El Salvador

Þöggun radda mannréttindafrömuða og samfélagsleiðtoga

Fidel Zavala, tals­maður mann­rétt­inda­sam­tak­anna UNIDEHC, hefur leikið lykil­hlut­verk í að ljóstra upp um mann­rétt­inda­brot innan varð­halds­stöðva í El Salvador. Árið 2024 lagði hann fram form­lega kvörtun gegn fang­els­is­yf­ir­völdum, þar á meðal gegn fang­els­is­mála­stjór­anum Osiris Luna, vegna pynd­inga og annarra brota sem framin voru í yfir­lýstu neyð­ar­ástandi.

Þann 25. febrúar 2025 var Fidel Zavala hand­tekinn af yfir­völdum í El Salvador og settur í geðþótta­varð­hald eftir áhlaup yfir­valda sem fól í sér húsleit í höfuð­stöðvum UNIDEHC og á heimili lögfræð­ingsins Ivania Cruz, sem er fram­kvæmda­stjóra samtak­anna. Einnig voru yfir tuttugu samfé­lags­leið­togar frá La Flor­esta hand­teknir. Varð­hald Zavala vekur þungar áhyggjur, þar sem hann hefur bæði borið vitni um og opin­berað pynd­ingar í varð­halds­stöðvum.

Núver­andi ástand í El Salvador sýnir óhugn­an­lega aukn­ingu þögg­un­ar­til­burða gegn gagn­rýn­is­röddum og gegnd­ar­lausa aðför að borg­ara­legu rými, sem stofnar starfi mann­rétt­inda­frömuða í hættu og viðleitni þeirra til að byggja upp rétt­látt og aðgengi­legt samfélag.

Skrifaðu undir ákall um að yfir­völd í El Salvador verndi líkam­lega og andlega heilsu Fidel Zavala og annarra fanga. Krefstu þess að þeir fái sann­gjörn rétt­ar­höld og að þeim sé tryggð réttlát máls­með­ferð.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Ungverjaland

Skipuleggjandi gleðigöngu á yfir höfði sér ákærur

Géza Buzás-Hábel, sætir sakamálarannsókn fyrir það eitt að hafa skipulagt gleðigönguna í Pécs í Ungverjalandi sem fór fram 4. október síðastliðinn þrátt fyrir bann gegn gleðigöngunni. Amnesty International kallar eftir því að saksóknaraembættið loki tafarlaust rannsókn á málinu þar sem hún brýtur gegn réttinum til friðsamlegrar samkomu, tjáningarfrelsinu og banni gegn mismunun samkvæmt evrópskum og alþjóðlegum mannréttindalögum.

Georgía

Leikari í fangelsi í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda

Andro Chichinadze, 29 ára leikari frá Georgíu, var dæmdur í tveggja ára fangelsi 3. september 2025 eftir þátttöku í mótmælum í Tbilisi. Hann er vel þekktur í Georgíu og hefur hann gagnrýnt stjórnvöld opinberlega og verið virkur þátttakandi í mótmælum frá nóvember til desember 2024.