Fréttir
28. nóvember 2025
Fjórir ungliðar Amnesty International frá Írlandi, Argentínu og Frakklandi afhentu TikTok undirskriftir í Dublin á Írlandi 25. nóvember til að krefjast þess að fyrirtækið breyti skaðlegri og ávanabindandi hönnun sem útsetur börn og ungmenni fyrir skaðlegu efni. Amnesty International safnaði samtals 170.260 undirskriftum víða um heim frá einstaklingum sem kalla eftir því að TikTok verði gert öruggara fyrir börn og ungmenni. Á Íslandi söfnuðust 3.018 undirskriftir.
Rannsókn Amnesty International
Rannsókn Amnesty International sýnir að viðskiptamódel TikTok setur athygli notenda í forgang með því að gera þá háða miðlinum og byggir á viðamikilli gagnasöfnun til að fá til sín auglýsendur.
Amnesty International hefur ítrekað komist að því að sérsniðnar tillögur TikTok geta ýtt börnum og ungu fólki í átt að efni sem tengist sjálfsskaða, þunglyndi og sjálfsvígum.
Ungmenni í Frakklandi sem ræddu við Amnesty International í nýlegri rannsókn sögðu frá stöðugum straumi myndbanda þar sem sjálfsskaði og sjálfsvíg voru gerð eðlileg og hvatt til þeirra eftir að hafa skoðað efni tengt geðheilsu.
„Að sjá fólk skera sig, fólk sem segir hvaða lyf á að taka til að enda allt saman, það hefur áhrif og hvetur þig til sjálfsskaða.“
Maëlle, 18 ára í Frakklandi.
Foreldrar sem hafa misst börn sín af völdum sjálfsvíga lýstu hryllingnum við að uppgötva efnið sem TikTok hafði beint að börnum þeirra.
„Fyrir þessa miðla eru börnin okkar orðin að vöru frekar en manneskjum. Börnin okkar eru notuð sem vara í gegnum algóritmann og og tilfinningar þeirra eru notaðar til að fanga athygli þeirra. Algóritminn veit um áhugamál þeirra sem er ekki eðlilegt. Það er verið troða sér inn í einkalíf barnsins.“
Stéphanie Mistre, móðir stúlkunnar Marie Le Tiec sem tók sitt eigið líf 15 ára gömul árið 2021 eftir að hafa fengið til sín stöðugt streymi af þunglyndislegu efni á TikTok.
Algóritminn hjá TikTok
Rannsakendur Amnesty International settu meðal annars upp þrjá aðganga fyrir unglinga, tvær stúlkur og einn dreng sem voru skráð 13 ára í Frakklandi, til að skoða hvaða sérsniðnar tillögur algóritminn kæmi með fyrir notendurna (undir tillögur „for you“).
Innan við fimm mínútna áhorfi án þess að gefa til kynna áhugasvið fengu notendaaðgangarnir efni um depurð og brostnar vonir. Með því að horfa á efnið jókst til muna efni tengt depurð og geðheilsu. Ekki voru liðnar meira en 15-20 mínútur frá upphafi tilraunarinnar þegar allir aðgangarnir fengu nær eingöngu efni tengt geðheilsu og um helmingur efnisins var efni tengt þunglyndi. Tveir aðgangar fengu myndbönd þar sem talað var um sjálfsvígshugsanir innan við 45 mínútur frá opnun þeirra.
Árið 2023 gaf Amnesty International út tvær skýrslur sem greindi frá því hvernig tillögukerfi TikTok og ágeng gagnaöflun ýtir undir efni tengd þunglyndi og sjálfsvígum sem setur unga notendur með undirliggjandi geðrænar áskoranir í aukna hættu. Þrátt fyrir að TikTok tilkynnti árið 2024 að gripið yrði til aðgerða til að draga úr þessari hættu eru viðkvæmir notendur enn að sjá efni sem gerir sjálfsskaða, örvæntingu og sjálfsvígshugsanir að eðlilegum hlut.
TikTok verður að gera miðilinn öruggan fyrir börn og ungmenni þar sem þau geta átt í félagslegum samskiptum, lært og haft aðgang að upplýsingum án þess að verða fyrir skaða.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu