Fréttir
1. febrúar 2022Það verður að draga ísraelsk yfirvöld til ábyrgðar fyrir aðskilnaðarstefnu þeirra gegn palestínsku fólki, segir í nýrri skýrslu Amnesty International. Aðskilnaðarstefnan er glæpur. Skýrslan greinir frá kerfisbundinni kúgun og yfirráðum Ísraels yfir palestínsku fólki hvar sem mögulegt er að hafa stjórn á réttindum þess. Þetta á við um palestínskt fólk sem býr í Ísrael, á hernumdu svæðum Palestínu og palestínskt flóttafólk í öðrum löndum.
Skýrsla Amnesty International
Ítarleg, hátt í 300 blaðsíðna, skýrsla Amnesty International greinir frá því að aðgerðir Ísraels gegn palestínsku fólki eru hluti af stjórnkerfi og jafngilda aðskilnaðarstefnu samkvæmt alþjóðalögum. Á meðal aðgerða eru umfangsmiklar landtökur og eignarnám, ólögmæt dráp, þvingaðir brottflutningar, veruleg skerðing á ferðafrelsi og neitun á að veita palestínsku fólki ríkisfang eða ríkisborgararétt. Amnesty International hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnkerfið, sem er viðhaldið með mannréttindabrotum, telst vera aðskilnaðarstefna sem er glæpur gegn mannúð samkvæmt skilgreiningu Rómarsamþykktar og alþjóðasamnings um aðskilnaðarstefnu (e. Rome Statute og Apartheid Convention).
Amnesty International kallar eftir því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn taki til greina í rannsókn sinni á hernumdu svæðum Palestínu að þar sé verið að fremja glæp í formi aðskilnaðarstefnu. Að auki verða öll ríki að nýta alþjóðlega lögsögu og draga fyrir dóm þá gerendur sem bera höfuðábyrgð á aðskilnaðarstefnunni.
„Skýrsla okkar dregur fram í dagsljósið raunverulegt umfang aðskilnaðarstefnu í stjórnarfari Ísraels. Hvort sem að palestínskt fólk býr í Austur-Jerúsalem, Hebron eða í sjálfu Ísraelsríki þá er komið fram við það sem óæðri einstaklinga sem með kerfisbundnum hætti er svipt réttindum sínum. Niðurstaða okkar er sú að grimmileg stefna um aðskilnað, eignarsviptingu og útilokun á öllum landsvæðum undir stjórn Ísraels jafngildir aðskilnaðarstefnu. Alþjóðasamfélaginu ber skylda til að bregðast við,“ segir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
„Það er ekkert sem réttlætir stjórnkerfi sem byggist á langvarandi kerfisbundnu kynþáttamisrétti milljóna einstaklinga. Aðskilnaðarstefna á hvergi rétt á sér í heiminum og ríki sem velja að styðja Ísraelsríki með vopnum og vernda það frá því að sæta ábyrgð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna styðja við aðskilnaðarstefnu, grafa undan alþjóðlega réttarkerfinu og auka á þjáningu palestínsks fólks. Alþjóðasamfélagið verður að horfast í augu við raunveruleikann um aðskilnaðarstefnu Ísraels og aðgerðaleysið sem ríkt hefur í að leita leiða til að ná fram réttlæti er skammarlegt,“ segir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Niðurstöður Amnesty International byggjast á síauknu efni frá palestínskum, ísraelskum og alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum sem hafa í vaxandi mæli fjallað um ástandið í Ísrael og/eða á hernumdu svæðum Palestínu sem aðskilnaðarstefnu.
Greining á aðskilnaðarstefnu
Aðskilnaðarstefna er stjórnarfar þar sem kúgun og yfirráð eins kynþáttar yfir öðrum er kerfisbundin. Þetta er gróft mannréttindabrot samkvæmt alþjóðalögum. Yfirgripsmikil rannsókn og lagaleg greining Amnesty International, í samráði við utanaðkomandi sérfræðinga, sýnir fram á að Ísraelsríki beitir slíkri stefnu gegn palestínsku fólki með löggjöf, stefnumálum og starfsháttum og tryggir þannig langvarandi og grimmilega mismunun.
Alþjóðlegur refsiréttur skilgreinir aðskilnaðarstefnu sem glæp ef um ræðir sértækar ólögmætar aðgerðir sem eru framkvæmdar í þeim tilgangi að viðhalda stjórnarkerfi sem byggist á kúgun og yfirráðum. Þessar aðgerðir eru skilgreindar í alþjóðasamningi um aðskilnaðarstefnu og meðal þeirra eru ólögmæt dráp, pyndingar, þvingaðir brottflutningar og skerðingu á réttindum og frelsi.
Amnesty International hefur skrásett aðgerðir sem eru bannaðar samkvæmt alþjóðasamningi um aðskilnaðarstefnu og Rómarsamþykktinni á öllum svæðum undir stjórn Ísraels þó að þær séu algengari og ofbeldisfyllri á hernumdu svæðum Palestínu en í Ísrael. Ísraelsk yfirvöld beita að yfirlögðu ráði fjölmörgum aðgerðum til að neita palestínsku fólki um grunnréttindi sín og frelsi, þar á meðal harðneskjulegri skerðingu á ferðafrelsi á hernumdu svæðum Palestínu, langvarandi skerðingu á fjárfestingum innan palestínsks samfélags í Ísrael og synjun á rétti flóttafólks að snúa aftur heim. Skýrsla Amnesty International greinir einnig frá þvinguðum brottflutningum, varðhaldi án ákæru, pyndingum og ólögmætum drápum bæði innan Ísraelsríkis og á hernumdu svæðum Palestínu.
Niðurstöður Amnesty International sýna einnig að þessar aðgerðir eru hluti af kerfisbundnum og víðtækum árásum gegn íbúum Palestínu og þeim er beitt í þeim tilgangi að viðhalda stjórnkerfi kúgunar og yfirráðs. Þar af leiðandi teljast þessar aðgerðir glæpir gegn mannúð vegna aðskilnaðarstefnu.
Ólögmæt dráp palestínskra mótmælenda er ef til vill eitt skýrasta dæmið um hvernig ísraelsk yfirvöld beita ólögmætum aðgerðum til að viðhalda óbreyttu ástandi. Árið 2018 hófu Palestínubúar í Gaza vikuleg mótmæli á landamærum Ísraels til að kalla eftir því að rétti flóttafólks til að snúa aftur heim sé virtur og herkví verði stöðvuð. Áður en mótmælin hófust varaði háttsettur embættismaður Ísraels við því að skotið yrði á Palestínubúa sem nálguðust múrinn á landamærunum. Í lok árs 2019 hafði ísraelski herinn drepið 214 óbreytta borgara, þar á meðal 46 börn.
Í ljósi þessara ólögmætu drápa á palestínsku fólki sem greint er frá í skýrslunni kallar Amnesty International eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setji á vopnasölubann til Ísraels. Bannið þarf að ná yfir öll vopn og skotfæri en einnig löggæslubúnað, í ljósi þess að þúsundir palestínskra borgara hafa verið drepnir með ólögmætum hætti af ísraelska hernum. Öryggisráðið þarf einnig að setja á markvisst viðskiptabann, til dæmis með frystingu eigna þeirra ísraelsku valdhafa sem eiga mestan þátt í glæpum tengdum aðskilnaðarstefnunni.
Palestínubúar álitnir ógn
Frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948 hefur stefna Ísraels miðast við að tryggja að gyðingar séu í meirihluta á svæðinu og að stjórnun á landi og náttúruauðlindum hagnist gyðingum. Árið 1967 náði stefna Ísraels einnig til Vesturbakkans og Gazasvæðisins. Í dag er öllum landssvæðum undir stjórn Ísraels úthlutað til ísraelskra gyðinga á kostnað Palestínubúa ásamt því að palestínskt flóttafólk er útilokað.
Amnesty International viðurkennir rétt gyðinga, líkt og Palestínubúa, til sjálfsákvörðunar og setur sig ekki upp á móti því að Ísrael vilji kalla sig land fyrir gyðinga. Það eitt að Ísraelsríki kalli sig gyðingaríki felur í sjálfu sér ekki að það sé gert í þeim tilgangi að kúga og hafa yfirráð að mati samtakanna.
Aftur á móti sýnir skýrsla Amnesty International að hver ísraelska ríkisstjórnin á fætur annarri telur Palestínabúa vera ógn og hefur beitt aðgerðum til að stjórna þeim, draga úr sýnileika þeirra og skerða aðgang þeirra að landi í Ísrael og á hernumdu svæðum Palestínu. Það kemur berlega í ljós í opinberum áætlunum að sérstaklega á að styrkja stöðu gyðinga í Ísrael og Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem. Þessar áætlanir setja þúsundir Palestínubúa í hættu vegna þvingaðra brottflutninga.
Kúgun án landamæra
Afleiðingar stríðsátaka á árunum 1947-49 og 1967, áframhaldandi herstjórnar Ísraela yfir hernumdu svæðum Palestínu og aðgreinds stjórnarkerfis eru þær að palestínsk samfélög eru aðskilin og aðgreind frá ísraelskum gyðingum. Palestínubúar eru landfræðilega og stjórnmálalega sundurskiptur hópur og sæta mismikilli mismunun eftir stöðu þeirra og búsetu.
Palestínskt fólk sem býr í Ísrael nýtur fleiri réttinda og meira frelsis en fólk sem býr á hernumdu svæðum Palestínu. Það er einnig mikill munur á reynslu Palestínubúa á Gaza í samanburði við Vesturbakkann. Þrátt fyrir þennan mun sýnir skýrsla Amnesty International að palestínskt fólk í heild sinni sætir stjórnkerfi mismununar. Sama markmið liggur að baki meðferð Ísraels á palestínsku fólki hvar sem það býr, þ.e. að ísraelskir gyðingar hafi forréttindi yfir landi og náttúruauðlindum, takmarka sýnileika palestínsks fólks og hindra aðgengi þess að landi.
Amnesty International sýnir fram á að ísraelsk yfirvöld koma fram við palestínskt fólk sem óæðri kynþátt, sem araba en ekki gyðinga. Þessa kynþáttamismunun má finna í lögum og hún hefur áhrif á allt palestínskt fólk í Ísrael og á hernumdu svæðum Palestínu.
Til að mynda er palestínskum borgurum í Ísrael neitað um ríkisfang sem útilokar þá lagalega frá ísraelskum gyðingum. Ísrael hefur stjórnað þjóðaskrá íbúa Vesturbakkans og á Gaza frá árinu 1967 og þar hafa Palestínubúar ekki ríkisborgararétt, flestir þeirra teljast ríkisfangslausir og þurfa skilríki frá ísraelska hernum til að geta búið og unnið á svæðinu.
Palestínskt flóttafólk og afkomendur þess sem neyddust til að flýja heimili sín í átökunum á árunum 1947-49 og 1967 er enn neitað um þau réttindi að snúa til baka á heimaslóðir sínar. Útilokun Ísraela gagnvart flóttafólki er svívirðilegt brot á alþjóðalögum sem hefur skilið milljónir einstaklinga í stöðugri óvissu um að verða látnir sæta nauðungarflutningum.
Palestínskt fólk búsett í Austur-Jerúsalem, sem var innlimuð af Ísrael, fá fasta búsetu í stað ríkisborgararéttar en þessi réttur er þó aðeins varanlegur að nafninu til. Frá árinu 1967 hafa 14.000 Palestínubúar misst búsetuleyfið sitt hjá innanríkisráðuneytinu sem hefur leitt til þess að það neyðist til að flytja úr borginni.
Óæðri borgarar
Palestínskir borgarar í Ísrael, sem eru um 21% af íbúum, standa frammi fyrir ýmis konar kerfisbundinni mismunun. Árið 2018 var mismunun gegn palestínsku fólki sett í stjórnarlög þar sem í fyrsta sinn var tekið fram að Ísrael væri eingöngu „þjóðríki fyrir gyðinga“. Lögin hvetja einnig til landtöku gyðinga og arabíska varð ekki lengur opinbert tungumál.
Skýrslan greinir einnig frá því með hvaða hætti Palestínubúar hafa í reynd verið útilokaðir frá 80% landssvæða Ísraels vegna eignarnáms á landi þeirra og fjölda laga sem mismuna þeim í áætlunum, skipulagi og við úthlutun á landi.
Ástandið á svæðum Negev/Naqab í suðurhluta Ísraels er eitt besta dæmið um það hvernig palestínskt fólk er markvisst útilokað í áætlunar- og byggingarstefnum Ísraels. Frá 1948 hafa ísraelsk yfirvöld innleitt ýmsar stefnur í þeim tilgangi að gera Negev/Naqab svæðið eingöngu fyrir gyðinga. Það hefur meðal annars verið gert með því að útnefna stór svæði sem náttúruverndarsvæði eða hersvæði ásamt því að setja markmið um fjölgun gyðinga á svæðinu. Þetta hefur haft hrikalegar afleiðingar fyrir tugi þúsunda palestínskra bedúína sem búa á svæðinu.
Ísrael viðurkennir ekki 35 bedúínaþorp þar sem 68 þúsund einstaklingar búa. Það þýðir að þau fá ekki aðgang að rafmagni og vatni og byggingar eru ítrekað niðurrifnar af hálfu Ísraela. Þar sem þorpin eru ekki opinberlega viðurkennd er stjórnmálaþátttaka íbúa skert og þeir eru útilokaðir frá heilbrigðis- og menntakerfinu. Þessar aðstæður hafa neytt marga íbúa til að yfirgefa heimili sín og þorp sem telst til þvingaðra brottflutninga.
Áratugalöng kerfisbundin mismunun hefur valdið því að palestínskir borgarar í Ísrael eru fjárhagslega verr staddir í samanburði við ísraelska gyðinga. Það sem gerir ástandið enn verra er blygðunarlaus mismunun þegar að kemur að úthlutun ríkisins. Nýlegt dæmi er Covid-19 pakki sem ríkið dreifði. Aðeins 1,7% af vörunum var dreift til palestínskra yfirvalda.
Þvingaðir brottflutningar
Einn af grundvallarþáttum í aðskilnaðarstefnu Ísraels er að neyða palestínskt fólk að flytja af heimilum sínum. Frá stofnun Ísraelsríkis hafa stjórnvöld knúið fram gríðarlega grimmilegar landtökur á landi Palestínubúa og halda áfram að innleiða ótal lög og reglugerðir sem neyða Palestínubúa til að safnast saman á litlar hólmlendur. Frá 1948 hefur Ísrael eyðilagt hundruð þúsund palestínskra heimila og fasteigna á öllum þeim svæðum sem eru undir þeirra lögsögu og stjórn.
Negev/Naqab, Austur-Jersúsalem og svæði C á hernumdu svæðum Palestínu eru undir fullri stjórn Ísarels. Yfirvöld neita palestínsku fólki um byggingarleyfi á þessum svæðum sem leiðir til þess að fólk neyðist til að byggja ólöglega en byggingarnar eru síðan ítrekað rifnar niður.
Á hernumdu svæðum Palestínu stækkar ólöglegum landtökusvæðum Ísraels enn frekar og ástandið versnar. Uppbygging á landtökusvæðum á hernumdu svæðum Palestínu hefur verið í stefnuskrá ísraelskra stjórnvalda frá árinu 1967. Landtökusvæðin ná yfir 10% lands á Vesturbakkanum og frá 1967 til 2017 var um 38% af palestínsku landi í Austur-Jerúsalem tekið eignarnámi.
Palestínsk hverfi í Austur-Jerúsalem eru ítrekað skotmark samtaka sem fá fullan stuðning frá ísraelskum stjórnvöldum og vinna að því að taka heimili af palestínskum fjölskyldum til að setja í eigu gyðinga. Í einu hverfi, Sheikh Jarrah, hafa verið ítrekuð mótmæli frá maí 2021 þar sem fjölskyldur berjast fyrir því að halda heimilum sínum vegna lögsóknar.
Grimmileg skerðing á ferðafrelsi
Frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar hafa ísraelsk stjórnvöld í vaxandi mæli þrengt harkalega að ferðafrelsi Palestínubúa á hernumdu svæðum Palestínu. Fjöldi hereftirlitsstöðva, vegatálma, girðinga og annarra eftirlitsmannvirkja stjórnar ferðum palestínsks fólks inn á hernumdu svæðum Palestínu auk þess sem að ferðafrelsi þess til Ísrael eða annarra landa er skert.
Ísrael hefur sett upp girðingu sem er 700 km að lengd og er enn að lengjast. Þessi girðing einangrar palestínsk samfélög innan „hersvæða“ og neyðast íbúar til að fá margs konar sérleyfi í hvert sinn sem þeir fara af heimili sínu. Í Gaza búa tvær milljónir Palestínubúa við herkví undir stjórn Ísraels sem hefur skapað mannúðarneyð. Það er nær ómögulegt fyrir íbúa á Gaza að ferðast erlendis eða á önnur svæði á hernumdu svæðum Palestínu. Í reynd eru þeir einangraðir frá umheiminum.
„Fyrir palestínskt fólk er skert ferðafrelsi á hernumdu svæði Palestínu eða til og frá svæðunum stöðug áminning um valdaleysi þess. Hver einasta ferð krefst leyfis ísraelska hersins og jafnvel einföldustu hversdagslegu verkefni krefjast þess að farið sé í gegnum fjöldann allan af ofbeldisfullu eftirliti.Eftirlitskerfið á hernumdu svæðunum er táknrænt fyrir ósvífna mismunun Ísraela gegn palestínsku fólki. Á meðan Palestínubúar eru fastir í herkví, þurfa bíða tímunum saman á eftirlitsstöðvum eða eftir enn einu leyfinu geta ísraelskir borgarar farið á milli staða eins og þeim lystir,“ segir Agnès Callamard.
Amnesty International rannsakaði allar þær réttlætingar sem Ísrael gefur upp sem ástæðu fyrir meðferðinni á palestínsku fólki. Skýrslan sýnir að jafnvel þó að sumar stefnur Ísraels hafi verið gerðar til að uppfylla lögmæt markmið um öryggi hefur útfærsla þeirra verið óhófleg og óréttlát og í ósamræmi við alþjóðalög. Aðrar stefnur eru alls ekki réttlætanlegar í nafni öryggis og hafa greinilega þann tilgang að kúga og drottna.
Leiðin fram á við
Amnesty International leggur fram fjölmargar tillögur um hvernig ísraelsk stjórnvöld geta afnumið aðskilnaðarstefnuna og þannig bundið enda á mismunun, aðskilnað og kúgun.
Sem fyrsta skref kallar Amnesty International eftir því að hætt verði að beita grimmilegum aðferðum á borð við niðurrif á heimilum og þvinguðum brottflutningum. Ísraelsríki verður að veita öllu palestínsku fólk í Ísrael og á hernumdu svæðum Palestínu jöfn réttindi í samræmi við alþjóðamannréttindalög og mannúðarlög. Það verður að viðurkenna rétt palestínsks flóttafólks og afkomenda þeirra til að snúa aftur til baka á heimaslóðir, þar sem það eða fjölskyldur þess bjó áður, auk þess að veita öllum þolendum mannréttindabrota og glæpa gegn mannúð fullar skaðabætur.
Öll ríki heims verða að nota alþjóðlega lögsögu sína yfir einstaklingum sem grunaðir eru um að bera höfuðábyrgð á aðskilnaðarstefnunni sem er glæpur samkvæmt alþjóðalögum. Ríkjum ber skylda til þess séu þau aðilar að alþjóðasamningi um aðskilnaðarstefnu.
„Alþjóðleg viðbrögð við aðskilnaðarstefnu getur ekki lengur takmarkast við daufar fordæmingar og margræðni. Ef við ráðumst ekki að rót vandans þá verða Palestínubúar og Ísraelar áfram fastir í vítahring ofbeldis sem hefur nú þegar eyðilagt líf margra. Ísrael verður að brjóta á bak aftur aðskilnaðarstefnu sína og byrja að koma fram við palestínskt fólk sem manneskjur með jöfn réttindi og af sömu virðingu. Þangað til verður friður og öryggi fjarlæg sýn fyrir Ísraela og Palestínubúa,“ segir Agnès Callamard að lokum.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu