Fréttir

7. október 2021

Afgan­istan: Talibanar myrtu 13 Hazara

Níu liðs­menn örygg­is­sveitar fyrri stjórn­valda voru teknir af lífi án dóms og laga eftir að hafa gefið sig fram. 17 ára stúlka lét lífið á flótta frá skotárás.

Samkvæmt rann­sókn Amnesty Internati­onal myrtu sveitir talibana 13 Hazara, þar á meðal 17 ára stúlku, í Dayk­undi-héraði í Afgan­istan eftir að fyrrum liðs­menn örygg­is­sveitar fráfar­andi stjórn­valda höfðu gefið sig fram.

Morðin voru framin í þorpinu Kahor þann 30. ágúst. Ellefu fórn­ar­lambanna voru fyrrum liðs­menn þjóðarör­ygg­is­sveitar Afgan­istan og tvö óbreyttir borg­arar.

Samkvæmt vitn­is­burðum sem Amnesty Internati­onal hefur safnað saman tóku talibanar níu fyrrum liðs­menn þjóðarör­ygg­is­sveit­ar­innar af lífi án dóms og laga eftir að þeir höfðu gefið sig fram. Þessar aftökur líta út fyrir að vera stríðs­glæpir. Tveir óbreyttir borg­arar sem reyndu að flýja, þar á meðal 17 ára stúlka, voru skotnir til bana í skotárás talibana.

Amnesty Internati­onal stað­festi að mynd­efni sem tekið var í kjöl­farið sýndi sanna og rétta mynd af atburð­inum og væri tekið í þorpinu Kahor þar sem atburð­urinn  átti sér stað.

Það er erfitt að sanna mann­rétt­inda­brot talibana þar sem þeir hafa lokað á farsíma­þjón­ustu á mörgum svæðum í Afgan­istan síðan þeir tóku yfir stjórn landsins í ágúst 2021. Stuttu eftir fall höfuð­borg­ar­innar Kabúl sýndi rann­sókn Amnesty Internati­onal að liðs­menn talibana myrtu níu Hazara í Ghazni-héraði.

„Þessar kaldrifjuðu aftökur eru enn ein sönnun þess að talibanar fremja sömu hrylli­legu brot og þeir voru alræmdir fyrir í fyrri stjórn­artíð sinni í Afgan­istan. Þeir hafa ítrekað brotið á rétt­indum þeirra sem þeir telja vera andstæð­inga sína, jafnvel drepið þá sem hafa gefið sig fram. Talibanar segja að þeir séu ekki á eftir starfs­fólki fyrrum stjórn­valda en þessar aftökur ganga þvert á slíkar stað­hæf­ingar,“

segir Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Morðin í Kahor

 

Talibanar náðu völdum í Dayk­undi-héraði þann 14. ágúst 2021. Áætlað er að 34 fyrrum liðs­menn þjóðarör­ygg­is­sveitar Afgan­istan hafi leitað skjóls á Khidir-svæðinu og haft meðferðis herbúnað og vopn. Þeir samþykktu síðan að gefa sig fram við talibana þegar þeir tóku yfir stærsta hluta svæð­isins. Mohammad Azim Sedaqat, sem leiddi upggjöfina, sá um að taka vopnin frá fyrrum liðs­mönnum örygg­is­sveit­ar­innar  að tali­bönum viðstöddum. Þann 29. ágúst var síðan samið um uppgjöf liðs­mann­anna við talibana.

Degi síðar, þann 30. ágúst, mættu 300 talibanar í bíla­lest til Dahani Qul, þorpsins þar sem liðs­menn örygg­is­sveit­ar­innar dvöldu, sumir meðal fjöl­skyldu sinnar. Á meðan liðs­menn­irnir reyndu að flýja svæðið með fjöl­skyldum sínum var einn bíllinn nálægt þorpinu Kahor. Þegar talibanar náðu hópnum hófu þeir skot­hríð og varð 17 ára stúlka að nafni Masuma skotin til bana. Einn liðs­manna örygg­is­sveit­ar­innar skaut til baka og drap einn talibana og særði annan.

 

Talibanar héldu skot­hríð­inni á fólkið á flótta áfram og skutu tvo liðs­menn til bana. Níu liðs­menn gáfust upp og talibanar hand­tóku þá. Stuttu síðar voru þeir allir teknir af lífi við árbakka.

Talibanar sögðu eftir­lif­andi fjöl­skyldu­með­limum að allir sem höfðu flúið ættu að snúa til baka og gefa sig fram innan þriggja daga. Viðmæl­endur Amnesty Internati­onal segja að einn hátt­settur tali­bani hafi varað þá við:

„Ég hef drepið fólk síðustu 20 árin. Það er auðvelt fyrir mig að drepa. Ég get drepið aftur.“

Þann 1. sept­ember neitaði yfir­lög­reglu­maður skip­aður af tali­bönum í Dayk­undi-héraði að morðin hefðu átt sér stað og stað­festi að eingöngu talibanar hefðu særst í átökum í Dayk­undi.

Staðan frá því talibanar tóku við völdum

 

Talibanar náðu völdum í Afgan­istan um miðjan ágúst 2021. Síðan þá hefur Amnesty Internati­onal kallað eftir því að þúsundir Afgana sem eigi á hættu að verða fyrir hefndarað­gerðum talibana hljóti vernd. Það á sérstak­lega við um fræði­fólk, fjöl­miðla­fólk, aðgerða­sinna og baráttu­konur fyrir mann­rétt­indum.

Amnesty Internati­onal hefur áður greint frá fjölda mann­rétt­inda­brota talibana, þar á meðal hvernig þeir hafa ráðist á óbreytta borgara og hermenn sem hafa gefið sig fram og hindrað aðgang að mann­úð­ar­gögnum. Allt eru þetta glæpir samkvæmt alþjóða­lögum. Talibanar hafa einnig skert frelsi kvenna, tján­ing­ar­frelsið og sett takmark­anir á borg­ara­legt samfélag.

Baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum hefur orðið fyrir árásum talibana nánast daglega frá miðjum ágúst. Talibanar hafa leitað að fólkinu með því að fara á milli húsa og hefur því margt baráttu­fólk farið í felur.

Rann­sak­andi Amnesty Internati­onal ræddi við baráttu­mann fyrir mann­rétt­indum sem náði að komast úr landi. Hann lýsti því að daginn sem talibanar komu til Kabúl hefði hann fengið símtal um að hann ætti að láta af hendi farar­tæki, búnað og pening samtaka sinna. Sá sem hringdi vissi nafn hans og varaði hann við að hann hefði ekki neitt annað val en að vera samvinnu­þýður. Maðurinn fékk fleiri símtöl næstu daga og vorutveir samstarfs­menn hans einnig  barðir af tali­bönum.

 

Tvær blaða­konur deildu reynslu sinni við Amnesty Internati­onal. Önnur þeirra flúði höfuð­borgina eftir að vinnu­veit­andi hennar sagði að líf hennar væri í hættu. Fjöl­skyldu hennar var hótað af tali­bönum þegar þeir komu að leita að henni á heimili hennar og þeim sagt að hún væri ekki heima. Hin blaða­konan hafði upphaf­lega ætlað sér að halda áfram starfi sínu í Afgan­istan þar til talibanar komu á heimili hennar að spyrja eftir henni. Eftir þrýsting frá ættingjum sínum ákvað hún að yfir­gefa landið stuttu síðar.

Einn blaða­maður sagði einnig frá því að fjöl­miðla­fólk hefði fengið fyrir­mæli frá tali­bönum um að störf þeirra ættu að fylgja sjaría­l­ögum og íslömskum reglum. Hann sagði að hann hefði ekki unnið við starf sitt síðan talibanar tóku við og skrif­stofu­hans því verið lokuð.

Ótta­þrungið andrúms­loft er í land­inun eftir að talibanar tóku völd og hefur það leitt til þess að afganskar konur klæðast búrku og fara ekki út úr húsi án karl­manns sér til fylgdar til að forðast ofbeldi og hefndarað­gerðir. Þrátt fyrir þessa ógn hafa konur víða í landinu haldið mótmæli. Sum mótmæli hafa fengið að fara fram án afskipta en öðrum  verið mætt af hörku af hálfu talibana.

Alþjóðasamfélagið

 

„Alþjóða­sam­fé­lagið verður að standa við siðferð­is­legar og póli­tískar skuld­bind­ingar sínar og má ekki bregðast fólkinu sem hefur helgað líf sitt mann­rétt­inda­bar­áttu, jafn­rétti kynj­anna og lýðræði í landinu sínu heldur þarf að vernda það eftir bestu getu,“

Dinus­hika Diss­anayake, vara­fram­kvæmda­stjóri Suður-Asíu­deildar Amnesty Internati­onal.

 

Alþjóða­sam­fé­lagið má ekki líta fram hjá mann­rétt­inda­brotum talibana. Mann­rétt­inda­ráðið verður að grípa til raun­hæfra aðgerða til að gefa þau skilaboð að refsi­leysi er ekki í boði og til að koma í veg fyrir enn víðtækari mann­rétt­inda­brot. Alþjóða­saka­mála­dóm­stóllinn verður að fá stuðning vegna rann­sókna sinna á stríðs­glæpum og glæpum gegn mann­kyninu til að tryggja ábyrgð­ar­skyldu talibana.

Lestu einnig