Fréttir

30. september 2025

Ísrael/hernumda svæðið í Palestínu: Gíslar eru ekki skipti­mynd í samn­inga­gerð. Tafar­laust vopnahlé og lausn gísla brýn nauðsyn

Palestínskir vopn­aðir hópar verða að leysa úr haldi óbreytta borgara sem er haldið í gísl­ingu skil­yrð­is­laust og án tafar. Amnesty Internati­onal ítrekar þessa kröfu nær tveimur árum eftir að óbreyttir borg­arar voru teknir í gísl­ingu í árásum sem Hamas leiddi í suður­hluta Ísrael þann 7. október 2023.

Amnesty Internati­onal ítrekar einnig kröfur um tafar­laust vopnahlé og að Ísrael stöðvi hópmorðið gegn Palestínu­búum á Gaza. Síðast­liðinn mánuð hefur Ísrael hert árásir sínar gegn Palestínu­búum á Gaza og tala látinna fer síhækk­andi en hundruð óbreyttra borgara til viðbótar hafa látið lífið vegna þeirra. Borg­ara­legir innviðir hafa verið eyði­lagðir og hundruð þúsundir Palestínubúa hafa sætt nauð­ung­ar­flutn­ingum sem sýnir ásetning Ísraels um líkam­lega eyðingu Palestínubúa.

Mynd: ©JACK GUEZ/AFP via Getty Images

Gíslataka er stríðsglæpur

Aukinn hern­aður Ísraels, einkum í Gaza-borg, hefur ekki aðeins skelfi­legar afleið­ingar fyrir Palestínubúa, sem nú þegar berjast fyrir lífi sínu vegna mann­gerðrar hung­urs­neyðar og nauð­ung­ar­flutn­inga, heldur stofnar hann einnig lífi Ísraela og annarra í gísl­ingu palestínskra vopn­aðra hópa í enn frekari hættu. Þann 20. sept­ember birti Al-Qassam Brigades, vopn­aður hópur Hamas, myndir af einstak­lingum sem er enn haldið í gísl­ingu. Mynd­irnar sem hefur verið lýst sem „kveðju­myndum“, vekja ótta um örlög gísl­anna.

Af þeim 47 einstak­lingum sem enn er haldið í gísl­ingu er talið að um 20 þeirra, allt karl­menn, séu enn á lífi. Líf þeirra er í mikilli hættu og eiga þeir á hættu að sæta pynd­ingum og annarri illri meðferð. Þessir einstak­lingar eru þeir síðustu sem enn eru á lífi úr hópi 251 einstak­lings, flestir óbreyttir borg­arar, sem teknir voru í gísl­ingu og fluttir til Gaza í grimmi­legum árásum sem Hamas leiddi 7. október 2023. Stærsti hluti þeirra var á lífi við gíslatökuna en að sögn voru 36 tilfelli þar sem palestínskir víga­menn tóku lík þeirra sem létu lífið í árás­unum.

Gísla­taka er alvar­legt brot á alþjóð­legum mann­úð­ar­lögum og telst stríðs­glæpur.

Yfir­lýs­ingar og aðgerðir Hamas og Palestínska íslamska jíhad hafa sýnt með skýrum hætti að þessir hópar hafa haldið bæði óbreyttum borg­urum og hermönnum í þeim tilgangi að nota þá sem skipti­mynt til að þvinga ísra­elsk yfir­völd til að stöðva hern­að­ar­árásir sínar, leysa úr haldi palestínska fanga sem eru í haldi að geðþótta og binda enda á bæði herkvína á Gaza og ólög­mætt hernám á palestínsku svæði.

Frá því í október 2023 hafa ísra­elsk yfir­völd aukið til muna hand­tökur Palestínubúa á öllu hernumda svæðinu í Palestínu. Samkvæmt tölum frá Hamoked voru 11.040 Palestínu­búar í haldi ísra­elskra yfir­valda og fjöl­margir hafa verið það í áratugi. Rúmlega helm­ingur þeirra, um 57% þeirra, er í haldi án ákæru og rétt­ar­halda. Líkams­leifar 730 Palestínubúa er einnig haldið Ísrael til að þvinga fram samn­inga, í sumum tilfellum áratugum saman.

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að Ísrael leysi úr haldi þær þúsundir Palestínubúa sem eru í varð­haldi að geðþótta, hætti að beita palestínska fanga harð­ræði, þar á meðal pynd­ingum, svelti og kynferð­isof­beldi og hætti að halda ólög­lega líkams­leifum Palestínubúa í þeim tilgangi að þvinga fram samn­inga.

Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi gegn gíslum

Ísra­elar og aðrir ríkis­borg­arar í gísl­ingu hafa mátt þola skelfi­legar raunir frá 7. október. Öllum gísl­unum hefur verið haldið án allra samskipta við umheiminn og fjöl­skyldu sína og þeim neitað um aðgang að Alþjóða­ráði Rauða krossins þar til þeim var sleppt. Margar fjöl­skyldur hafa í marga mánuði ekki fengið neinar sann­anir um hvort ástvinir þeirra séu á lífi  sem eykur á þján­ingar þeirra.

Fyrrum gíslar sem hafa rætt við Amnesty Internati­onal, fjöl­miðla eða heil­brigð­is­starfs­fólk hafa greint frá ofbeldi í haldi. Einum fanga sem var sleppt sagði Amnesty Internati­onal að hann ásamt fjórum öðrum mönnum sættu barsmíðum í nokkra daga eftir að þeir voru teknir og þeim var haldið í göngum án aðgangs að nægj­an­legum mat og vatni. Fjórar konur, tvær stúlkur og tveir karl­menn hafa einnig greint opin­ber­lega frá kynferð­isof­beldi, þau hafi verið þvinguð til að vera nakin og hótað þvinguðu hjóna­bandi.

Þetta er líkam­legt og kynferð­is­legt ofbeldi sem telst til pynd­inga og annarrar illrar meðferðar samkvæmt alþjóða­lögum.

Heil­brigð­is­starfs­maður sem veitti gíslum aðhlynn­ingu sem var sleppt í nóvember 2023 sagði Amnesty Internati­onal að gísl­arnir hefðu sætt barsmíðum, voru neyddir til að verða vitni að eða taka þátt í ofbeld­is­verkum, var haldið í einangrun eða í algjöru myrkri og sviptir grunnnauð­synjum sem leiddi til alvar­legra og langvar­andi afleið­inga fyrir andlega og líkam­lega heilsu.

Palestínskir vopn­aðir hópar aðskildu fjöl­skyldu­með­limi hvern frá öðrum af ásettu ráði og sum börn voru einsömul í haldi samkvæmt frásögnum fyrrum gísla í samtali við heil­brigð­is­starfs­fólks.

Erez Calderon var 11 ára þegar hann var tekinn í gísl­ingu í Nir Oz og var gísla­taka hans tekin upp á mynd­band sem Amnesty Internati­onal hefur sann­reynt. Hann sagði við ísra­elska fjöl­miðla að honum hefði verið haldið aðskildum frá föður sínum og systur. Aðrir fjöl­skyldu­með­limir hafa stað­fest það í öðrum fjöl­miðla­við­tölum.

Gíslataka

Samkvæmt gögnum frá ísra­elska dagblaðinu Haaretz, sem einnig voru borin saman við önnur gögn, voru 27 hermenn í hópi 251 einstak­lings sem var tekinn gísl­ingu í árás­unum sem Hamas leiddi.

  • Í hópnum voru 224 óbreyttir borg­arar, 124 karl­menn, 64 konur og 36 börn, þar af 16 börn undir 10 ára aldri og níu einstak­lingar voru yfir áttrætt.
  • Flestir voru ísra­elskir gyðingar, sjö voru bedúínar með ísra­elskan ríkis­borg­ara­rétt og 35 voru erlendir ríkis­borg­arar.
  • Í 36 tilfellum voru einstak­ling­arnir þegar látnir þegar þeir voru teknir til Gaza.

 

Byggt á mynd­böndum og vitn­is­burðum hefur Amnesty Internati­onal skráð tilfelli þar sem einstak­lingar, pör og fjöl­skyldur eru neydd út af heim­ilum sínum og flutt nauðug til Gaza þann 7. október. Einnig skráðu samtökin tilfelli þar sem ungu fólki var rænt á Nova-tónleika­há­tíð­inni og þar um kring. Fólkið var neytt til að koma út úr sprengju­skýlum þar sem það faldi sig.

Shoshan Haran, stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri Fair Planet, ísra­elskra samtaka, og félagi Women Wage Peace, grasrót­ar­hreyf­ingar fyrir friði, var numin á brott ásamt sex fjöl­skyldu­með­limum, þar af þremur börnum, og var í haldi Hamas.

Shoshan sagði Amnesty Internati­onal að vopn­aðir menn hefðu neytt þau til að fara út úr örygg­is­her­bergi. Einn þeirra kallaði á ensku: Taka konur og börn, skjóta karl­menn, (“Women, children, take. Men, boom-boom.”) Þau voru tekin frá ísra­elsku samyrkjubúi og farið með þau til Gaza. Þegar henni og fimm fjöl­skyldu­með­limum hennar var sleppt úr haldi, sem hún hefur lýst sem 50 dögum af hryll­ingi í haldi, fékk hún þær fréttir að eigin­maður hennar, Avshalom Haran, hefði verið drepinn eftir að fjöl­skyldan var neydd út úr örygg­is­her­berginu.

Systir Shohan, Lilach Kipnis, og Eviatar Kipnis eigin­maður hennar ásamt Paul Castelvi filipp­ískum ríkis­borgara sem starfaði sem umönn­un­aðili hjá fjöl­skyld­unni, voru einnig á meðal þeirra sem voru drepin í árás­inni á samyrkju­búinu.

Gíslar dáið á Gaza

Að minnsta kosti 48 gíslar sem voru á lífi við gíslatöku hafa dáið á Gaza. Öðrum hefur verið sleppt í samn­inga­við­ræðum eða bjargað í ísra­elskum hern­að­ar­að­gerðum, þar á meðal hern­að­ar­að­gerð þar sem hundruð Palestínubúa voru drepnir.

Al-Qassam Brigades, vopn­aður hópur Hamas, og Al-Quds Brigades, vopn­aður hópur Palestínska íslamska jíhad, hafa gefið út opin­berar yfir­lýs­ingar með hótunum um að drepa ísra­elska gísla í haldi þeirra sem hefndarað­gerðir gegn Ísrael eða til að hindra björg­un­ar­að­gerðir ísra­elska hersins.

Þrjár yfir­lýs­ingar á samfé­lags­miðlum 2. sept­ember 2024 frá Abu Obaida, tals­manni Al-Qassam Brigade, gáfu til kynna að sex gíslar hefðu verið drepnir til að hindra að hægt væri að bjarga þeim og virtist vera svar við tilkynn­ingu frá ísra­elska hernum.

Sumir gíslar voru drepnir af ísra­elska hernum. Þekkt­asta málið er af Yotam Haim, 28 ára og Samer Talalka, 22 ára og Alon Shamriz, 26 ára, sem voru skotnir til bana 15. desember í Gaza-borg þegar ísra­elskar hersveitir mættu harðri mótspyrnu palestínskra vopn­aðra hópa. Ísra­elsher tók strax ábyrgð á þeim drápum en í tilfelli annarra þriggja gísla, Nik Beizer, Ron Sherman og Elia Toledano, tilkynnti herinn ekki fyrr en 10 mánuðum síðar að þeir hefðu látist í loft­árás í nóvember 2023.

Amnesty Internati­onal ítrekar enn og aftur kröfuna um að palestínskir vopn­aðir hópar verði að leysa úr haldi óbreytta borgara sem er haldið í gísl­ingu skil­yrð­is­laust og án tafar. Einnig kalla samtökin eftir tafar­lausu vopna­hléi og að Ísrael stöðvi hópmorðið gegn Palestínu­búum á Gaza.

Lestu einnig