Nepal

Nepal: Skortur á bóluefni

Dagana 7.-15. mars fengu tæplega ein og hálf milljón Nepala sem eru í áhættu­hópi vegna kórónu­veirufar­ald­ursins bólu­efnið Oxford-AstraZeneca. Þessi hópur þarf að fá næstu bólu­setn­ingu fyrir 5. júlí til að virkni bólu­efn­isins sé tryggð. Bólu­efnið er hins vegar á þrotum í Nepal.

Enn sem komið er hefur Nepal aðeins tekist að bólu­setja 2.4% þjóð­ar­innar og næstu send­ingar af bólu­efni hafa ekki borist til landsins.

Átak­an­legt ástand hefur ríkt í Nepal vegna annarrar bylgju kórónu­veirufar­ald­ursins sem hófst í apríl síðast­liðnum og heil­brigðis­kerfið þar í landi hefur ekki ráðið við álagið. Fjöldi fólks hefur látið lífið vegna þess að það hefur ekki aðgang að súrefn­is­gjöf eða því hefur verið vísað frá heil­brigð­is­stofn­unum.

COVAX, alþjóðleg samtök sem stofnuð voru til að liðsinna tekju­lægri löndum við að fá bólu­efni, hafa ekki náð að mæta þörfum Nepal og þurfa því nepölsk stjórn­völd að leita frekari aðstoðar.

Réttur til heilsu og réttur til lífs eru í húfi fyrir hundruð þúsunda Nepala.

Alþjóða­sam­fé­lagið og sér í lagi ríkari lönd á borð við Bret­land sem hafa tryggt sér miklar birgðir af bólu­efni þurfa að bregðast við neyð­inni í Nepal svo hægt sé að klára bólu­setn­ingu þeirra sem eru í áhættu­hópi í tæka tíð.

Skrifaðu undir strax og þrýstu á bresk stjórn­völd að bregðast við vand­anum með því að senda birgðir til Nepal svo hægt sé að bólu­setja áhættu­hópinn með seinni bólu­setn­ingu sinni áður en það verður of seint.

Krefstu þess einnig að hugverka­leyfum bólu­setn­inga verði aflétt í kórónu­veirufar­aldr­inum svo hægt sé að deila þekk­ingu og tækni til að tryggja sem mesta fram­leiðslu bólu­efna.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Nígería

Nígería: Fellið úr gildi Twitter-bann

Stjórnvöld í Nígeríu bönnuðu Twitter þann 4. júní í landinu og skipuðu netþjónustufyrirtækjum að loka fyrir Twitter. Fjölmiðlar þurftu einnig að loka Twitter-reikningum sínum. Þessar aðgerðir brjóta á tjáningarfrelsinu, fjölmiðlafrelsi og skerða aðgengi að upplýsingum. Friðsamir mótmælendur hafa mætt ofbeldisfullum aðgerðum af hálfu nígerískra yfirvalda og nú á einnig að þagga niður í röddum þeirra á netinu.

Hong Kong

Hong Kong: 64 einstaklingar ákærðir á grundvelli óljósra þjóðaröryggislaga

Þjóðaröryggislög tóku gildi þann 30. júní 2020 í Hong Kong. Skilgreiningin á „þjóðaröryggi“ er óljós í lögunum og þeim hefur verið beitt að geðþótta til að skerða tjáningar-og fundafrelsið og bæla niður alla stjórnarandstöðu. Nú þegar hafa 118 einstaklingar verið handteknir á grundvelli laganna, þar af þrír undir 18 ára aldri og 64 hafa verið ákærðir. Sumir standa frammi fyrir lífstíðarfangelsi.

Alsír

Alsír: Verjum réttinn til að mótmæla

Alsírsk stjórnvöld nýta sér kórónuveirufaraldurinn til að herja á aðgerðasinna, fangelsa stjórnarandstæðinga og þagga niður í fjölmiðlum. Það verður að leysa úr haldi alla einstaklinga sem er haldið fyrir það eitt að nýta sér rétt til tjáningar og friðsamlegra mótmæla. Það verður einnig að fella niður ákærur á hendur þeim. Skrifaðu undir ákall Amnesty International til verndar tjáningarfrelsinu í Alsír og krefstu þess að alsírsk stjórnvöld stöðvi varðhöld að geðþótta á Hirak-mómælendum og leysi friðsamlega mótmælendur tafarlaust úr haldi án skilyrða.