Ísrael fremur hópmorð (e. genocide) á Palestínubúum á Gaza. Við krefjumst þess að alþingismenn á Íslandi geri allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva það. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð skuldbindur ríki um allan heim til að gera sitt besta til að koma í veg fyrir að hópmorð séu framin.
Nú nýverið, í 60. lotu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 16. september 2025, var lögð fram skýrsla frá sjálfstæðri rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna um hernumda svæðið í Palestínu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Ísrael fremji hópmorð á Gaza og bætist þar með við í hóp fjölda mannréttindasamtaka og sérfræðinga sem hafa komist að sömu niðurstöðu þeirra á meðal Amnesty International.
Skýrsla Amnesty International um hópmorð Ísraels á Gaza,You Feel Like You Are Subhuman”: Israel’s Genocide Against Palestinians in Gaza, var gefin út í desember 2024.
Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er greinilegt að útrýming Palestínubúa á Gaza er ætlun Ísraels, hvort sem Ísrael sjái útrýmingu Palestínubúa sem nauðsynlegan þátt í að útrýma Hamas eða sem ásættanlega aukaafleiðingu þessa markmiðs.
Íslandsdeild Amnesty International hefur áður kallað eftir því að utanríkisráðherra Íslands grípi til aðgerða til að stöðva hópmorðið en í ljósi sífellt alvarlegrar stöðu á Gaza eru frekari aðgerðir nauðsynlegar og skorum við því á alþingismenn að leita allra leiða til að íslensk stjórnvöld:
- Viðurkenni að Ísrael fremur hópmorð (þjóðarmorð) á Palestínubúum á Gaza.
- Haldi áfram að krefjast tafarlauss og varanlegs vopnahlés.
- Andmæli öllum tilraunum Ísraels til að koma á varanlegum ísraelskum her og ísraelskum landtökubyggðum á Gaza, breyta landamærum svæðisins og lýðfræðilegri samsetningu eða minnka landsvæðið.
- Styðji hópmorðsákæru Suður-Afríku á hendur Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og leiti allra leiða til að tryggja að Ísrael framfylgi þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem dómstóllinn hefur fyrirskipað í málinu.
- Fordæmi aðskilnaðarstefnu Ísraels, ómannúðlega herkví á Gaza og ólögmætt hernám á palestínsku svæði.
- Haldi áfram að styðja UNRWA og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna gegn árásum Ísraels og annarra ríkja.
- Leiti allra leiða til að tryggja mannúðaraðstoð fyrir íbúa Gaza.
- Banni flutninga um loft- og landhelgi Íslands á hergögnum og hvers kyns búnaði og tækjum sem notuð eru í hernaðarlegum tilgangi ef grunur er um að þau verði notuð í Ísrael og þar með hætta á að þau verði notuð til að fremja hómorð.
- Banni innflutning á vörum frá landtökusvæðum Ísraels.
- Beiti Ísrael þvingunaraðgerðum, til að mynda ferðabanni og frystingu fjármuna tiltekinna einstaklinga og lögaðila sem eiga þátt í að Ísrael viðhaldi ólögmætu hernámi.
Skrifaðu undir og krefstu þess að alþingismenn geri allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva hópmorðið á Gaza.
Ítarefni
Hvers vegna notar Amnesty International hópmorð frekar en þjóðarmorð?
Íslandsdeild Amnesty International notar orðið hópmorð í stað þjóðarmorðs fyrir enska orðið genocide til samræmis við íslensk lög. Hugtakið hópmorð nær þar með yfir aðra hópa eins og þjóðernishópa, kynstofna eða trúflokka en ekki eingöngu þjóð.
Skilgreining á hópmorði
Hópmorð samkvæmt sáttmála um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð er einn eða fleiri verknaðir af fimm sem eru framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum, sem í þessu tilfelli eru Palestínubúar.
Niðurstaða Amnesty International er sú að Ísrael hafi framið þrjá verknaði af fimm sem teljast hópmorð á Gaza.
- að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi.
- að valda einstaklingum úr viðkomandi hópi alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða.
- að þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins eða hluta hans.
Skýrsla Amnesty International sýnir fram á ásetning um útrýmingu
Í skýrslu Amnesty International er sýnt fram á ásetning um útrýmingu:
- Hernaðaraðgerðir Ísraels gefa til kynna að markmiðið sé að útrýma Palestínubúum að fullu eða að hluta í ljósi:
- umfangs tjóns og eyðileggingar á palestínskum heimilum, skýlum, sjúkrahúsum, mannvirkjum fyrir vatn og hreinlæti, landbúnaðarsvæðum og menningarverðmætum.
- hertrar herkvíar á Gaza og hindrunar á dreifingu mannúðaraðstoðar og nauðsynlegrar þjónustu til Gaza.
- ítrekaðra sprengjuárása sem valda mikilli eyðileggingu í þéttbýlum íbúðahverfum.
- gífurlegs mannfalls meðal óbreyttra borgara.
- árása sem ekki tengjast hernaðarlegum skotmörkum og beinast að óbreyttum borgurum.
- nauðungaflutninga fjölda óbreyttra borgara með víðtækum og oft villandi fyrirmælum um rýmingu.
- Orðræða ísraelskra embættismanna:
- Fjöldi yfirlýsinga embættismanna, heryfirvalda og þingmanna þar sem er hvatt til aðgerða sem teljast til hópmorðs eða fela í sér afmennskun á Palestínubúum á Gaza. Samskonar talsmáti var ítrekað notaður af ísraelskum hermönnum sem gerðu árásir á Gaza og kölluðu meðal annars eftir því að „þurrka út“ Gaza.
Amnesty International hefur skoðað alla þessa þætti í víðara samhengi við aðskilnaðarstefnu Ísraels, ómannúðlega herkví á Gaza og ólögmæts hernáms á palestínsku svæði í 57 ár, sem kúgað hefur Palestínubúa og valdið gríðarlegum mannlegum þjáningum.