Indland

Skert tjáningarfrelsi í Kasmír

Ímyndaðu þér að geta ekki hringt heim til þín. Þú tekur upp símann til þess að hafa samband við fjöl­skylduna þína og láta vita að þú sért á öruggum stað eða í hættu og þurfir á aðstoð að halda en síminn virkar ekki svo þú nærð ekki í neinn. Um átta millj­ónir íbúa Kasmír eru í þessari stöðu í dag.

Frá 5. ágúst síðast­liðnum hefur ríkt fjar­skipta­bann í Kasmír-héraði, fyrir­skipað af indverskum stjórn­völdum. Þá hefur íbúum héraðsins einnig verið sett útgöngu­bann sem kemur í veg fyrir að fólk geti farið út af heimili sínu eða átt samskipti hvort við annað og umheiminn.

Í byrjun ágúst á þessu ári tóku indversk stjórn­völd einhliða ákvörðun að fella úr gildi 370. grein stjórn­ar­skrár landsins sem kveður á um sérstaka stöðu hérað­anna Jammu og Kasmír. Samkvæmt grein­inni hafa meiri sjálfs­stjórn en önnur héröð Indlands. Ákvörð­unin var tekin án viðræðna við leið­toga og almenning í Jammu og Kasmír og telur Amnesty Internati­onal á Indlandi að þessar aðgerðir muni einangra fólkið, ásamt því að auka spennu og hættuna á mann­rétt­inda­brotum á svæðinu veru­lega.

Fregnir hafa borist af árásum, átökum og hand­tökum þar sem fólk hefur verið sett í varð­hald. Þetta veldur skelf­ingu og ótta meðal almenn­ings sem fær ekki upplýs­ingar vegna fjar­skipta­bannsins. Þá gerir þessi staða heil­brigð­is­starfs­fólki einnig erfitt fyrir að sinna störfum sínum. Alþjóða­sam­fé­lagið getur rétt ímyndað sér hvaða alvar­legu mann­rétt­inda­brot eiga sér stað í Kasmír við þessar hræði­legu aðstæður.

Indversk stjórn­völd hafa nánast fullt vald yfir öllum þeim upplýs­ingum sem koma frá héraðinu og fréttir hafa borist af því að stjórn­mála­leið­togar hérað­anna beggja hafi verið færðir í varð­haldi eða settir í stofufang­elsi. Aðgengi að neyð­ar­þjón­ustu, mennta- og heil­brigð­is­þjón­ustu hefur einnig verið skert veru­lega.

Indversk stjórn­völd verða að virða mann­rétt­indi og leyfa íbúum í Kasmír að eiga samskipti sín á milli og við umheiminn. Skrifaðu undir ákallið núna og krefstu þess að ríkis­stjóri Jammu og Kasmír hérað­anna aflétti fjar­skipta­banninu umsvifa­laust!

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Ungverjaland

Skipuleggjandi gleðigöngu á yfir höfði sér ákærur

Géza Buzás-Hábel, sætir sakamálarannsókn fyrir það eitt að hafa skipulagt gleðigönguna í Pécs í Ungverjalandi sem fór fram 4. október síðastliðinn þrátt fyrir bann gegn gleðigöngunni. Amnesty International kallar eftir því að saksóknaraembættið loki tafarlaust rannsókn á málinu þar sem hún brýtur gegn réttinum til friðsamlegrar samkomu, tjáningarfrelsinu og banni gegn mismunun samkvæmt evrópskum og alþjóðlegum mannréttindalögum.

Georgía

Leikari í fangelsi í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda

Andro Chichinadze, 29 ára leikari frá Georgíu, var dæmdur í tveggja ára fangelsi 3. september 2025 eftir þátttöku í mótmælum í Tbilisi. Hann er vel þekktur í Georgíu og hefur hann gagnrýnt stjórnvöld opinberlega og verið virkur þátttakandi í mótmælum frá nóvember til desember 2024.