangelsi og 20 ára ferðabann að lokinni afplánun. Hann var meðal annars ákærður fyrir „að undirbúa, geyma og senda út efni sem er skaðvænlegt fyrir allsherjarreglu og trúarleg gildi“ vegna háðsádeilu á Twitter (nú X) þar sem yfirvöld voru gagnrýnd á reikningi sem ákæruvaldið sakaði hann um að stjórna. Ákærur á hendur honum byggðust einnig á þvingaðri „játningu“ hans.
Dómur var kveðinn upp í lokuðum dómssal án viðurvist lögfræðings eða föður hans sem hafði aðstoðað við vörn hans. Í október 2021 staðfesti áfrýjunardómstóll Sádi-Arabíu sakfellinguna og dóminn í sýndarréttarhöldum þar sem honum var aftur neitað um lögfræðing.
Hann fær ekki að vera í sambandi við fjölskyldu sína.
Skrifaðu undir og krefstu þess að Abdulrahman al-Sadhan verði skilyrðislaust leystur úr haldi án tafar þar sem hann er í haldi fyrir það eitt að tjá sig friðsamlega.