Góðar fréttir

22. mars 2019

Árangur Bréf til bjargar lífi 2018

Árangur hefur náðst í tveimur málum herferðar okkar Bréf til bjargar lífi 2018. Annars vegar hafa orðið fram­farir í máli frá Bras­ilíu og hins vegar í máli frá Úkraínu.

Fram­fara­skref í rann­sókn á morði Marielle Franco

Lögreglan í Bras­ilíu hefur hand­tekið tvo karl­menn í Ríó De Janeiro fyrir morðið á mann­rétt­inda­fröm­uð­inum Marielle Franco og bílstjóra hennar Anderson Gomes þann 14. mars 2018.

„Nú er liðið um ár síðan Marielle Franco var myrt í grimmi­legri árás sem hafði alvarleg áhrif á þau samfélög sem hún barðist fyrir. Morðið á Marielle var augljóst tilræði til að þagga niður í hugrakkri baráttu­konu fyrir mann­rétt­indum sem hafði helgað líf sitt baráttu fyrir málstað kvenna, hinsegin fólks og ungs svarts fólks í fátækra­hverfum Ríó,“ segir Erika Guevara-Rosas fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal Amer­íku­svæð­isins.

„Hand­tök­urnar eru fyrstu fram­far­irnar í rann­sókn sem hefur lítið þokat áfram á síðast­liðnu ári frá því morðið átti sér stað. Við köllum eftir því að bras­ilísk yfir­völd tryggi að rann­sóknin sé óháð og hlut­laus og að hinir ábyrgu, einnig þeir sem fyrir­skipuðu morðið, verði dregnir fyrir dóm í sann­gjörnum rétt­ar­höldum. Besta leiðin til að heiðra minn­ingu Marielle Franco er að sjá til þess að mann­rétt­inda­fröm­uðir fái vernd sem tryggir öryggi þeirra til að geta haldið áfram mikil­vægu starfi sínu,“ segir Erika Guevara-Rosas að lokum.

Bras­ilía er eitt hættu­leg­asta landið í heim­inum fyrir baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum. Bras­ilísk yfir­völd hafa ekki verið að standa sig í að rann­saka morð á mann­rétt­inda­fröm­uðum sem lögreglan er flækt í. Hundruð þúsunda einstak­linga kölluðu eftir rétt­læti fyrir Marielle í herferð Amnesty Internati­onal, Bréf til bjargar lífi 2018. Hér á landi söfn­uðust yfir 5000 undir­skriftir í hennar máli ásamt tugum stuðn­ingskveðja til fjöl­skyldu hennar.

Lögreglan verndar fjölda­fund kvenna í Úkraínu

Vitalina Koval, ein af baráttu­konum fyrir mann­rétt­indum í herferð okkar Bréf til bjargar lífi, skipu­lagði fjölda­fund kvenna í Uzhg­orod í vest­ur­hluta Úkraínu sem haldinn var án vand­kvæða þann 8. mars síðast­liðinn á alþjóða­degi kvenna. Lögreglan veitti vernd á fund­inum sem var mikil­vægt því árið 2017 og 2018 var Vitalina skot­mark hóps hægri-öfga­sinna á sams­konar fjölda­fundi án verndar lögreglu. Vitalina Koval bíður enn rétt­lætis fyrir árás sem hún varð fyrir 2018 þegar sex aðilar köstuðu máln­ingu að henni sem olli efna­bruna í augum.

Hægri-öfga­hópur var á staðnum og hafði haft hátt um að ætlunin væri að valda usla á fjölda­fund­inum. Þökk sé víðtækum þrýst­ingi innan­lands sem og utan, þar á meðal herferð Amnesty Internati­onal Bréf til bjargar lífi 2018, var gripið til viðeig­andi aðgerða til að tryggja öryggi á fund­inum í ár.

Lestu einnig