Fréttir

1. ágúst 2019

Fordæmi Íslands veitir vonarglætu

Þann 30. júlí sl. birtist pistill í Frétta­blaðinu og á Vísi.is eftir Hilary Power, tals­mann Amnesty Internati­onal, Lailu Matar, full­trúa Mann­rétt­inda­vakt­ar­innar hjá Sameinuðu þjóð­unum, og Rosanno Ocampo, dagskrár­full­trúa og tengilið FORUM ASIA hjá Sameinuðu þjóð­unum. Efni pist­ilsins varðaði ályktun Íslands í Mann­rétt­inda­ráði SÞ um mann­rétt­inda­ástandið á Filipps­eyjum. Íslands­deild Amnesty Internati­onal birtir pist­ilinn einnig hér:

Það sem við urðum vitni að hjá Mann­rétt­inda­ráði Sameinuðu þjóð­anna fyrr í þessum mánuði var í senn hvetj­andi og gríð­ar­lega mikil­vægt. Við sáum Ísland sýna leið­toga­færni sína í verki með því að setja fram og koma í gegn ályktun um að koma mann­rétt­inda­málum Filipps­eyja á dagskrá SÞ. Þúsundir hafa verið teknir af lífi á Filipps­eyjum í hinu svokallaða „stríði gegn fíkni­efnum“ sem Rodrigo Duterte forseti hóf og hafa þeir sem berjast fyrir mann­rétt­indum og eru gagn­rýnir á stjórn­völd í landinu mátt þola hótanir og ógnanir.

Fyrir okkur sem störfum í ráðinu skipti þetta sköpum, sérstak­lega fyrir Filipps­ey­ingana í hópnum. Þetta var mark­viss stefnu­breyting frá algjöru refsi­leysi fyrir þá skelfi­legu glæpi sem ríkis­stjórn Duterte hefur framið gagn­vart þúsundum, í átt til ábyrgðar. Þessi glæta vonar og rétt­lætis olli því að margir brustu í grát.

Umfang álykt­un­ar­innar, sem var samþykkt af ríkjum um allan heim, er látlaust. Einfald­lega er beðið um skýrslu Mann­rétt­inda­stofn­unar SÞ um ástandið á Filipps­eyjum. Sérfræð­ingar SÞ og samtaka okkar hafa kallað eftir ítar­legri rann­sókn, en við sjáum að álykt­unin er mikil­vægt skref í áttina að því að takast á við þá krísu í mann­rétt­inda­málum sem hefur kostað svo mörg líf á Filipps­eyjum.

Hinn mikli fjöldi drápa á Filipps­eyjum gerðist ekki af sjálfu sér, heldur vegna stefnu ríkisins sem mörkuð var í efstu lögum. Duterte sjálfur hefur margsinnis hvatt til drápa á fólki tengdu fíkni­efna­heim­inum. Hann segir: „Fyrir­skipun mín er að þið séuð skotin og drepin. Trúið mér þegar ég segi að mann­rétt­indi skipta mig engu máli.“ Þá hefur hann einnig heitið því að halda vernd­ar­hendi yfir lögreglu­mönnum og öðrum sem drepa, svo þeir þurfi ekki að svara fyrir það í rétt­arsal.

Samkvæmt áreið­an­legum áætl­unum frá sjálf­stæðum félaga­sam­tökum og Mann­rétt­inda­ráði Filipps­eyja hafa fleiri en 27 þúsund manns verið drepin í „eitur­lyfja­stríðinu“. Jafnvel lögreglan sjálf viður­kennir að hafa drepið fleiri en 6.600 manns en reynir að rétt­læta drápin á grund­velli þess að öll fórn­ar­lömbin hafi „barist til baka“. En samkvæmt mann­rétt­inda­sam­tökum og fjöl­miðlum hefur lögreglan skipu­lega komið fyrir sönn­un­ar­gögnum á fórn­ar­lömbum sínum, til dæmis byssum og eitur­lyfjum, til að rétt­læta drápin. Lögreglan hefur einnig notað þessar aðferðir til að aðstoða þriðja aðila við að komast upp með dráp.

Ályktun Mann­rétt­inda­ráðsins er ekki úr lausu lofti gripin. Ísland hefur þegar leitt þrjár yfir­lýs­ingar, sem studdar voru af nærri 40 ríkjum, árin 2017 og 2018. Sú síðasta gaf vísbend­ingu um að formleg ályktun væri í vændum ef stjórn­völd á Filipps­eyjum breyttu ekki stefnu sinni. Bæði fyrr­ver­andi og núver­andi yfir­menn mann­rétt­inda­mála SÞ vöruðu einnig við þessu. Í febrúar árið 2018 tilkynnti Alþjóða­dóm­stóllinn í Haag að rann­sókn myndi fara fram. Stjórn­völd á Filipps­eyjum hafa haft nægan tíma til að stöðva drápin og rann­saka brot. En þau gerðu það ekki.

 

Þess í stað halda líkin áfram að hrannast upp í þétt­býli Maníla og annars staðar í landinu. Börn úr fátæk­ustu kimum samfé­lagsins halda áfram að verða munað­ar­laus þegar fyrir­vinnur þeirra eru drepnar. Áfram er logið upp á gagn­rýn­endur stjórn­valda og þeir niður­níddir og áreittir. Gerendur er ekki sóttir til saka, nema í einu tilviki sem náðist á mynd­bands­upp­töku og sýndi lögreglu­menn drepa varn­ar­lausan ungling. Drápin halda áfram á hverjum degi og Duterte forseti hefur heitið því að stríð hans muni harðna enn frekar. Á sama tíma og Mann­rétt­inda­ráðið ræddi álykt­unina sem Íslands setti fram, drap lögreglan þriggja ára stúlku, að nafni Myka, í aðgerð á heimili hennar nálægt Maníla.

Á sama tíma reyndu stjórn­völd á Filipps­eyjum að fá ríki um allan heim til að stöðva álykt­unina, með fals­fréttum um ástandið í landinu. Fram­ganga þeirra og harka kom öllum á óvart, meira að segja þeim okkar sem fylgst höfum með stærri og öflugri ríkjum reyna að bæla niður mann­rétt­inda­álykt­anir gagn­vart sér. Aðferð­irnar eru þó ekki nýjar af nálinni. Á meðan Filipps­eyjar hafa reynt að láta líta svo út að þær séu samstarfsfús meðlimur ráðsins, þá hafa þarlend stjórn­völd nýtt skóinn af sérfræð­ingum SÞ sem kallað hafa eftir aðgerðum – kallað þá „vits­muna­lega hefta“ og „óvini ríkisins“. Einn sérfræð­ingur SÞ í málefnum innfæddra var settur á lista yfir hryðju­verka­menn eftir að hún gagn­rýndi stjórn­völd og hótaði Duterte sjálfur að löðr­unga hana ef hún krefðist frekari svara um eitur­lyfja­stríðið.

Það kemur heldur ekki á óvart að stuðn­ings­menn stjórn­valda á Filipps­eyjum hafi gagn­rýnt Ísland fyrir að „virða ekki full­veldi landsins“. Það er algengt stef í málflutn­ingi ríkja sem bera ábyrgð á mann­rétt­inda­brotum að reyna að skýla bæði sér og öðrum í sömu stöðu. En þótt forysta Íslands hafi verið djörf og borið þann árangur að vekja athygli á fórn­ar­lömb­unum, þrátt fyrir harða andstöðu Filipps­eyja, þá var ekki óeðli­legt að hún skyldi velja að gera það. Þetta er það sem ætlast er til af meðlimum æðsta ráðs mann­rétt­inda í heim­inum sem leiða margir sambæri­legar álykt­anir gegn öðrum ríkjum.

Hinn gríð­ar­legi fjöldi drápa á Filipps­eyjum, hvatning forseta þeirra, ábyrgð­ar­leysið og fjand­samleg afstaða gagn­vart gang­verki Mann­rétt­inda­ráðs SÞ gerði það að verkum að ástandið var orðið óbæri­legt og löngu kominn tími á að taka á því. Ísland sýndi mikið hugrekki með frum­kvæði sínu.

Á mörgum stöðum í heim­inum brjóta mörg stjórn­völd á mann­rétt­indum þegna sinna, en aðeins örfáir eru tilbúnir að gera þau ábyrg fyrir gjörðum sínum. Ísland virðist taka hlut­verk sitt sem meðlimur Mann­rétt­inda­ráðsins alvar­lega sem og ástandið á Filipps­eyjum. Önnur ríki ættu að fylgja því fordæmi.

Lestu einnig