Í rúman áratug hafa yfirvöld í Aserbaísjan skert borgaralegt rými. Félagasamtök hafa verið lögð niður af geðþóttaástæðum. Aðgerðasinnar sem hafa barist fyrir umhverfismálum og samfélagslegum úrbótum, ásamt fjölmiðlafólki hafa verið handtekin eða þvinguð í útlegð.
Eftir að ljóst varð, á síðasta ári, að Aserbaísjan yrði gestgjafi fyrir COP29 hafa þöggunaraðgerðir stjórnvalda gegn gagnrýnisröddum aukist, með auknum handtökum og varðhaldi af geðþóttaástæðum ásamt málsóknum gegn fjölda aðgerðasinna og fjölmiðlafólks.
Anar Mammadli er mikilvirkur mannréttindasinni og talsmaður fyrir loftslagsmál, hefur kallað eftir meiri aðkomu borgaralegs samfélags á COP29. Hann var handtekinn 29. apríl 2024 og settur í gæsluvarðhald. Hann þarf að svara fyrir falskar ákærur um að flytja fjármuni ólöglega inn í landið. Ef sakfelldur á hann yfir höfði sér átta ára fangelsisdóm.
Gubad Ibadoghlu er aðgerðasinni gegn spillingu og fræðimaður sem situr í gæsluvarðhaldi vegna falskra ákæra. Varðahald hans er skýr refsiaðgerð vegna skoðana hans og samfélagsstarfs.
Fölskum ákærum hefur verið beitt gegn fjölda sjálfstæðs fjölmiðlafólks. Nokkur þeirra eru Ulvi Hasanli, Svinj Vagifgyzy og Nargiz Absalamova, sem hafa þar á meðal fjallað um mótmæli gegn aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Þau eru enn í gæsluvarðhaldi og eiga á hættu að sæta pyndingum og ómannúðlegri meðferð, sem er þekkt misbeiting á réttarkerfinu til að þagga niður í gagnrýnendum stjórnvalda.
Starf sjálfstæðra fjölmiðla á borð við Abzas, Kanal 13, Toplum TV ásamt öðrum hefur laskast við handtökur og pólitískt drifnar ákærur gegn lykilstarfsfólki miðlanna.
Þátttaka aðgerðasinna og borgaralegra félagasamtaka, ásamt fjölmiðlafrelsi, er mikilvægt til að tryggja inngildandi og gagnlegar samræður á COP29. Aðförin að borgaralegu rými í Aserbaísjan hefur í för með sér að mikilvægar raddir muni vanta eða þær verði þaggaðar niður og réttlæti í loftslagsmálum mun ekki ná fram að ganga.
Aserbaísjan verður að hætta að þagga niður gagnrýni. Skrifaðu undir og sýndu samstöðu með þeim sem hafa hlotið refsingu fyrir að draga stjórnvöld sín til ábyrgðar.