Dr. Suwilanji Situmbeko, sem vill helst vera kallaður Stukie, var sóttur til saka fyrir samkynhneigð. Hann hefur verið í ólögmætu varðhaldi síðan 19. nóvember 2021 fyrir kynferðislegt athæfi með öðrum manni á bar í september 2021.
Maður sem varð vitni að athæfinu kom til Stukie þegar hann var að fara af barnum til að beita hann fjárkúgun. Þegar Stukie neitaði að borga tilkynnti maðurinn málið til lögreglunnar og þá sömu nótt var hann handtekinn.
Rúmu ári síðar, 6. desember 2022, var Stukie dæmdur í 15 ára fangelsi ásamt erfiðisvinnu.
Stukie þarf á lyfjum að halda vegna geðhvarfasýki en fangelsisyfirvöld útvega honum ekki lyf og sinna ekki þörfum hans tengdum mataræði. Amnesty International hefur í samstarfi með öðrum samtökum reynt að sjá til þess að Stukie fái þau lyf og mat sem hann þarfnast.
Málinu hefur verið áfrýjað en lítil von er um að dómnum verði hnekkt. Helsta von Stukie er að hljóta náðun forseta á öðrum af tveimur hátíðardögum þar sem forsetinn veitir náðanir árlega.
Skrifaðu undir ákall um að Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra þrýsti á sambísk stjórnvöld um að ógilda dóminn yfir Stukie og láta hann lausan tafarlaust og án skilyrða.