Géza Buzás-Hábel, sætir sakamálarannsókn fyrir það eitt að hafa skipulagt gleðigönguna í Pécs í Ungverjalandi sem fór fram 4. október síðastliðinn þrátt fyrir bann gegn gleðigöngunni.
Géza Buzás-Hábel er samkynhneigður rómamaður frá Pécs í Ungverjalandi. Hann er mannréttindafrömuður og starfar sem kennari. Hann kennir tungumál og menningu rómafólks, þjálfar verðandi kennara og hefur lengi skipulagt einu hinseginhátíð landsins utan Búdapest í borginni Pécs.
Þann 4. september 2025 sendi Géza Buzás-Hábel tilkynningu til lögreglunnar varðandi gönguna sem áætluð var 4. október 2025. Samkoman miðaði að því að styðja réttindi samkynhneigðra til hjónabands, krefjast viðurkenningar á lagalegu kyni trans-fólks og heiðra minningu hinsegin fólks sem fórst í helförinni. Lögreglan í Pécs gaf þegar í stað út fyrirbyggjandi bann þann 5. september og hélt því fram að gleðigangan myndi útsetja börn fyrir bönnuðu efni. Géza Buzás-Hábel áfrýjaði banninu en Kúria, Hæstiréttur Ungverjalands, hafnaði áfrýjuninni.
Þrátt fyrir bannið var gleðigangan haldin í Pécs þann 4. október án afskipta lögreglu.
Þann 10. október fékk Géza Buzás-Hábel formlega stefnu frá lögreglu þar sem hann var sagður grunaður um refsivert brot. Samkvæmt ungverskum lögum hefur saksóknaraembættið eitt ár, sem hægt er að framlengja um sex mánuði, til að ákveða hvort formleg ákæra verði gefin út.
Ef formleg ákæra verður gefin út gæti hann átt yfir höfði sér allt að eins árs fangelsisvist.
Aukin mismunun
Síðastliðinn áratug hefur mismunun gegn hinsegin fólki aukist í Ungverjalandi ásamt skerðingu á réttindum og frelsi, þar á meðal réttinum til að mótmæla.
Ný löggjöf í Ungverjalandi tók gildi 15. apríl 2025 en lögunum er hægt að beita til að banna gleðigönguna þar í landi. Frumvarpinu að lögunum var flýtt í gegnum þingið í mars og var að lokum samþykkt án þess að vera sett í umsagnarferli. Nýju lögin kveða á um að ekki megi halda samkomu sem brýtur gegn lögum frá árinu 2021. Lögin frá 2021 banna að „kynna og auglýsa“ samkynhneigð og fjölbreytta kynvitund fyrir börnum undir 18 ára aldri. Ungverska þingið samþykkti breytingar á stjórnarskránni 14. apríl 2025 til að hægt væri að innleiða þessi nýju lög sem skerða réttindi hinsegin fólks í nafni þess að vernda börn.
Skrifaðu undir og krefstu þess að saksóknaraembættið loki tafarlaust rannsókn á málinu þar sem hún brýtur gegn réttinum til friðsamlegrar samkomu, tjáningarfrelsinu og banni gegn mismunun samkvæmt evrópskum og alþjóðlegum mannréttindalögum.