Fréttir

17. nóvember 2022

Þitt nafn bjargar lífi 2022

Þitt nafn bjargar lífi er stærsta mann­rétt­indaherferð í heimi. Hún hefur verið haldin árlega frá árinu 2001 í þágu þolenda mann­rétt­inda­brota. Herferðin hefur vaxið með árunum og fer nú fram í rúmlega 200 löndum. Í ár verður herferð­inni á Íslandi form­lega hleypt af stokk­unum þann 17. nóvember.  

Með hverju árinu sem líður stækkar sá hópur einstak­linga sem tekur þátt í mann­rétt­inda­bar­átt­unni. Á síðasta ári voru 4,5 millj­ónir bréfa og undir­skrifta send til stjórn­valda víða um heim sem fótumtroða mann­rétt­indi, ásamt stuðn­ingskveðjum til þolenda og fjöl­skyldna þeirra. Stór hópur Íslend­inga hefur lagt herferð­inni lið síðustu ár en rúmlega 70 þúsund undir­skriftir á bréf til stjórn­valda voru sendar héðan árið 2021.  

Skrifaðu undir málin hér

Það er kannski erfitt að trúa því að jafn einföld aðgerð og að setja nafn sitt á bréf til stjórn­valda sem brjóta mann­rétt­indi skili árangri en það gerir hún svo sann­ar­lega.

Undir­skriftir fólks um heim allan hafa skipt sköpum í lífi allra þeirra einstak­linga sem barist hefur verið fyrir í herferð­inni. Þegar millj­ónir undir­skrifta og ákalla berast stjórn­völdum á skömmum tíma er erfitt að líta undan.

 

Góðar fréttir fyrri ára

Magai Matoip Ngong var aðeins 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða í Suður-Súdan í nóvember 2017. Rúmlega 700 þúsund einstak­lingar gripu til aðgerða til stuðn­ings máli Magai í herferð­inni árið 2019. Innan árs var dauða­dómur yfir honum felldur úr gildi og í mars 2022 var Magai leystur úr haldi. Hann þakkaði öllu stuðn­ings­fólki sínu með þessum orðum:

Þetta eru einstak­lingar sem bjarga lífi. Þetta fólk gerði mér kleift að vera hér í dag. Ég er nokkuð viss um að það hefur ekki aðeins bjargað mínu lífi heldur lífi fólks um allan heim.

Nassima al-Sada, baráttu­kona fyrir kven­rétt­indi í Sádi-Arabíu, var hand­tekin og fang­elsuð árið 2018 fyrir frið­sama mann­rétt­inda­bar­áttu. Í fang­elsinu var hún barin af fang­elsis­vörðum og fékk engar heim­sóknir, ekki einu sinni frá lögfræð­ingi sínum. Nassima varð frjáls á ný í júní 2021, þökk sé stuðn­ingi frá tæplega 778 þúsund einstak­lingum víðs vegar um heiminn í Þitt nafn bjargar lífi árið 2020.

Bern­ardo Caal Xol er umhverf­is­vernd­arsinni frá Gvatemala. Hann var dæmdur í rúm sjö ár í fang­elsi árið 2018 vegna baráttu sinnar fyrir land­svæði frum­byggja­sam­fé­lagsins sem hann tilheyrir. Um hálf milljón einstak­linga kallaði eftir lausn hans í herferð­inni Þitt nafn bjargar lífi árið 2021 og í mars 2022 var Bern­ardo loks leystur úr haldi. Í þakkar­mynd­bandi lét Bern­ardo eftir­far­andi orð falla:

„Í fjögur ár og tvo mánuði var ég fastur í martröð fang­elsis. Fjögur ár og tveir mánuðir af sárs­auka, áhyggjum og óvissu. En þið í Amnesty Internati­onal gáfuð mér von um frelsi og nú er ég frjáls.“

Herferðin í ár

Þessi dæmi sýna samtaka­mátt herferð­ar­innar. Nú þurfa fleiri hjálpar við. Þitt nafn bjargar lífi í ár tekur fyrir tíu mál 13 einstak­linga sem hafa sætt mann­rétt­inda­brotum í tengslum við mótmæli þar sem sífellt færist í aukana að ríki heims grípi til harðra aðgerða til að takmarka þennan mikil­væga rétt til að þagga niður í gagn­rýn­is­röddum.

Í löndum eins og  Rússlandi, Bangla­dess, Frakklandi, Kamerún, Íran og á Kúbu hafa stjórn­völd innleitt lög sem takmarka réttinn til að mótmæla, beitt ýmis konar refs­ingum, fjölda­hand­tökum að geðþótta og óhóf­legri vald­beit­ingu gegn mótmæl­endum.  

Eitt málanna í Þitt nafn bjargar lífi í ár er mál Aleksöndru Skochi­lenko frá Rússlandi. Hún mótmælti innrás Rúss­lands í Úkraínu með því að skipta út verð­miðum í stór­markaði með upplýs­ingum um innrásina. Lögregla handtók hana í apríl 2022 og hefur Aleks­andra verið í haldi síðan þá við hræði­legar aðstæður. Hún stendur frammi fyrir tíu ára fang­elsi verði hún fundin sek um „opin­bera miðlun rangra upplýs­inga um beit­ingu herafla Rúss­lands”.

Annað sláandi mál varðar morð lögreglu á áttatíu ára gamalli konu, Zineb Redouane frá Frakklandi. Í desember 2018 hafði fjöldi fólks safnast saman á götum úti til að mótmæla bágbornu húsnæð­is­ástandi í Marseille. Zineb ætlaði að loka glugga á heimili sínu þegar lögreglu­maður varpaði tára­gassprengju í áttina að henni og hæfði hana í andlitið. Hún lést skömmu síðar. Enn hefur enginn verið ákærður.  

Skrifaðu undir málin hér

Lestu einnig