Kínverski leikstjórinn Chen Pinlin var handtekinn 5. janúar 2024 og er í haldi í Shanghai. Hann er í haldi fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsið með friðsamlegum hætti.
Chen Pinlin er leikstjóri heimildamyndarinnar „Urumqi Middle Road“ sem sýnir frá útbreiddum mótmælum „hreyfingar hvítu blaðanna“, sem voru friðsamleg mótmæli gegn þriggja ára útgöngubanni í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og harðri ritskoðun og eftirliti í Kína. Chen setti heimildamyndina á netið í nóvember 2023, ári eftir að „hreyfing hvítu blaðanna“ varð til. Hreyfingin myndaðist í kjölfar þess að háskólanemendur héldu á hvítu blöðum til að mótmæla útgöngubanni sem var talið hafa leitt til dauða tíu einstaklinga í bruna í Urumqi í Kína.
Chen Pinlin er ákærður fyrir að „ýta undir deilur og vandræði“ og á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Amnesty International hefur staðfest eitt annað tilfelli í tengslum við „hreyfingu hvítu blaðanna“ en telur að enn fleiri einstaklingar hafi verið handteknir en erfitt hefur reynst að staðfesta fjölda þeirra.
Amnesty International hefur skráð fjölda mála í Kína þar sem einstaklingar eru í haldi fyrir sömu ákærur og Chen Pinlin sem tengjast oft starfi þeirri í þágu tjáningarfrelsis og mannréttinda. Margir þeirra hafa sætt pyndingum og annarri illri meðferð. Fjölskylda Chen Pinlin hefur einnig verið áreitt af lögreglu sem er algengt í málum sem þessum í Kína.
Skrifaðu undir og kallaðu eftir því að kínversk yfirvöld leysi Chen Pinlin skilyrðislaust úr haldi án tafar og tryggi að hann sæti ekki pyndingum og annarri illri meðferð á meðan hann er enn í haldi.
Auk þess er þess krafist að hætt verði að áreita fjölskyldu Chen Pinlin og tryggt að einstaklingar sem tengjast „hreyfingu hvítu blaðanna“ og aðrir geti tjáð sig friðsamlega án ótta við handtöku, hótanir og áreitni.