Skýrslur
19. september 2025Ríki, opinberar stofnanir og fyrirtæki um heim allan gera Ísrael kleift eða hagnast á því að Ísrael hafi til langs tíma brotið alþjóðalög og má þar nefna yfirstandandi hópmorð á Palestínubúum á Gaza, ólögmætt hernám á palestínsku svæði og grimmilega aðskilnaðarstefnu gegn öllum Palestínubúum. Þessir aðilar eru ýmist samsekir Ísrael, veita því stuðning eða telja sig ekki geta gert neitt í stöðunni. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Amnesty International.
Skýrslan greinir frá aðgerðum sem ríki þurfa að grípa til svo þau uppfylli skyldur sínar, til að mynda að banna og hindra að fyrirtæki stuðli að brotum Ísraels á alþjóðalögum eða tengist þeim með beinum hætti og innleiða lög og reglugerðir, meðal annars því sem viðkemur þvingunum tengdum fjárfestingum, vörukaupum og samningum. Einnig er útlistað til hvaða aðgerða fyrirtæki þurfa að grípa eins og að hætta sölu eða rifta samningum og hverfa frá fjárfestingum.
Skýrsla Amnesty International
Í skýrslunni má finna nöfn 15 fyrirtækja sem Amnesty International hefur staðfest að stuðli að hópmorði Ísraels á Palestínubúum, ólögmætu hernámi og öðrum brotum á alþjóðalögum. Á meðal þeirra eru bandarísku fjölþjóðafyrirtækin Boeing og Lockheed Martin, ísraelska vopnafyrirtækið Elbit Systems, Rafael Advanced Defense Systems og Israel Aerospace Industries (IAI), kínverska fyrirtækið Hikvision og spænski framleiðandinn Construcciones y Auxiliar de Ferrocarriles (CAF), suðurkóreska samsteypufyrirtækið HD Hyundai, bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Palantir Technologies, ísraelska tæknifyrirtækið Corsight og vatnsfyrirtækið Mekorot sem er í eigu ísraelska ríkisins.
„Það má þó ekki gleymast að þessi 15 fyrirtæki eru aðeins örfá dæmi um öll þau fyrirtæki sem bera ábyrgð á því að halda uppi ríkisstjórn sem hefur skipulagt hungursneyð, drepið fjölda óbreyttra borgara og í áratugi neitað Palestínubúum um grunnréttindi. Allir atvinnuvegir, stærsti hluti ríkja og margir einkaaðilar hafa vísvitandi stuðlað að eða hagnast á hópmorði Ísraels á Gaza, grimmilegu hernámi og aðskilnaðarstefnu á hernumda svæðinu í Palestínu.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Ályktun Sameinuðu þjóðanna
Amnesty International birti skýrsluna þann 18. september 2025, þegar ár er liðið frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun þar sem krafist var að Ísrael bindi enda á ólögmætt hernám á palestínsku svæði innan árs. Ályktunin var samþykkt til að fylgja tilmælum álitsgerðar Alþjóðadómstólsins í Haag frá júlí 2024 sem lýsti því yfir að hernámið væri ólögmætt, að lög og stefnur feli í sér mismunun gegn Palestínubúum á hernumda svæðinu í Palestínu þar sem brotið er á alþjóðalögum um aðskilnaðarstefnu og að Ísrael þurfi að fara fljótt frá hernumda svæðinu.
Í kjölfarið kallaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna eftir því að aðildarríki tækju áþreifanleg skref til að binda enda á hernám á palestínsku svæði í samræmi við yfirlýsingu dómstólsins, meðal annars með því að gera ráðstafanir til að hindra að ríkisborgarar þeirra, fyrirtæki og lögaðilar innan þeirra lögsögu hættu að flytja inn vörur með uppruna frá ísraelskum landtökubyggðum og stöðva flutning vopna og hernaðarbúnaðar til Ísraels þegar réttmætur grunur er um að þau verði notuð á hernumda svæðinu í Palestínu og beiti þvingunaraðgerðum, til að mynda ferðabann og frystingu fjármuna tiltekinna einstaklinga og lögaðila sem eiga þátt í að Ísrael viðhaldi ólögmætu hernámi.
Ársfresturinn sem Ísrael fékk til að binda enda á hernámið rann út og samt sem áður heldur Ísrael áfram að svelta og drepa Palestínubúa á degi hverjum. Flest aðildarríki hafa gert lítið sem ekkert til að þrýsta á ísraelsku ríkisstjórnina að framfylgja ályktuninni. Ríki þurfa að hætta þessari óverjanlegu og sjálfskipaðri tregðu og þess í stað hætta tafarlaust allri starfsemi sem stuðlar að því að Ísrael brjóti alþjóðalög. Að öðrum kosti er hætta á því að þau verði samsek aðskilnaðarstefnu, hópmorði og öðrum brotum á alþjóðalögum.
Kröfur Amnesty
Amnesty International kallar eftir því að ríki banni án tafar sölu til Ísraels á vopnum, hernaðar- og öryggisbúnaði og þjónustu, eftirlitsbúnaði, gervigreind, gagnaveri til stuðnings eftirliti og öryggis- og hernaðaraðgerðum. Það felur í sér að banna allan flutning á hergögnum, öryggis- og herbúnaði og íhlutum því tengdum.
Samtökin kalla einnig eftir því að stöðva viðskipti og fjárfestingar í fyrirtækjum um heim allan sem stuðla að hópmorði Ísraels, aðskilnaðarstefnu og ólögmætu hernámi. Ríki þurfa að tryggja að fyrirtæki með starfsemi innan þeirra lögsögu framfylgi slíku banni, í hið minnsta að miða við fyrirtækjalista skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda á hernumda svæðinu í Palestínu og gagnagrunn Sameinuðu þjóðanna um fyrirtæki sem stuðla að ólögmætum landtökubyggðum.
Fyrirtækin í skýrslunni
Amnesty International sendi á öll fyrirtækin sem eru nefnd í skýrslunni og spurði út í starfsemi þeirra sem tengdist Ísrael og hernumda svæðinu í Palestínu. Aðeins fimm fyrirtæki svöruðu fyrirspurninni.
Boeing sprengjur og leiðbeiningarsett hafa verið notaðar í ólöglegum loftárásum á Gaza.
Lockheed Martin selur vörur og þjónustu til Ísrael sem tengjast árásarflugvélunum F-16 og F35 sem hafa verið notaðar í árásum á Gaza.
Þrjú stærstu ísraelsku vopnafyrirtækin, Elbit System, ríkisfyrirtækið Rafael Advanced Defense Systems og IAI selja öryggis- og herbúnað og vörur að andvirði milljarða dollara á ársgrundvelli til ísraelska hersins. Elbit Systems var eina vopnafyrirtækið sem svaraði fyrirspurn Amnesty International og hafnaði þeim áhyggjum sem Amnesty International nefndi og sagði að fyrirtækið starfaði löglega og seldi til viðurkennds ríkis í alþjóðasamfélaginu.
Ísrael notar eftirlitsbúnað og þjónustu frá Hikvision sem það beitir í aðskilnaðarstefnu sinni gegn Palestínubúum.
Corsight sérhæfir sig í andlitsgreiningarhugbúnaði sem ísraelski herinn hefur notað í hernaðarlegum sóknum sínum á Gaza.
Palantir Technologies, bandarískt gervigreindarfyrirtæki, hefur selt vörur og þjónustu til ísraelska hersins og leyniþjónustu sem tengist hernaði Ísraels á Gaza.
Mekorot sér um innviði og þjónustu á vatni á Vesturbakkanum og stuðlar að ólögmætu hernámi á palestínsku svæði með því að mismuna Palestínubúum og hygla ísraelskum landtökubyggðum.
CAF styður lestarkerfi Jerúsalem sem greiðir leið fyrir stækkun landtökubyggða.
HD Hyundai framleiðir og þjónustar vinnuvélar sem eru notaðar við ólögmæt niðurrif á hernumda svæðinu í Palestínu.
Árið 2019 benti Amnesty International á það hvernig ferðaþjónustufyrirtækin Airbnb, Booking.com, Expedia og TripAdvisor stuðluðu að stækkun ólögmætra ísraelskra landtökubyggða á hernumda svæðinu í Palestínu. Þrátt fyrir að Amnesty International hafi kallað eftir því að fyrirtækin hyrfu frá viðskiptum í ísraelskum landtökubyggðum er enn í boði að velja staði innan landtökubyggða.
Skyldur
Ríki þurfa einnig að hindra að þessi fyrirtæki taki þátt í vörusýningum, fundum eða eigi í samningaviðræðum við stjórnvöld, fái rannsóknarstyrki og að þau taki þátt í starfsemi með opinberum lögaðilum sem tengist þeim vörum sem seldar eru til Ísraels. Allar slíkar ráðstafanir verða vera til staðar þar til fyrirtækin hafa sýnt fram á að þau séu ekki lengur að stuðla að ólögmætu hernámi og brotum á alþjóðalögum sem Ísrael hefur framið.
Amnesty International hvetur fólk um heim allan að grípa til friðsamlegra aðgerða.
Borgaralega samfélagið og almenningur þurfa að standa saman í baráttunni til að fá ríki til að framfylgja skyldum sínum og tryggja að fyrirtæki séu dregin til ábyrgðar fyrir að stuðla að eða tengjast með beinum hætti brotum Ísraels á alþjóðalögum.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu