Fréttir
30. september 2025Palestínskir vopnaðir hópar verða að leysa úr haldi óbreytta borgara sem er haldið í gíslingu skilyrðislaust og án tafar. Amnesty International ítrekar þessa kröfu nær tveimur árum eftir að óbreyttir borgarar voru teknir í gíslingu í árásum sem Hamas leiddi í suðurhluta Ísrael þann 7. október 2023.
Amnesty International ítrekar einnig kröfur um tafarlaust vopnahlé og að Ísrael stöðvi hópmorðið gegn Palestínubúum á Gaza. Síðastliðinn mánuð hefur Ísrael hert árásir sínar gegn Palestínubúum á Gaza og tala látinna fer síhækkandi en hundruð óbreyttra borgara til viðbótar hafa látið lífið vegna þeirra. Borgaralegir innviðir hafa verið eyðilagðir og hundruð þúsundir Palestínubúa hafa sætt nauðungarflutningum sem sýnir ásetning Ísraels um líkamlega eyðingu Palestínubúa.
Mynd: ©JACK GUEZ/AFP via Getty Images
Gíslataka er stríðsglæpur
Aukinn hernaður Ísraels, einkum í Gaza-borg, hefur ekki aðeins skelfilegar afleiðingar fyrir Palestínubúa, sem nú þegar berjast fyrir lífi sínu vegna manngerðrar hungursneyðar og nauðungarflutninga, heldur stofnar hann einnig lífi Ísraela og annarra í gíslingu palestínskra vopnaðra hópa í enn frekari hættu. Þann 20. september birti Al-Qassam Brigades, vopnaður hópur Hamas, myndir af einstaklingum sem er enn haldið í gíslingu. Myndirnar sem hefur verið lýst sem „kveðjumyndum“, vekja ótta um örlög gíslanna.
Af þeim 47 einstaklingum sem enn er haldið í gíslingu er talið að um 20 þeirra, allt karlmenn, séu enn á lífi. Líf þeirra er í mikilli hættu og eiga þeir á hættu að sæta pyndingum og annarri illri meðferð. Þessir einstaklingar eru þeir síðustu sem enn eru á lífi úr hópi 251 einstaklings, flestir óbreyttir borgarar, sem teknir voru í gíslingu og fluttir til Gaza í grimmilegum árásum sem Hamas leiddi 7. október 2023. Stærsti hluti þeirra var á lífi við gíslatökuna en að sögn voru 36 tilfelli þar sem palestínskir vígamenn tóku lík þeirra sem létu lífið í árásunum.
Gíslataka er alvarlegt brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og telst stríðsglæpur.
Yfirlýsingar og aðgerðir Hamas og Palestínska íslamska jíhad hafa sýnt með skýrum hætti að þessir hópar hafa haldið bæði óbreyttum borgurum og hermönnum í þeim tilgangi að nota þá sem skiptimynt til að þvinga ísraelsk yfirvöld til að stöðva hernaðarárásir sínar, leysa úr haldi palestínska fanga sem eru í haldi að geðþótta og binda enda á bæði herkvína á Gaza og ólögmætt hernám á palestínsku svæði.
Frá því í október 2023 hafa ísraelsk yfirvöld aukið til muna handtökur Palestínubúa á öllu hernumda svæðinu í Palestínu. Samkvæmt tölum frá Hamoked voru 11.040 Palestínubúar í haldi ísraelskra yfirvalda og fjölmargir hafa verið það í áratugi. Rúmlega helmingur þeirra, um 57% þeirra, er í haldi án ákæru og réttarhalda. Líkamsleifar 730 Palestínubúa er einnig haldið Ísrael til að þvinga fram samninga, í sumum tilfellum áratugum saman.
Amnesty International kallar eftir því að Ísrael leysi úr haldi þær þúsundir Palestínubúa sem eru í varðhaldi að geðþótta, hætti að beita palestínska fanga harðræði, þar á meðal pyndingum, svelti og kynferðisofbeldi og hætti að halda ólöglega líkamsleifum Palestínubúa í þeim tilgangi að þvinga fram samninga.
Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi gegn gíslum
Ísraelar og aðrir ríkisborgarar í gíslingu hafa mátt þola skelfilegar raunir frá 7. október. Öllum gíslunum hefur verið haldið án allra samskipta við umheiminn og fjölskyldu sína og þeim neitað um aðgang að Alþjóðaráði Rauða krossins þar til þeim var sleppt. Margar fjölskyldur hafa í marga mánuði ekki fengið neinar sannanir um hvort ástvinir þeirra séu á lífi sem eykur á þjáningar þeirra.
Fyrrum gíslar sem hafa rætt við Amnesty International, fjölmiðla eða heilbrigðisstarfsfólk hafa greint frá ofbeldi í haldi. Einum fanga sem var sleppt sagði Amnesty International að hann ásamt fjórum öðrum mönnum sættu barsmíðum í nokkra daga eftir að þeir voru teknir og þeim var haldið í göngum án aðgangs að nægjanlegum mat og vatni. Fjórar konur, tvær stúlkur og tveir karlmenn hafa einnig greint opinberlega frá kynferðisofbeldi, þau hafi verið þvinguð til að vera nakin og hótað þvinguðu hjónabandi.
Þetta er líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem telst til pyndinga og annarrar illrar meðferðar samkvæmt alþjóðalögum.
Heilbrigðisstarfsmaður sem veitti gíslum aðhlynningu sem var sleppt í nóvember 2023 sagði Amnesty International að gíslarnir hefðu sætt barsmíðum, voru neyddir til að verða vitni að eða taka þátt í ofbeldisverkum, var haldið í einangrun eða í algjöru myrkri og sviptir grunnnauðsynjum sem leiddi til alvarlegra og langvarandi afleiðinga fyrir andlega og líkamlega heilsu.
Palestínskir vopnaðir hópar aðskildu fjölskyldumeðlimi hvern frá öðrum af ásettu ráði og sum börn voru einsömul í haldi samkvæmt frásögnum fyrrum gísla í samtali við heilbrigðisstarfsfólks.
Erez Calderon var 11 ára þegar hann var tekinn í gíslingu í Nir Oz og var gíslataka hans tekin upp á myndband sem Amnesty International hefur sannreynt. Hann sagði við ísraelska fjölmiðla að honum hefði verið haldið aðskildum frá föður sínum og systur. Aðrir fjölskyldumeðlimir hafa staðfest það í öðrum fjölmiðlaviðtölum.
Gíslataka
Samkvæmt gögnum frá ísraelska dagblaðinu Haaretz, sem einnig voru borin saman við önnur gögn, voru 27 hermenn í hópi 251 einstaklings sem var tekinn gíslingu í árásunum sem Hamas leiddi.
Byggt á myndböndum og vitnisburðum hefur Amnesty International skráð tilfelli þar sem einstaklingar, pör og fjölskyldur eru neydd út af heimilum sínum og flutt nauðug til Gaza þann 7. október. Einnig skráðu samtökin tilfelli þar sem ungu fólki var rænt á Nova-tónleikahátíðinni og þar um kring. Fólkið var neytt til að koma út úr sprengjuskýlum þar sem það faldi sig.
Shoshan Haran, stofnandi og framkvæmdastjóri Fair Planet, ísraelskra samtaka, og félagi Women Wage Peace, grasrótarhreyfingar fyrir friði, var numin á brott ásamt sex fjölskyldumeðlimum, þar af þremur börnum, og var í haldi Hamas.
Shoshan sagði Amnesty International að vopnaðir menn hefðu neytt þau til að fara út úr öryggisherbergi. Einn þeirra kallaði á ensku: Taka konur og börn, skjóta karlmenn, (“Women, children, take. Men, boom-boom.”) Þau voru tekin frá ísraelsku samyrkjubúi og farið með þau til Gaza. Þegar henni og fimm fjölskyldumeðlimum hennar var sleppt úr haldi, sem hún hefur lýst sem 50 dögum af hryllingi í haldi, fékk hún þær fréttir að eiginmaður hennar, Avshalom Haran, hefði verið drepinn eftir að fjölskyldan var neydd út úr öryggisherberginu.
Systir Shohan, Lilach Kipnis, og Eviatar Kipnis eiginmaður hennar ásamt Paul Castelvi filippískum ríkisborgara sem starfaði sem umönnunaðili hjá fjölskyldunni, voru einnig á meðal þeirra sem voru drepin í árásinni á samyrkjubúinu.
Gíslar dáið á Gaza
Að minnsta kosti 48 gíslar sem voru á lífi við gíslatöku hafa dáið á Gaza. Öðrum hefur verið sleppt í samningaviðræðum eða bjargað í ísraelskum hernaðaraðgerðum, þar á meðal hernaðaraðgerð þar sem hundruð Palestínubúa voru drepnir.
Al-Qassam Brigades, vopnaður hópur Hamas, og Al-Quds Brigades, vopnaður hópur Palestínska íslamska jíhad, hafa gefið út opinberar yfirlýsingar með hótunum um að drepa ísraelska gísla í haldi þeirra sem hefndaraðgerðir gegn Ísrael eða til að hindra björgunaraðgerðir ísraelska hersins.
Þrjár yfirlýsingar á samfélagsmiðlum 2. september 2024 frá Abu Obaida, talsmanni Al-Qassam Brigade, gáfu til kynna að sex gíslar hefðu verið drepnir til að hindra að hægt væri að bjarga þeim og virtist vera svar við tilkynningu frá ísraelska hernum.
Sumir gíslar voru drepnir af ísraelska hernum. Þekktasta málið er af Yotam Haim, 28 ára og Samer Talalka, 22 ára og Alon Shamriz, 26 ára, sem voru skotnir til bana 15. desember í Gaza-borg þegar ísraelskar hersveitir mættu harðri mótspyrnu palestínskra vopnaðra hópa. Ísraelsher tók strax ábyrgð á þeim drápum en í tilfelli annarra þriggja gísla, Nik Beizer, Ron Sherman og Elia Toledano, tilkynnti herinn ekki fyrr en 10 mánuðum síðar að þeir hefðu látist í loftárás í nóvember 2023.
Amnesty International ítrekar enn og aftur kröfuna um að palestínskir vopnaðir hópar verði að leysa úr haldi óbreytta borgara sem er haldið í gíslingu skilyrðislaust og án tafar. Einnig kalla samtökin eftir tafarlausu vopnahléi og að Ísrael stöðvi hópmorðið gegn Palestínubúum á Gaza.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu