Fréttir

29. nóvember 2019

Íran: Banvænt ofbeldi gegn mótmæl­endum fordæmt

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að alþjóða­sam­fé­lagið fordæmi beit­ingu banvæns ofbeldis af hálfu örygg­is­sveita Írans sem hefur valdið dauða 143 mótmæl­anda frá því mótmæli hófust 15. nóvember síðast­liðinn. Amnesty Internati­onal telur dauðs­föllin jafnvel enn fleiri og fylgist grannt með málum.

„Mann­rétt­inda­stofnun Sameinuðu þjóð­anna, Evrópu­sam­bandið ásamt nokkrum ríkjum hafa aðeins fordæmt harkaleg viðbrögð en ekki minnst á með skýrum hætti beit­ingu banvæns ofbeldis gegn mótmæl­endum þrátt fyrir sterk sönn­un­ar­gögn. Varkár viðbrögð alþjóða­sam­fé­lagsins sem minnast ekki á morðin á mótmæl­endum eru með öllu ófull­nægj­andi. Það verður að fordæma þessi morð af fullum krafti og gefa rétta mynd af því sem er að gerast, að verið sé að beita órétt­mætri hörku sem hefur valdið dauðs­föllum.“

Philip Luther, fram­kvæmda­stjóri rann­sókn­ar­deildar Miðaust­ur­landa og Norður-Afríku hjá Amnesty Internati­onal. 

Vitn­is­burður vitna og ættingja fórn­ar­lamba, upplýs­ingar frá mann­rétt­inda­sinnum og blaða­fólki utan Írans og mynd­bönd sem Amnesty Internati­onal hefur rann­sakað ítar­lega sýna skýrt fram á að örygg­is­sveitir hafa af ásettu ráði beitt skot­vopnum gegn óvopn­uðum mótmæl­endum sem engin ógn stafaði af.

Það er skýrt í alþjóða­lögum að örygg­is­sveitir mega aðeins beita banvænu ofbeldi þegar það er óumflýj­an­legt til að hindra dauðs­föll og alvarleg meiðsli. Jafnvel þó ofbeldi brjótist út á meðal lítils hóps mótmæl­enda skulu örygg­is­sveitir ávallt beita hóflegu valdi á lögmætan hátt í samræmi við það ofbeldi sem þær standa frammi fyrir og aldrei meir en nauðsyn krefur.

Lestu einnig