Fréttir
7. október 2021Níu liðsmenn öryggissveitar fyrri stjórnvalda voru teknir af lífi án dóms og laga eftir að hafa gefið sig fram. 17 ára stúlka lét lífið á flótta frá skotárás.
Samkvæmt rannsókn Amnesty International myrtu sveitir talibana 13 Hazara, þar á meðal 17 ára stúlku, í Daykundi-héraði í Afganistan eftir að fyrrum liðsmenn öryggissveitar fráfarandi stjórnvalda höfðu gefið sig fram.
Morðin voru framin í þorpinu Kahor þann 30. ágúst. Ellefu fórnarlambanna voru fyrrum liðsmenn þjóðaröryggissveitar Afganistan og tvö óbreyttir borgarar.
Samkvæmt vitnisburðum sem Amnesty International hefur safnað saman tóku talibanar níu fyrrum liðsmenn þjóðaröryggissveitarinnar af lífi án dóms og laga eftir að þeir höfðu gefið sig fram. Þessar aftökur líta út fyrir að vera stríðsglæpir. Tveir óbreyttir borgarar sem reyndu að flýja, þar á meðal 17 ára stúlka, voru skotnir til bana í skotárás talibana.
Amnesty International staðfesti að myndefni sem tekið var í kjölfarið sýndi sanna og rétta mynd af atburðinum og væri tekið í þorpinu Kahor þar sem atburðurinn átti sér stað.
Það er erfitt að sanna mannréttindabrot talibana þar sem þeir hafa lokað á farsímaþjónustu á mörgum svæðum í Afganistan síðan þeir tóku yfir stjórn landsins í ágúst 2021. Stuttu eftir fall höfuðborgarinnar Kabúl sýndi rannsókn Amnesty International að liðsmenn talibana myrtu níu Hazara í Ghazni-héraði.
„Þessar kaldrifjuðu aftökur eru enn ein sönnun þess að talibanar fremja sömu hryllilegu brot og þeir voru alræmdir fyrir í fyrri stjórnartíð sinni í Afganistan. Þeir hafa ítrekað brotið á réttindum þeirra sem þeir telja vera andstæðinga sína, jafnvel drepið þá sem hafa gefið sig fram. Talibanar segja að þeir séu ekki á eftir starfsfólki fyrrum stjórnvalda en þessar aftökur ganga þvert á slíkar staðhæfingar,“
segir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Morðin í Kahor
Talibanar náðu völdum í Daykundi-héraði þann 14. ágúst 2021. Áætlað er að 34 fyrrum liðsmenn þjóðaröryggissveitar Afganistan hafi leitað skjóls á Khidir-svæðinu og haft meðferðis herbúnað og vopn. Þeir samþykktu síðan að gefa sig fram við talibana þegar þeir tóku yfir stærsta hluta svæðisins. Mohammad Azim Sedaqat, sem leiddi upggjöfina, sá um að taka vopnin frá fyrrum liðsmönnum öryggissveitarinnar að talibönum viðstöddum. Þann 29. ágúst var síðan samið um uppgjöf liðsmannanna við talibana.
Degi síðar, þann 30. ágúst, mættu 300 talibanar í bílalest til Dahani Qul, þorpsins þar sem liðsmenn öryggissveitarinnar dvöldu, sumir meðal fjölskyldu sinnar. Á meðan liðsmennirnir reyndu að flýja svæðið með fjölskyldum sínum var einn bíllinn nálægt þorpinu Kahor. Þegar talibanar náðu hópnum hófu þeir skothríð og varð 17 ára stúlka að nafni Masuma skotin til bana. Einn liðsmanna öryggissveitarinnar skaut til baka og drap einn talibana og særði annan.
Talibanar héldu skothríðinni á fólkið á flótta áfram og skutu tvo liðsmenn til bana. Níu liðsmenn gáfust upp og talibanar handtóku þá. Stuttu síðar voru þeir allir teknir af lífi við árbakka.
Talibanar sögðu eftirlifandi fjölskyldumeðlimum að allir sem höfðu flúið ættu að snúa til baka og gefa sig fram innan þriggja daga. Viðmælendur Amnesty International segja að einn háttsettur talibani hafi varað þá við:
„Ég hef drepið fólk síðustu 20 árin. Það er auðvelt fyrir mig að drepa. Ég get drepið aftur.“
Þann 1. september neitaði yfirlögreglumaður skipaður af talibönum í Daykundi-héraði að morðin hefðu átt sér stað og staðfesti að eingöngu talibanar hefðu særst í átökum í Daykundi.
Staðan frá því talibanar tóku við völdum
Talibanar náðu völdum í Afganistan um miðjan ágúst 2021. Síðan þá hefur Amnesty International kallað eftir því að þúsundir Afgana sem eigi á hættu að verða fyrir hefndaraðgerðum talibana hljóti vernd. Það á sérstaklega við um fræðifólk, fjölmiðlafólk, aðgerðasinna og baráttukonur fyrir mannréttindum.
Amnesty International hefur áður greint frá fjölda mannréttindabrota talibana, þar á meðal hvernig þeir hafa ráðist á óbreytta borgara og hermenn sem hafa gefið sig fram og hindrað aðgang að mannúðargögnum. Allt eru þetta glæpir samkvæmt alþjóðalögum. Talibanar hafa einnig skert frelsi kvenna, tjáningarfrelsið og sett takmarkanir á borgaralegt samfélag.
Baráttufólk fyrir mannréttindum hefur orðið fyrir árásum talibana nánast daglega frá miðjum ágúst. Talibanar hafa leitað að fólkinu með því að fara á milli húsa og hefur því margt baráttufólk farið í felur.
Rannsakandi Amnesty International ræddi við baráttumann fyrir mannréttindum sem náði að komast úr landi. Hann lýsti því að daginn sem talibanar komu til Kabúl hefði hann fengið símtal um að hann ætti að láta af hendi farartæki, búnað og pening samtaka sinna. Sá sem hringdi vissi nafn hans og varaði hann við að hann hefði ekki neitt annað val en að vera samvinnuþýður. Maðurinn fékk fleiri símtöl næstu daga og vorutveir samstarfsmenn hans einnig barðir af talibönum.
Tvær blaðakonur deildu reynslu sinni við Amnesty International. Önnur þeirra flúði höfuðborgina eftir að vinnuveitandi hennar sagði að líf hennar væri í hættu. Fjölskyldu hennar var hótað af talibönum þegar þeir komu að leita að henni á heimili hennar og þeim sagt að hún væri ekki heima. Hin blaðakonan hafði upphaflega ætlað sér að halda áfram starfi sínu í Afganistan þar til talibanar komu á heimili hennar að spyrja eftir henni. Eftir þrýsting frá ættingjum sínum ákvað hún að yfirgefa landið stuttu síðar.
Einn blaðamaður sagði einnig frá því að fjölmiðlafólk hefði fengið fyrirmæli frá talibönum um að störf þeirra ættu að fylgja sjaríalögum og íslömskum reglum. Hann sagði að hann hefði ekki unnið við starf sitt síðan talibanar tóku við og skrifstofuhans því verið lokuð.
Óttaþrungið andrúmsloft er í landinun eftir að talibanar tóku völd og hefur það leitt til þess að afganskar konur klæðast búrku og fara ekki út úr húsi án karlmanns sér til fylgdar til að forðast ofbeldi og hefndaraðgerðir. Þrátt fyrir þessa ógn hafa konur víða í landinu haldið mótmæli. Sum mótmæli hafa fengið að fara fram án afskipta en öðrum verið mætt af hörku af hálfu talibana.
Alþjóðasamfélagið
„Alþjóðasamfélagið verður að standa við siðferðislegar og pólitískar skuldbindingar sínar og má ekki bregðast fólkinu sem hefur helgað líf sitt mannréttindabaráttu, jafnrétti kynjanna og lýðræði í landinu sínu heldur þarf að vernda það eftir bestu getu,“
Dinushika Dissanayake, varaframkvæmdastjóri Suður-Asíudeildar Amnesty International.
Alþjóðasamfélagið má ekki líta fram hjá mannréttindabrotum talibana. Mannréttindaráðið verður að grípa til raunhæfra aðgerða til að gefa þau skilaboð að refsileysi er ekki í boði og til að koma í veg fyrir enn víðtækari mannréttindabrot. Alþjóðasakamáladómstóllinn verður að fá stuðning vegna rannsókna sinna á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu til að tryggja ábyrgðarskyldu talibana.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu