Fréttir

12. júlí 2019

Starfs­fólk TripA­dvisor taki afstöðu gegn ólög­legri land­töku Ísraels

Amnesty Internati­onal hvetur starfs­fólk TripA­dvisor til að krefjast þess að fyrir­tækið hætti að græða á stríðs­glæpum með skrán­ingum ferða­mannastaða og gist­ingar á land­töku­svæðum Ísraels á hernumdu svæðum Palestínu.

Í opnu bréfi til starfs­fólks TripA­dvisor lýsir Amnesty Internati­onal hörmu­legum afleið­ingum mann­rétt­inda­brota gegn Palestínu­búum. Frá hernámi Ísraels á Vest­ur­bakk­anum árið 1967, þar á meðal Austur-Jerúsalem, hafa tugþús­undir heimila verið eyði­lagðar og fjöldi Palestínubúa hrakinn á brott til að byggja á land­töku­svæð­unum. Það er gróft brot á alþjóða­lögum.

 

„Stefna Ísraels sem snýr að því að fá ísra­elska borgara til að setjast að á stolnu palestínsku landi á hernumdu svæð­unum er stríðs­glæpur. Með því að kynna ferða­mennsku á
land­töku­svæð­unum er TripA­dvisor að efla hagkerfi þeirra og stuðla að gífur­legum þján­ingum Palestínubúa sem hafa verið reknir af landi sínu, heimili þeirra eyði­lögð og nátt­úru­legar auðlindir arðrændar fyrir þessi land­töku­svæði.“

Mark Dummet, yfir­maður viðskipta- og mann­rétt­inda­deildar hjá Amnesty Internati­onal.

Fyrr á þessu ári gaf Amnesty Internati­onal út skýrsluna Dest­ination: Occupation um hvernig bókun­ar­fyr­ir­tæki í ferða­þjón­ustu ýta undir ferða­mennsku á ólög­legum land­töku­svæðum. Þar kom fram að TripA­dvisor er með rúmlega 70 skrán­ingar sem tengjast ferða­mennsku á land­töku­svæð­unum.

 

TripA­dvisor svaraði skýrslu Amnesty Internati­onal og gaf til kynna að fyrir­tækið bæri enga ábyrgð á því að koma í veg fyrir kynn­ingu ferða­mennsku á land­töku­svæð­unum. Í kjöl­farið var opnu bréfi Amnesty Internati­onal dreift til starfs­fólks TripA­dvisor.

„Ísrael beitir mismunun og brýtur á mann­rétt­indum Palestínubúa á kerf­is­bundinn hátt til að stækka og viðhalda land­töku­svæð­unum. Amnesty Internati­onal kallar eftir því að starfs­fólk TripA­dvisor styðji mann­rétt­indi með okkur og krefjist þess að fyrir­tækið taki af skrá allar skrán­ingar sem tengjast land­töku­svæð­unum á hernumdu svæðum Palestínu.“

Mark Dummet, yfir­maður viðskipta- og mann­rétt­inda­deildar Amnesty Internati­onal.

Lestu einnig