Tilkynning

27. apríl 2021

60 ára afmæli: Aðgerðasinni Amnesty Internati­onal

Amnesty Internati­onal er alþjóðleg hreyfing tíu milljón einstak­linga um heim allan sem vilja berjast fyrir rétt­látum heimi þar sem mann­rétt­indi okkar allra eru virt. Þann 28. maí eru 60 ár frá því að Amnesty Internati­onal hóf baráttu sína fyrir mann­rétt­indum.

Upphafið var þegar breska lögfræð­ingnum Peter Benenson blöskraði órétt­lætið í heim­inum og skrifaði greinina, Gleymdu fang­arnir, sem birtist í dagblaðinu Observer. Í grein­inni kallaði hann eftir því að fólk gripi til aðgerða fyrir fólk sem var í fang­elsi fyrir skoð­anir sínar. Ákall hans snerti við fólki sem samein­aðist í barátt­unni fyrir rétt­læti og frelsi.

Þessi samtaka­máttur var upphafið af alþjóða­hreyf­ingu Amnesty Internati­onal sem síðast­liðna sex áratugi hefur átt þátt í mörgum mann­rétt­inda­sigrum. Upphaf Amnesty Internati­onal sýnir að oft þarf bara einn einstak­ling sem berst fyrir betri heimi til að ná fram breyt­ingum og hafa áhrif um allan heim.

Leit að tilnefningum

Til eru mörg dæmi um kraft­mikla einstak­linga sem grípa til aðgerða af eigin frum­kvæði gegn órétt­læti og ná fram jákvæðum samfé­lags­breyt­ingum. Í tilefni að 60 ára afmælinu mun Íslands­deild Amnesty Internati­onal veita viður­kenn­inguna „Aðgerðasinni Amnesty Internati­onal“. Íslands­deildin leitar því að tilnefn­ingum frá almenn­ingi um aðgerða­sinna á Íslandi sem hafa barist fyrir rétt­látari heimi. Hægt er að senda tillögur á amnesty@amnesty.is fram til 14. maí næst­kom­andi.

Stjórn Íslands­deild­ar­innar velur aðgerða­sinna Amnesty Internati­onal og veitir viður­kenn­ingu þann 28. maí næst­kom­andi, á sjálfum afmæl­is­deg­inum. Viður­kenn­ingin verður veitt í Póst­hús­stræti þar sem Íslands­deildin mun opna sýningu um sögu samtak­anna og mann­rétt­inda­sigra síðustu 60 ára.

Lestu einnig