Skýrslur

22. september 2021

Alþjóð­legt: Helstu lyfja­fram­leið­endur Covid-19 bólu­efn­anna ýta undir mann­rétt­inda­neyð

Ný skýrsla Amnesty Internati­onal, A Double Dose of Inequality: Pharma comp­anies and the Covid-19 vacc­ines crisis, greinir frá því hvernig sex helstu lyfja­fram­leið­endur Covid-19 bólu­efn­anna ýta undir mann­rétt­inda­neyð. Fyrir­tækin hafa ekki forgangsraðað dreif­ingu bólu­efn­anna til fátækari landa og neita að afsala hugverka­rétt­indum og deila tækni­þekk­ingu.

Fyrir­tækin sem voru skoðuð í skýrsl­unni eru AstraZeneca plc, BioNTech SE, Johnson & Johnson, Moderna, Inc., Novavax, Inc. og Pfizer, Inc.

„Að bólu­setja heims­byggðina er eina leiðin út úr þessum faraldri. Nú hefði átt að vera tíminn til að fagna lyfja­fyr­ir­tækj­unum sem hetjum fyrir skjóta fram­leiðslu á bólu­efnum. En raunin er önnur, stóru lyfja­fyr­ir­tækin neita að deila þekk­ingu og forgangsraða dreif­ingu bólu­efn­anna til ríkari landa sem hefur leitt til bólu­efna­skorts í öðrum fátækari löndum með hrika­legum afleið­ingum, sem er þeim til skammar og okkur öllum til ama.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Mannréttindaskyldur fyrirtækja

 

Amnesty Internati­onal skoðaði eftir­far­andi hjá ofan­greindum lyfja­fyr­ir­tækjum til að kanna viðbrögð þeirra við kórónu­veirufar­aldr­inum:

 • Mann­rétt­inda­stefnur
 • Verð­lagn­ingu bólu­efna
 • Skrán­ingar á hugverka­rétt­indum
 • Deil­ingu þekk­ingar og tækni
 • Sann­gjarna dreif­ingu bólu­efna­skammta
 • Gagnsæi

 

5,76 millj­örðum bólu­efna­skömmtum hefur verið dreift um allan heim. Þar af hafa aðeins 0,3% farið til fátækra ríkja og 79% til efna­meiri ríkja. Þrátt fyrir ákall um samstarf við COVAX Facility, alþjóð­legt framtak sem vinnur að því að tryggja rétt­láta dreif­ingu bólu­efna á heimsvísu, hafa sum fyrir­tækj­anna haldið áfram að dreifa skömmtum til þeirra ríkja sem eru að sanka að sér bólu­efninu.

 

Öll fyrir­tækin sem voru skoðuð í skýrsl­unni hafa hingað til neitað að taka þátt í alþjóð­legum fram­taks­verk­efnum sem sett hafa verið af stað til að auka framboð á bólu­efni á heimsvísu með því að miðla þekk­ingu og tækni. Þau hafa einnig neitað tillögum um tíma­bundið afsal hugverka­rétt­inda, eins og t.d. tillaga frá Suður-Afríku og Indlandi um tíma­bundna undan­þágu frá samn­ingi Alþjóða­við­skipta­stofn­un­ar­innar um hugverka­rétt­indi í viðskiptum (TRIPS) fjallaði um.

„Neyðin versnar í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu. Veik­burða heil­brigðis­kerfi eru að hruni komin sem veldur tugþús­undum dauðs­falla viku­lega sem hægt væri að koma í veg fyrir. Í mörgum lágtekju­löndum hafa hvorki heil­brigð­is­starfs­fólk né áhættu­hópar verið bólu­sett.“

Agnès Callamard

Niðurstöður

 

 • Pfizer og BioNTech hafa úthlutað níu sinnum fleiri skömmtum til Svíþjóðar eingöngu en til allra fátækra ríkja heimsins saman­lagt. Aðeins 1% af fram­leiðslu þeirra hefur verið dreift til þessara ríkja. Áætlað er að fyrir­tækin hagnist um 86 millj­arða dollara í lok árs 2022.
 • Moderna hefur ekki enn úthlutað einum einasta skammti til fátækra ríkja og aðeins 12% af skömmt­unum hefur farið til lægri-meðal­tekju­landa. Fyrir­tækið úthlutar ekki meiri­hlut­anum af COVAX pönt­unum fyrr en árið 2022. Áætlað er að fyrir­tækið hagnist um 47 millj­arða dollara í lok árs 2022.

 

„Á meðan þessi ójöfn­uður á sér stað er áætlað að fyrir­tækin BioNTech, Moderna og Pfizer muni hagnast um 130 millj­arða banda­ríkja­dollara í lok árs 2022. Hagnað á ekki að setja ofar lífi fólks.“

Agnès Callamard

 

 • Johnson & Johnson selur bólu­efnið á kostn­að­ar­verði en mun ekki uppfylla skuld­bind­ingar sínar við COVAX og Afrík­u­sam­bandið fyrr en árið 2022. Fyrir­tækið hefur neitað að veita kanadískum fram­leið­anda leyfi til að fram­leiða millj­ónir skammta til viðbótar.
 • AstraZeneca hefur úthlutað flestum skömmtum til lágtekju­landa, selur bólu­efnið á kostn­aða­verði og hefur veitt öðrum fram­leiðslu­leyfi. Hins vegar neitar fyrir­tækið að deila þekk­ingu sinni og tækni í verk­efnum á vegum Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­ar­innar og hefur andmælt tillögu um undan­þágu frá samn­ingi Alþjóða­við­skipta­stofn­un­ar­innar um hugverka­rétt­indi í viðskiptum (TRIPS).
 • Novavax bólu­efnið hefur ekki verið samþykkt til notk­unar en fyrir­tækið Novovax stefnir á að úthluta 2/3 af fram­leiðslu sinni til COVAX-verk­efn­isins. Hins vegar, eins og hin fyrir­tækin, hefur það neitað að deila þekk­ingu og tækni sinni ásamt því að hafa andmælt tillögu um undan­þágu frá samn­ingi Alþjóða­við­skipta­stofn­un­ar­innar um hugverka­rétt í viðskiptum (TRIPS).

100 dagar til stefnu

 

„Í dag eru 100 dagar til lok ársins 2021. Við köllum eftir því að ríki og lyfja­fyr­ir­tæki geri allt í sínu valdi til að úthluta 2 millj­örðum bólu­efna­skammta til lág- og lægri-meðal­tekju­landa án tafar. Enginn ætti að þurfa að þjást enn eitt árið og lifa í ótta,“ segir Agnès Callamard.

100 dagar til stefnu: Tveir millj­arðar bólu­efna­skammta núna! er yfir­skrift herferðar Amnesty Internati­onal með stuðn­ingi Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­ar­innar og Mann­rétt­inda­stofn­unar Sameinuðu þjóð­anna. Herferðin krefst þess að:

 • Mark­miði Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­ar­innar um að hafa bólu­sett 40% af fólki í lágtekju­löndum og lægri-meðal­tekju­löndum í lok árs verði mætt. Sem þýðir úthlutun 2 millj­arða bólu­efna­skammta til þessara landa.
 • Að ríki dreifi hundruðum milljóna umframbirgða af bólu­efna­skömmtum sem þau hafa sankað að sér og að lyfja­fram­leið­end­urnir tryggi að a.m.k. helm­ingi skammt­anna  sé dreift til þessara landa.

 

„Bólu­setn­ingar gegn Covid-19 verða að vera fáan­legar og aðgengi­legar öllum. Stjórn­völd og lyfja­fyr­ir­tæki þurfa að tryggja það. Leið­togar heims, þar á meðal Biden Banda­ríkja­for­seti, þurfa að leggja fram millj­arða skammta og tryggja afhend­ingu vörunnar. Annars er þetta bara enn eitt tómt loforð og fleiri líf munu glatast.“

Agnès Callamard

Lestu einnig