Fréttir

5. mars 2020

Evrópa: Fólk ákært fyrir mann­úð­ar­störf

Víða um Evrópu er fólk saksótt og áreitt fyrir að aðstoða farand- og flótta­fólk og umsækj­endur um alþjóð­lega vernd, m.a. fyrir dreifa hlýjum fötum, bjóða upp á húsa­skjól og bjarga manns­lífum á hafi úti.

Ný skýrsla Amnesty Internati­onal greinir fá því að lögregla og saksókn­arar beita lögum gegn smygli og hryðju­verkum til að herja á baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum sem aðstoðar – og flótta­fólk og umsækj­endur um alþjóð­lega vernd.

Í skýrsl­unni kemur fram að baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum stóð frammi fyrir röngum sakargiftum árin 2018 og 2019 í Króatíu, Frakklandi, Grikklandi, Sviss, Bretlandi, á Möltu, Ítalíu og Spáni. Greint er frá því að störf lögreglu, dómsúr­ræði og löggjöf sem eru í raun ætluð til að berjast gegn glæp­sam­legum smygl­hringum, er beitt gegn fólki sem aðstoðar farand- og flótta­fólk og umsækj­endur um alþjóð­lega vernd.

GLÆPUR AÐ BJÓÐA HLÝ FÖT OG HÚSASKJÓL

Herjað hefur verið á einstak­linga og samtök fyrir ýmiss konar mann­úð­ar­störf víða í Evrópu:

Franskur fjalla­leið­sögu­maður, Pierre Mumber, var ákærður fyrir að hafa boðið fjórum umsækj­endum um alþjóð­lega vernd frá Vestur-Afríku sem komu óskráðir inn í Frakk­land, heitt te og hlý föt. Hann var að lokum sýkn­aður að áfrýjun lokinni. Ströng landa­mæra­gæsla er í Ölpunum í Frakklandi.

Í Sviss hefur fólk verið saksótt og sakfellt fyrir það eitt að veita húsa­skjól eða aðstoða erlenda ríkis­borgara í leit að vernd. Sviss­neska þingið mun standa fyrir umræðum á næstu dögum sem gætu leitt til þess að lögum verði breytt. Amnesty Internati­onal kallar eftir því að lögð verði fram undan­þága til að tryggja það að samstaða sé ekki skil­greind sem glæpur.

Frjáls félaga­samtök í Króatíu hafa orðið fyrir áreitni, ógnun og verið sótt til saka fyrir að skrá og tilkynna óhóf­legt vald lögreglu gegn fólki sem er þvingað til baka við landa­mæri Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu.

Á Ítalíu hefur björg­un­ar­fólk sem hefur bjargað lífi þeirra sem koma til Evrópu á ótryggum bátum sætt rógher­ferð, lögreglu­rann­sókn og þurft að fylgja reglum sem geta seinkað björgun og gert það að verkum að ekki er hægt að koma fólkinu sem er bjargað að landi. Lögregla hefur ítrekað gert báta frjálsra félaga­sam­taka upptæka sem þýðir færri báta til björg­un­ar­að­gerða þrátt fyrir að fjöldi dauðs­falla hafi aukist síðast­liðin tvö ár.

Misbeiting stjórn­sýslu­laga á Spáni hefur haft heft­andi áhrif á björg­un­ar­að­gerðir frjálsra félaga­sam­taka þar sem þeim er hótað sekt upp á 900 þúsund Evrur.

Sarah Mardini og Seán Binder, sem eru þjálfuð í björg­un­ar­að­gerðum, voru hand­tekin á eyjunni Lesbos á Grikklandi árið 2018. Þau bíða rétt­ar­halda vegna tilhæfu­lausra ákæra um njósnir og fyrir að veita óskráðu fólki aðstoð inn í landið.

BARÁTTUFÓLK FYRIR MANNRÉTTINDUM VERÐSKULDAR VERND

Samkvæmt yfir­lýs­ingu Sameinuðu þjóð­anna um baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum er fólk sem grípur til aðgerða til að aðstoða og vernda mann­rétt­indi skil­greint sem baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum.

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að Evrópu­sam­bandið og aðild­ar­ríki þess geri úrbætur á lands­lögum og lögum Evrópu­sam­bandsins með skýrum ákvæðum svo ekki sé hægt að beita lögum til að refsa fyrir samstöðu og mannúð.

Leið­togar Evrópu þurfa að gera ráðstaf­anir til að innleiða yfir­lýs­ingu Sameinuðu þjóð­anna um baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum innan Evrópu­sam­bandsins til að tryggja að fólk verði ekki saksótt fyrir að sinna störfum í þágu mann­rétt­inda.

„Yfir­völd verða að hætta að gera baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum að glæpa­mönnum. Sögu­bæk­urnar munu ekki fara fögrum orðum um stjórn­völd sem telja að það sé glæpur að bjarga fólki,“

Elisa De Pieri, rann­sak­andi Amnesty Internati­onal.

Baráttufólk fyrir mannréttindum í Evrópu

Sarah Mardini, Grikk­land

„Við aðstoð­uðum fólk í neyð. Við gætum þurft að afplána 25 ára fang­els­isdóm fyrir að aðstoða þá sem lifðu af sjáv­ar­háska. Ef þú spyrð mig núna hvort ég myndi breyta einhverju, vitandi það að líf mitt myndi umturnast í kjöl­farið, þá get ég sagt ykkur það að ég myndi gera nákvæm­lega hið sama.“

Seán Binder, Grikk­land

„Mann­úð­ar­störf eru hvorki glæpur né hetjudáð. Að upphefja mann­úð­ar­störf sem hetjudáð er ekki til hins betra því það gæti ýtt undir að það sé talið eðli­legt að veita ekki aðstoð. Að veita hvort öðru aðstoð ætti að vera full­kom­lega eðli­legt.“

Daniel Rivas, Salvamento Maritimo Humanit­ario, Spánn

„Mér finnst ég hafa verið einfaldur. Við fylgdum regl­unum. Við vorum þrjá mánuði að breyta fisk­veiðibát til að uppfylla tækni­legar kröfur. Margir sjálf­boða­liðar og sérfræð­ingar komu að því og unnu frítt. Við erum réttu megin við alþjóðalög en leik­reglur geta breyst fyrir­vara­laust. Núna er lagaramminn óljós og okkur er hótað sektum. Við gætum þurft að sætta okkur við að geta ekki farið með bátinn aftur til Spánar.“

Stephanie Besson, Frakk­land

„Við björgum án mismunar í fjöll­unum. Farand­fólk sem hefur dáið eru einstak­lingar sem misstu líf sitt, hvert og eitt þeirra átti sína sögu og bar nafn. Við erum á móti smygl­urum, mín helsta barátta er fyrir rétt­indum flótta­fólks. Ég bjarga fólki en ég er engin hetja. Ég geri það sem þarf að gera. Í desember 2017 þegar fjöldinn jókst áttuðum við okkur á því að fjöllin væru hættuleg. Við settum upp skilti í fjöll­unum á eritresku, arab­ísku, frönsku og ensku til að vara við hættu.“

Pierre Mumber, Frakk­land

„Á 55 ára lífs­skeiði mínu hef ég aldrei verið upp á kant við lögregluna. Það sem sló mig voru fyrstu samskiptin við þá, hvernig lögreglan kom fram við farand- og flótta­fólkið. Það var eins og það væri ekki til. Þú veist ekki hvað það hefur gengið í gegnum, þú veist ekki hve lengi það hefur gengið í snjónum.“

Samtökin, Are you Syrious, Króatía

„Bíllinn okkar var eyði­lagður og gluggar á skrif­stof­unni okkar voru brotnir. Meið­andi orðum var spreyjað á bílinn okkar og starfstöð. Við höfum tilkynnt öll atvikin til lögreglu en söku­dólgarnir hafa ekki fundist.“

Lestu einnig