Fréttir
12. júlí 2019Amnesty International hvetur starfsfólk TripAdvisor til að krefjast þess að fyrirtækið hætti að græða á stríðsglæpum með skráningum ferðamannastaða og gistingar á landtökusvæðum Ísraels á hernumdu svæðum Palestínu.
Í opnu bréfi til starfsfólks TripAdvisor lýsir Amnesty International hörmulegum afleiðingum mannréttindabrota gegn Palestínubúum. Frá hernámi Ísraels á Vesturbakkanum árið 1967, þar á meðal Austur-Jerúsalem, hafa tugþúsundir heimila verið eyðilagðar og fjöldi Palestínubúa hrakinn á brott til að byggja á landtökusvæðunum. Það er gróft brot á alþjóðalögum.
„Stefna Ísraels sem snýr að því að fá ísraelska borgara til að setjast að á stolnu palestínsku landi á hernumdu svæðunum er stríðsglæpur. Með því að kynna ferðamennsku á
landtökusvæðunum er TripAdvisor að efla hagkerfi þeirra og stuðla að gífurlegum þjáningum Palestínubúa sem hafa verið reknir af landi sínu, heimili þeirra eyðilögð og náttúrulegar auðlindir arðrændar fyrir þessi landtökusvæði.“
Mark Dummet, yfirmaður viðskipta- og mannréttindadeildar hjá Amnesty International.
Fyrr á þessu ári gaf Amnesty International út skýrsluna Destination: Occupation um hvernig bókunarfyrirtæki í ferðaþjónustu ýta undir ferðamennsku á ólöglegum landtökusvæðum. Þar kom fram að TripAdvisor er með rúmlega 70 skráningar sem tengjast ferðamennsku á landtökusvæðunum.
TripAdvisor svaraði skýrslu Amnesty International og gaf til kynna að fyrirtækið bæri enga ábyrgð á því að koma í veg fyrir kynningu ferðamennsku á landtökusvæðunum. Í kjölfarið var opnu bréfi Amnesty International dreift til starfsfólks TripAdvisor.
„Ísrael beitir mismunun og brýtur á mannréttindum Palestínubúa á kerfisbundinn hátt til að stækka og viðhalda landtökusvæðunum. Amnesty International kallar eftir því að starfsfólk TripAdvisor styðji mannréttindi með okkur og krefjist þess að fyrirtækið taki af skrá allar skráningar sem tengjast landtökusvæðunum á hernumdu svæðum Palestínu.“
Mark Dummet, yfirmaður viðskipta- og mannréttindadeildar Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu