Fréttir

1. september 2023

Venesúela: Hand­tökur að geðþótta kúgun­artól stjórn­valda

Í nýrri skýrslu Amnesty Internati­onal fordæma samtökin kúgun­ar­stefnu ríkis­stjórnar Nicolás Maduro í Venesúela og greina frá málum níu einstak­linga sem sæta varð­haldi að geðþótta. Amnesty Internati­onal krefst tafar­lausrar lausnar þeirra án skil­yrða.

Skýrsla Amnesty Internati­onal greinir frá málum níu einstak­linga sem voru hand­teknir að geðþótta á árunum 2018 til 2022. Sum málin eru bein­tengd póli­tísku aðgerð­a­starfi gegn ríkis­stjórn landsins eins og mál Roland Carreño en í öðrum málum voru einstak­lingar skot­mark vegna fjöl­skyldu­tengsla við þriðja aðila sem stjórn­völd álitu tortryggileg eins og tilfelli Emir­lendris Benítez. Það hversu ólík málin eru sýnir hversu mikil hættan er fyrir almenning að sæta varð­haldi að geðþótta og öðrum alvar­legum mann­rétt­inda­brotum þar sem áhrif­anna gætir bæði á meðal þeirra sem eru yfir­lýstir andstæð­ingar stjórn­valda og einstak­linga sem eru ekki póli­tískir.

Níu einstaklingar í haldi

Einstak­ling­arnir níu sem sætt hafa varð­haldi og greint er frá í skýrsl­unni eru:

  • Emir­lendris Benítez: móðir og versl­un­ar­kona, hand­tekin í ágúst 2018.
  • María Auxilia­dora Delgado og Juan Carlos Marrufo: hjón og sérfræð­ingar, hand­tekin í mars 2019.
  • Roland Carreño: blaða­maður og póli­tískur aðgerðasinni, hand­tekinn í október 2020.
  • Guillermo Zárraga: faðir og fyrrum félagi í verka­lýðs­fé­lagi, hand­tekinn í nóvember 2020.
  • Dario Estrada: einstak­lingur með tauga­þroskaröskun og verk­fræð­ingur, hand­tekinn í desember 2020.
  • Robert Franco: kennari og verka­lýðs­fé­lagi, hand­tekinn í desember 2020.
  • Javier Tarazona: mann­rétt­inda­fröm­uður og samviskufangi, hand­tekinn í júlí 2021.
  • Gabriel Blanco: aðgerðasinni og starfs­maður í mann­úð­ar­málum, hand­tekinn í júlí 2021.

„Gögn sýna að kúgun­ar­stefna ríkis­stjórnar Nicolás Maduro og mann­rétt­inda­neyðin ógna enn rétt­inum til lífs og frelsis í Venesúela. Skýrsla Amnesty Internati­onal greinir ekki aðeins frá órétt­látri fang­elsun kennara, verka­lýðs­for­ingja og mann­rétt­inda­frömuða í landinu heldur einnig hvernig dóms­kerfið er gerræð­is­legt, aðstæður í fang­elsum ómann­úð­legar og refsi­leysi ríkir. Það að varð­haldi að geðþótta sé enn beitt sem kúgun­ar­tæki og til að stjórna samfé­laginu á ekki að líðast.“

Erika Guevara Rosas svæð­is­stjóri í málefnum Amer­íku­ríkja hjá Amnesty Internati­onal.

Emirlendris Benítez

Emir­lendris Benítez, 42 ára, er móðir, systir og versl­un­ar­kona sem hefur sætt varð­haldi að geðþótta frá ágúst 2018. Hún var færð í varð­hald að ástæðu­lausu en hún var ásökuð um ofbeld­is­verk gegn Nicolás Maduro að ósekju fyrir það eitt að vera í sama bíl með þriðju aðilum sem að sögn voru sekir um slíkt verk.

Emir­lendris var pynduð þrátt fyrir að vera þunguð og síðan þvinguð til að gangast undir þung­un­arrof. Hún þarf að notast við hjóla­stól og hún glímir við marg­vís­legan, alvar­legan heilsu­vanda vegna barsmíða sem hún sætti.

Emir­lendris afplánar 30 ára órétt­látan fang­els­isdóm í INOF-fang­elsinu í Los Teques í Caracas í 30 kíló­metra fjar­lægð frá fjöl­skyldu sinni sem neyðist til að færa henni mat, vatn og aðrar nauð­synjar þrátt fyrir mann­rétt­inda­neyðina í landinu.

Hjónin María Auxiliadora Delgado og Juan Carlos Marrufo

María Auxilia­dora Delgado, 49 ára, og Juan Carlos Marrufo, 52 ára, eru hjón sem eru með tvöfalt ríkis­fang en hún einnig með spænskt ríkis­fang og hann ítalskt ríkis­fang. Þau voru færð í varð­hald að geðþótta af full­trúum örygg­is­þjón­ustu hersins (DGCIM) þann 19. mars 2021.

Það virðist sem að einu tengsl þeirra við glæpinn sem þau eru sökuð um að hafa framið séu að María Auxilia­dora er systir fyrrum herfor­ingja sem er sagður tengjast tilraun til að ráða Nicolás Maduro af lífi. Þau höfðu ákveðið að reyna eignast barn með aðstoð glasa­frjógv­unar þegar þau voru hand­tekin.

Þau eru ekki aðeins þolendur varð­halds að geðþótta heldur hafa þau einnig verið rænd lífs­áformum sínum sem m.a. fólust í að stækka fjöl­skylduna.

Guillermo Zárraga

Guillermo Zárraga, er 59 ára verk­fræð­ingur og fyrrum verka­lýðs­fé­lagi innan olíu­iðn­að­arins sem full­trúar örygg­is­þjón­ustu hersins, DGCIM, hand­tóku að geðþótta á heimili hans klukkan þrjú að nóttu þann 14. nóvember árið 2020.

Auk hlut­verks síns sem leið­togi verka­lýðs­fé­lags í ríkis­reknu olíu­fyr­ir­tæki þá var hann mynd­aður með leið­toga stjórn­ar­and­stöð­unnar, Juan Guaidó. Ljós­myndin er hluti af ásök­unum ríkis­sak­sóknara sem segir hana sönnun um meinta ætlan Zárraga að styðja hermd­ar­verk sem að sögn var runnin undan rifjum full­trúa á vegum leyni­þjón­ustu Banda­ríkj­anna.

Ásak­an­irnar gegn Zárraga eru órök­studdar og af póli­tískum rótum runnar. Heilsu hans fer hrak­andi þar sem hann hefur hvorki aðgang að drykkjar­vatni né nægi­legum mat.

Mannréttindabrot

„Mál Emir­lendris, María Auxilia­dora, Juan Carlos og Guillermo eru táknræn fyrir víðtækar og kerf­is­bundnar árásir á einstak­linga sem taldir eru gagn­rýnir á ríkis­stjórn Venesúela. Þessi mál heyra ekki fortíð­inni til og eru ekki einangruð tilfelli.“

Erika Guevara Rosas svæð­is­stjóri í málefnum Amer­íku­ríkja hjá Amnesty Internati­onal.

Þessi níu mál í skýrsl­unni eru birt­ing­ar­mynd ítrek­aðra aðgerða ýmissa örygg­is­sveita á ólíkum tímum og stöðum. Varð­hald að geðþótta eru ekki einu mann­rétt­inda­brot yfir­valda heldur hafa einnig önnur gróf mann­rétt­inda­brot verið framin, þar á meðal pynd­ingar og önnur grimmileg, ómann­úðleg og vanvirð­andi meðferð, þvinguð manns­hvörf, ósann­gjörn máls­með­ferð og rétt­ar­höld og ómann­úð­legar aðstæður í fang­elsum. Þá nota stjórn­völd ítrekað óljósar skil­grein­ingar á glæpum og falskar ákærur að geðþótta.

„Varð­hald að geðþótta, pynd­ingar og þvinguð manns­hvörf sem einstak­lingar í Venesúela sæta eru glæpir samkvæmt alþjóða­lögum sem er ástæða fyrir því að stjórn­völd í Venesúela eru til rann­sóknar hjá Alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólnum, argentískum dómstólum sem starfa undir alþjóð­legri lögsögu og eru einnig hjá Mann­rétt­inda­stofnun Sameinuðu þjóð­anna. Þrýst­ingur frá alþjóða­sam­fé­laginu má ekki minnka.“

Erika Guevara Rosas svæð­is­stjóri í málefnum Amer­íku­ríkja hjá Amnesty Internati­onal.

Frjáls félaga­samtök í Venesúela áætla að um það bil 300 einstak­lingar sæti nú varð­haldi að geðþótta í landinu. Samkvæmt samtök­unum Foro Penal hafa rúmlega 15.700 órétt­mætar fang­els­anir átt sér stað frá árinu 2014 sem allar eru af póli­tískum rótum runnar.

Lestu einnig