Í áraraðir hafa stjórnvöld og tískufyrirtæki hagnast á slæmum starfsaðstæðum kvenna sem sauma fötin okkar. Brotið er kerfisbundið á mannréttindum verkafólks í fataiðnaði sem vinnur oft við hættulegar aðstæður, launin eru undir framfærsluviðmiði og ráðningarsamningar eru ótryggir. Laun sem duga ekki fyrir framfærslu þýðir að verkafólkið hefur ekki aðgang að nauðsynjum eins og mat, heilbrigðisþjónustu, hreinu vatni, menntun og öruggu húsnæði.
Í nýlegum skýrslum Amnesty International kemur fram að ríkisstjórnir, verksmiðjur og alþjóðleg tískufyrirtæki hagnast á kúgun verkafólks í fataiðnaði og brotum á vinnuréttindum í Bangladess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi. Tilraunum verkafólks til að bæta starfsaðstæður er oft mætt af hörku af vinnuveitendum og jafnvel ríkinu.
Brotið á réttindum
- Á Indlandi vinnur margt verkafólk í fataiðnaði sem starfar við útsaum eða frágang fatnaðar heiman frá sér. Starfsfólk sem vinnur að heiman telst ekki sem vinnandi fólk samkvæmt vinnulöggjöf landsins og nýtur því ekki starfstengdra réttinda.
- Í Pakistan er það dagleg barátta fyrir verkafólk í fataiðnaði að fá greidd lágmarkslaun og viðeigandi ráðningarsamninga.
- Á Srí Lanka er nær ómögulegt að stofna stéttarfélag. Þegar það tekst er starfsfólk áreitt, hótað og oft rekið.
- Í Bangladess hafa yfirvöld brotið mótmæli verkafólks á bak aftur með ofbeldisfullum hætti.
Mikið álag
Verkafólkið er oft undir miklu vinnuálagi við erfiðar aðstæður. Sumt verkafólk á Srí Lanka segir að lágmarkskrafa um vinnuafköst þess hafi allt að þrefaldast. Það þýðir að verkafólkið hefur ekki tíma til að fara á salernið og forðast að drekka vatn eða nota hádegishléið sitt til að ná þessu lágmarki, annars fær það ekki borguð laun.
Hótað fyrir að stofna stéttarfélag
Verkafólk í fataiðnaði vill bæta starfsaðstæður sínar en getur það ekki nema það fái að sameinast í kjarabaráttu. Þegar það reynir að stofna stéttarfélag er því hótað. Sumaaiyaa í Pakistan reyndi að stofna stéttarfélag til að binda enda á daglega kynferðislega áreitni en missti í kjölfarið vinnuna. Susmita í Bangladess, sem hefur starfað í fataverksmiðju frá barnsaldri, var neitað um stöðuhækkun vegna þess að hún var í stéttarfélagi.
„Yfirmenn öskra á okkur að ef við göngum í stéttarfélag, við verðum líka rekin“
Þegar verkafólkið lætur í sér heyra er ekki hlustað á það. Þegar verkafólkið reynir að standa saman fær það hótanir og því sagt upp. Þegar verkafólkið mótmælir er það barið, skotið á það og handtekið. Tilraunum til að stofna stéttarfélag eða krefjast betri aðstæðna er oft mætt með hótunum, ofbeldi og uppsögnum.
Gríptu til aðgerða
Til að breyta starfsaðstæðum þurfa stjórnvöld að vernda rétt verkafólks til félagafrelsis. Ef verkafólk í fataiðnaði í umræddum löndum fengi að ganga í stéttarfélag yrði staða þess sterkari.
Skrifaðu undir og krefstu þess að stjórnvöld í Bangladess, Pakistan, á Srí Lanka og Indlandi tryggi góðar starfsaðstæður og félagafrelsi verkafólks.
Smelltu hér til að lesa frétt um stöðu verkafólks í fataðiðnaðinum í löndunum fjögur.