Skýrslur

19. september 2025

Alþjóð­legt: Hagkerfi sem stuðlar að hópmorði Ísraels, hernámi og aðskiln­að­ar­stefnu

Ríki, opin­berar stofn­anir og fyrir­tæki um heim allan gera Ísrael kleift eða hagnast á því að Ísrael hafi til langs tíma brotið alþjóðalög og má þar nefna yfir­stand­andi hópmorð á Palestínu­búum á Gaza, ólög­mætt hernám á palestínsku svæði og grimmi­lega aðskiln­að­ar­stefnu gegn öllum Palestínu­búum. Þessir aðilar eru ýmist samsekir Ísrael, veita því stuðning eða telja sig ekki geta gert neitt í stöð­unni. Þetta kemur fram í nýút­kom­inni skýrslu Amnesty Internati­onal.  

Skýrslan greinir frá  aðgerðum sem ríki þurfa að grípa til svo þau uppfylli skyldur sínar, til að mynda að banna og hindra að fyrir­tæki stuðli að brotum Ísraels á alþjóða­lögum eða  tengist  þeim með beinum hætti og innleiða lög og reglu­gerðir, meðal annars því sem viðkemur þving­unum tengdum fjár­fest­ingum, vöru­kaupum og samn­ingum. Einnig er útlistað til hvaða aðgerða fyrir­tæki þurfa að grípa eins og að hætta sölu eða rifta samn­ingum og hverfa frá fjár­fest­ingum. 

Skýrsla Amnesty International

Í skýrsl­unni má finna nöfn 15 fyrir­tækja sem Amnesty Internati­onal hefur stað­fest að stuðli að hópmorði Ísraels á Palestínu­búum, ólög­mætu hernámi og öðrum brotum á alþjóða­lögum. Á meðal þeirra eru banda­rísku fjöl­þjóða­fyr­ir­tækin Boeing og Lockheed Martin, ísra­elska vopna­fyr­ir­tækið Elbit Systems, Rafael Advanced Defense Systems og Israel Aerospace Industries (IAI), kínverska fyrir­tækið Hikvision og spænski fram­leið­andinn Construcciones y Auxiliar de Ferrocarriles (CAF), suðurkór­eska samsteypu­fyr­ir­tækið HD Hyundai, banda­ríska hugbún­að­ar­fyr­ir­tækið Palantir Technologies, ísra­elska tæknifyr­ir­tækið Corsight og vatns­fyr­ir­tækið Mekorot sem er í eigu ísra­elska ríkisins.  

„Það má þó ekki gleymast að þessi 15 fyrir­tæki eru aðeins örfá dæmi um öll þau fyrir­tæki sem bera ábyrgð á því að halda uppi ríkis­stjórn sem hefur skipu­lagt hung­urs­neyð, drepið fjölda óbreyttra borgara og í áratugi neitað Palestínu­búum um grunn­rétt­indi. Allir atvinnu­vegir, stærsti hluti ríkja og margir einka­að­ilar hafa vísvit­andi stuðlað að eða hagnast á hópmorði Ísraels á Gaza, grimmi­legu hernámi og aðskiln­að­ar­stefnu á hernumda svæðinu í Palestínu.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal. 

Ályktun Sameinuðu þjóðanna

Amnesty Internati­onal birti skýrsluna þann 18. sept­ember 2025, þegar ár er liðið frá því að alls­herj­ar­þing Sameinuðu þjóð­anna samþykkti ályktun þar sem krafist var að Ísrael bindi enda á ólög­mætt hernám á palestínsku svæði innan árs. Álykt­unin var samþykkt til að fylgja tilmælum álits­gerðar Alþjóða­dóm­stólsins í Haag frá júlí 2024 sem lýsti því yfir að hernámið væri ólög­mætt, að lög og stefnur feli í sér mismunun gegn Palestínu­búum á hernumda svæðinu í Palestínu þar sem brotið er á alþjóða­lögum um aðskiln­að­ar­stefnu og að Ísrael þurfi að fara fljótt frá hernumda svæðinu. 

Í kjöl­farið kallaði alls­herj­ar­þing Sameinuðu þjóð­anna eftir því að aðild­ar­ríki tækju áþreif­anleg skref til að binda enda á hernám á palestínsku svæði í samræmi við yfir­lýs­ingu dómstólsins, meðal annars með því að gera ráðstaf­anir til að hindra að ríkis­borg­arar þeirra, fyrir­tæki og lögað­ilar innan þeirra lögsögu hættu að flytja inn vörur með uppruna frá ísra­elskum land­töku­byggðum og stöðva flutning vopna og hern­að­ar­bún­aðar til Ísraels þegar rétt­mætur grunur er um að þau verði notuð á hernumda svæðinu í Palestínu og beiti þving­un­ar­að­gerðum, til að mynda ferða­bann og fryst­ingu fjár­muna tiltek­inna einstak­linga og lögaðila sem eiga þátt í að Ísrael viðhaldi ólög­mætu hernámi. 

Ársfrest­urinn sem Ísrael fékk til að binda enda á hernámið rann út og samt sem áður heldur Ísrael áfram að svelta og drepa Palestínubúa á degi hverjum. Flest aðild­ar­ríki hafa gert lítið sem ekkert til að þrýsta á ísra­elsku ríkis­stjórnina að fram­fylgja álykt­un­inni. Ríki þurfa að hætta þessari óverj­an­legu og sjálf­skip­aðri tregðu og þess í stað hætta tafar­laust allri starf­semi sem stuðlar að því að Ísrael brjóti alþjóðalög. Að öðrum kosti er hætta á því að þau verði samsek aðskiln­að­ar­stefnu, hópmorði og öðrum brotum á alþjóða­lögum.  

 

Kröfur Amnesty

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að ríki banni án tafar sölu til Ísraels á vopnum, hern­aðar- og örygg­is­búnaði og þjón­ustu, eftir­lits­búnaði, gervi­greind, gagna­veri til stuðn­ings eftir­liti og öryggis- og hern­að­ar­að­gerðum. Það felur í sér að banna allan flutning á hergögnum, öryggis- og herbúnaði og íhlutum því tengdum. 

 

Samtökin kalla einnig eftir því að stöðva viðskipti og fjár­fest­ingar í fyrir­tækjum um heim allan sem stuðla að hópmorði Ísraels, aðskiln­að­ar­stefnu og ólög­mætu hernámi. Ríki þurfa að tryggja að fyrir­tæki með starf­semi innan þeirra lögsögu fram­fylgi slíku banni, í hið minnsta að miða við fyrir­tækjalista skýrslu­gjafa Sameinuðu þjóð­anna um stöðu mann­rétt­inda á hernumda svæðinu í Palestínu og gagna­grunn Sameinuðu þjóð­anna um fyrir­tæki sem stuðla að ólög­mætum land­töku­byggðum.  

Fyrirtækin í skýrslunni

Amnesty Internati­onal sendi á öll fyrir­tækin sem eru nefnd í skýrsl­unni og spurði út í starf­semi þeirra sem tengdist Ísrael og hernumda svæðinu í Palestínu. Aðeins fimm fyrir­tæki svöruðu fyrir­spurn­inni. 

Boeing sprengjur og leið­bein­ing­ar­sett hafa verið notaðar í ólög­legum loft­árásum á Gaza.  

Lockheed Martin selur vörur og þjón­ustu til Ísrael sem tengjast árás­arflug­vél­unum F-16 og F35 sem hafa verið notaðar í árásum á Gaza. 

Þrjú stærstu ísra­elsku vopna­fyr­ir­tækin, Elbit System, ríkis­fyr­ir­tækið Rafael Advanced Defense Systems og IAI selja öryggis- og herbúnað og vörur að andvirði millj­arða dollara á ársgrund­velli til ísra­elska hersins. Elbit Systems var eina vopna­fyr­ir­tækið sem svaraði fyrir­spurn Amnesty Internati­onal og hafnaði þeim áhyggjum sem Amnesty Internati­onal nefndi og sagði að fyrir­tækið starfaði löglega og seldi til viður­kennds ríkis í alþjóða­sam­fé­laginu. 

Ísrael notar eftir­lits­búnað og þjón­ustu frá Hikvision sem það beitir í aðskiln­að­ar­stefnu sinni gegn Palestínu­búum.  

Corsight sérhæfir sig í andlits­grein­ing­ar­hug­búnaði sem ísra­elski herinn hefur notað í hern­að­ar­legum sóknum sínum á Gaza. 

 

Palantir Technologies, banda­rískt gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki, hefur selt vörur og þjón­ustu til ísra­elska hersins og leyni­þjón­ustu sem tengist hernaði Ísraels á Gaza. 

Mekorot sér um innviði og þjón­ustu á vatni á Vest­ur­bakk­anum og stuðlar að ólög­mætu hernámi á palestínsku svæði með því að mismuna Palestínu­búum og hygla ísra­elskum land­töku­byggðum.   

CAF styður lest­ar­kerfi Jerúsalem sem greiðir leið fyrir stækkun land­töku­byggða. 

HD Hyundai fram­leiðir og þjón­ustar vinnu­vélar sem eru notaðar við ólögmæt niðurrif á hernumda svæðinu í Palestínu.  

Árið 2019 benti Amnesty Internati­onal á þhvernig ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækin Airbnb, Booking.com, Expedia og TripA­dvisor stuðluðu að stækkun ólög­mætra ísra­elskra land­töku­byggða á hernumda svæðinu í Palestínu. Þrátt fyrir að Amnesty Internati­onal hafi kallað eftir því að fyrir­tækin hyrfu frá viðskiptum í ísra­elskum land­töku­byggðum er enn í boði að velja staði innan land­töku­byggða.  

 

Skyldur

Ríki þurfa einnig að hindra að þessi fyrir­tæki taki þátt í vöru­sýn­ingum, fundum eða eigi í samn­inga­við­ræðum við stjórn­völd, fái rann­sókn­ar­styrki og að þau taki þátt í starf­semi með opin­berum lögað­ilum sem tengist þeim vörum sem seldar eru til Ísraels. Allar slíkar ráðstaf­anir verða vera til staðar þar til fyrir­tækin hafa sýnt fram á að þau séu ekki lengur að stuðla að ólög­mætu hernámi og brotum á alþjóða­lögum sem Ísrael hefur framið.   

Amnesty Internati­onal hvetur fólk um heim allan að grípa til frið­sam­legra aðgerða.

Borgaralega samfé­lagið og almenn­ingur þurfa að standa saman í barátt­unni til að fá ríki til að fram­fylgja skyldum sínum og tryggja að fyrir­tæki séu dregin til ábyrgðar fyrir að stuðla að eða tengjast með beinum hætti brotum Ísraels á alþjóða­lögum.  

Lestu einnig