SMS

17. nóvember 2020

Ábyrgð­ar­skylda FIFA í garð farand­verka­fólks í Katar

Nú eru tvö ár þar til flautað verður til leiks á heims­meist­ara­mótinu í Katar 2022Íslands­deild Amnesty Internati­onal kallar eftir því að KSÍ taki að sér virkt hlut­verk í að tryggja að alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið  FIFA uppfylli samfé­lags­lega ábyrgð um að virða mann­rétt­indi og að þau svari fyrir þau mann­rétt­inda­brot sem tengd eru undir­bún­ingi fyrir mótið.   

Það var næg vitn­eskja um að brotið væri sífellt á rétt­indum farand­verka­fólks í Katar þegar FIFA tilkynnti árið 2010 að mótið yrði haldið þar og í kjöl­farið hefur ítrekað verið tilkynnt um mann­rétt­indabrot við uppbygg­ingu leik­vanga og undir­bún­ingi fyrir mótið. 

Þessi brot fela meðal annars í sér nauð­ungarvinnu, ógreidd laun og óhóf­legan vinnu­tíma. Án farand­verka­fólksins væri ekki mögu­leiki að halda leikana í Katar. Þetta er aðal­lega fólk frá Afríku og Asíu, sem eru að byggja upp leik­vangana, vega­kerfið, neðanjarð­ar­lesta­kerfið og það mun sinna örygg­is­gæslu á leikj­unum, keyra áhorf­endur í leigu­bílum á leikina, taka á móti þeim á hótelum og afgreiða á veit­inga­stöðum.  

Undan­farin ár í kjölfar þrýst­ings, m.a. frá mann­rétt­inda­sam­tökum, fjöl­miðlum, og verka­lýðsfélögum,  hefur ríkis­stjórn Katar gert stór­tækar breyt­ingar á vinnulöggjöf sinni, til að mynda þarf starfs­fólk ekki lengur leyfi frá vinnu­veit­enda sínum til að fara úr landi eða skipta um starf. Katar er fyrsta landið á þessum slóðum til að betr­umbæta vinnulöggjöf sem eru vissu­lega skref í rétta átt. Hins vegar er þetta ekki nóg, ólík­legt er að þessar breyt­ingar komi í veg fyrir misnotkun eða bæti vinnu­að­stæður. Enn í dag býr farandverkafólk við erfiðar aðstæður í Katar. Þ fær laun oft seint, getur ekki leitað réttar síns og ekki  myndað verka­lýðs­félög til að krefjast betri vinnu­skilyrða.  

Kórónu­veirufar­ald­urinn hefur gert stöðu þeirra enn viðkvæmari, til að mynda hefur skulda­byrði þeirra aukist vegna gjalda sem þeir þurfa að greiða við atvinnu­leit og ferða­frelsi þeirra er skert. FIFA ber ábyrgð á að tryggja mann­rétt­indi í tengslum við heims­meist­ara­mótið. Í viðmiðum Sameinuðu þjóð­anna um viðskipti og mann­rétt­indi er tekið skýrt fram að aðilar eins og FIFA beri skylda til að koma í veg fyrir mann­rétt­inda­brot 

Undan­farin ár hefur FIFA tekið fjölda skrefa í rétta átt, þar á meðal gef út mann­rétt­indastefnu og aðgerða­áætlun í tengslum við mótið. Þrátt fyrir þessi skref á farandverkafólk enn á hættu að verða fyrir mann­rétt­inda­brotum. Rannsókn Amnesty Internati­onal frá árinu 2020 greindi frá því að um 100 manns unnu launa­laust í hátt í sjö mánuði á Al Bayt leik­vang­inum sem er leik­vang­urinn fyrir undanúr­slit heims­meist­ara­mótsins. Rann­sóknin sýndi líka að FIFA vissi ekki af þessum brotum þar til Amnesty Internati­onal upplýsti knatt­spyrnu­sam­bandið, þrátt fyrir að kvart­anir hafa borist til samstarfs­aðila þeirra í Katar. Amnesty International og fleiri samtök hafa ítrekað kallað eftir því að FIFA noti áhrif sín til að þrýsta á stjórn­völd í Katar til að kalla eftir umbótum á atvinnumálum í landinu. 

Nú eru aðeins tvö ár þar til að heims­meistaramótið hefst og því förum við fram á að KSÍ og öll aðild­ar­félög innan Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandsins FIFA stígi fram til að koma í veg fyrir frekari mann­rétt­inda­brot í Katar. 

SMS-félagar hvetja KSÍ til að nota áhrif sín sem meðlimur FIFA til að:  

  1. Kalla eftir því að Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið FIFA bregðist við  mann­rétt­inda­brotum í garð farand­verkafólks í Katar með áhrifa­ríkum hætti. 
  2.  Hvetja stjórn­völd í Katar til fylgja eftir þeim umbótum sem stjórn­völd þar í landi hafa tilkynnt áður en heims­meistarmótið hefst, m.a. með því að tryggja að vinnu­veit­endur sem brjóti lög verði dregnir til ábyrgðar og aðgengi að rétt­læti fyrir farand­verka­fólk sé til staðar.  
  3. Tryggja að tekið verði mið af mann­rétt­indum við ákvörðun um móts­haldara í fram­tíð­inni.

Lestu einnig