Simbabve

Lækni rænt af heimili sínu

Peter Magom­beyi, læknir og forseti Félags sjúkra­hús­lækna í Simbabve, var rænt af heimili sínu í Harare Budiriro að nætur­lagi af þremur vopn­uðum mönnum þann 14. sept­ember síðast­liðinn. Aðilar grun­aðir um að starfa fyrir leyni­þjón­ustu Simbabve höfðu hótað honum að hann myndi hverfa spor­laust með valdi ef hann hætti ekki afskiptum sínum af verk­falli lækna.

Hæstiréttur landsins hefur fyrir­skipað rann­sókn á hvarfinu með því að leggja fram svo­kallaða habeas corp­us-kröfu sem á að vernda borg­ara gegn frels­is­svipt­ingu án dóms og laga og kveður á um að innan tiltekins tímaramma eigi aðili sem er frels­is­sviptur að vera leiddur fyrir dómara sem úrskurðar um lögmæti frels­is­svipt­ing­ar­innar. Þessu hefur ekki verið fylgt eftir og ekkert er vitað hvar Peter Magom­beyi er haldið.

Þann 30. ágúst tilkynnti Félag sjúkra­hús­lækna yfir­völdum í Simbabve að læknar landsins myndu leggja niður störf frá og með 3. sept­ember. Undir tilkynn­inguna skrifar Peter Magom­beyi sem starf­andi forseti Félags sjúkra­hús­lækna. Lækn­arnir krefjast betri launa, betri tækja­bún­aðar og aðgangs að betri lyfjum á ríkis­spít­ölum landsins. Almenna heil­brigðis­kerfinu hefur hrakað síðustu ár vegna efna­hags­legrar óstjórnar og læknar hafa ítrekað vakið athygli á skorti á sjúkra­vörum, slæmri aðstöðu og niður­skurði í heil­brigðis­kerfinu. Peter Magom­beyi var frels­is­sviptur fyrir að krefjast betri kjara fyrir lækna í Simbabve.

Læknar í Simbabve hafa lagt niður störf og sameinast í mótmælum til að krefjast þess að Peter Magom­beyi verði leystur úr haldi.

Peter Magom­beyi er samviskufangi, frels­is­sviptur fyrir að krefjast betri kjara og betra heil­brigðis­kerfis! Krefj­umst þess að yfir­völd í Simbabve leysi hann tafar­laust úr haldi!

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Víetnam

Meðlimir sjálfstæðrar bókaútgáfu pyndaðir af lögreglu

Meðlimir bókaútgáfunnar Liberal Publishing House sem er sjálfstætt rekin bókaútgáfa og selur bækur sem stjórnvöld telja innihalda viðkvæmar upplýsingar hafa verið fangelsaðir og pyndaðir af lögreglu í borginni Ho Chi Minh í Víetnam. Frá því í október á síðasta ári hafa hundruð einstaklinga, bæði viðskiptavinir og starfsfólk, verið áreittir og ógnað af lögreglu vegna tengsla þeirra við Liberal Publishing House. Bókaútgáfan sem var stofnuð í febrúar 2019 gefur út fræðibækur um stjórnmál, stefnumál stjórnvalda og önnur samfélagsleg málefni.

Indland

Handtekin fyrir að mótmæla harðneskjulegum lögum

Aðgerðasinnarnir Meeran Haider, Shifa-Ur-Rehman og Safoora Zargar voru handtekin í apríyrir friðsöm mótmæli í febrúar gegn breytingum á lögum um ríkisborgararétt. Safoora er þunguð og komin þrjá mánuði á leið. Breytingarlögin heimila mismunun á grundvelli trúarbragða og ganga í berhögg við stjórnarskrá Indlands og alþjóðamannréttindalög.

Sri Lanka

Lögfræðingur í haldi

Hejaaz Hizbullah, þekktur lögfræðingur á Sri Lanka var handtekinn 14. apríl síðastliðinn og hefur setið í varðhaldi síðan án ákæru og aðgengis að lögfræðingi. Fjölskylda hans telur Hejaaz vera skotspón stjórnvalda vegna vinnu sinnar, ekki síst mannréttindabaráttu í þágu múslima sem eru minnihlutahópur í landinu.

Filippseyjar

Íbúar í leit að aðstoð vegna COVID-19 ákærðir

Lögregla leysti upp friðsöm mótmæli íbúa þorpsins San Roque í Quezon City á Filippseyjum með ofbeldi. Mótmælendur kröfðust aðstoðar borgaryfirvalda vegna  kórónuveirufaraldursins en allt samfélagið er í sóttkví. Tuttugu og einn mótmælandi var handtekinn og settur í varðhald í fimm daga þar til hópnum var sleppt gegn tryggingu.

Tyrkland

Ranglega fangelsaðir og í mestri hættu vegna COVID-19 verði leystir úr haldi

COVID-19 faraldurinn dreifist hratt í Tyrklandi um þessar mundir og líf þúsunda fanga og fangavarða í yfirfullum og óhreinum fangelsum eru í mikilli hættu. Nýlega greindu stjórnvöld frá fyrirhuguðum aðgerðum sínum um lagasetningu sem gæti leitt til þess að 100.000 fangar verði leystir úr haldi fyrr en áætlað var. Umræddar aðgerðir eru skref í rétta átt en ekki nóg.

Bandaríkin

Farandfólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd í hættu vegna covid-19

Á sama tíma og heimurinn bregst við fordæmalausum aðstæðum sem skapast hafa vegna kórónuveirunnar eru fullorðnir og börn, vistuð í varðhaldi á vegum innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna í yfirfullum rýmum, í mikilli smithættu og með takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Kína

Kína hætti ofsóknum gegn Úígúrum

Allt að ein milljón einstaklinga, aðallega minnihlutahópar múslima, hefur verið handtekin að geðþótta og komið fyrir í svokölluðum endurmenntunarbúðum í Xinjiang-héraði í norðvesturhluta Kína. Þeirra á meðal eru Úígúrar, Kasakar og önnur þjóðarbrot sem eiga sér sterkar trúarlegar og menningarlegar rætur.

Bandaríkin

Bandaríkin felli niður ákærur á hendur Julian Assange

Bandarísk yfirvöld verða að fella niður allar ákærur á hendur Julian Assange sem tengjast njósnum og birtingu gagna vegna starfa hans hjá Wikileaks. Miskunnarlausar tilraunir bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins eru alvarlegar árásir gegn réttinum til tjáningarfrelsis.

Íran

Íslensk stjórnvöld beiti sér á alþjóðavettvangi

Í Íran fer ástand mannréttinda stöðugt versnandi. Stjórnvöld brjóta á rétti borgara sinna til tjáningarfrelsis, félaga- og fundafrelsis. Konur verða fyrir margvíslegri mismunun og þeim refsað fyrir að láta sjá sig opinberlega án höfuðslæðu. Baráttukonur fyrir mannréttindum eru fangelsaðar fyrir að mótmæla ástandinu með friðsömum hætti. Pyndingum og annarri illri meðferð er beitt án þess að gerendur séu dregnir til ábyrgðar. Þá er dauðarefsingin enn lögleg í Íran, auk þess sem aftökur eru framkvæmdar án dóms og laga.