Fréttir
19. ágúst 2024Stærstu vopnaflutningalönd heims brjóta enn og aftur á reglum vopnaviðskiptasamningsins með ólögmætum vopnaflutningum sem veldur átakanlegu mannfalli á átakasvæðum eins og í Súdan, Myanmar og á hernumdu svæðunum í Palestínu, sérstaklega Gaza, segir Amnesty International þegar liðin eru rúm tíu ár frá samþykkt samningsins.
Amnesty International hefur á þessum rúmum tíu árum frá því að vopnaviðskiptasamningurinn var samþykktur skráð og dregið fram í dagsljósið ólögmæta vopnaflutninga sem greiða leiðina fyrir brotum á mannréttindum. Það brýtur í bága við samninginn sem felur í sér öflugar lagalega bindandi alþjóðlegar reglur um alþjóðlega vopnaflutninga.
115 aðildarríki samningsins
„Vopnaviðskiptasamningurinn er fyrsti sinnar tegundar til að setja á alþjóðlega staðla til að stýra alþjóðlegum viðskiptum sem tengjast hefðbundnum vopnum og hergögnum. Lögmæti vopnaflutninga tengist nú með beinum hætti alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum.“
Patrick Wilcken, rannsakandi um hernað, öryggi og löggæslu hjá Amnesty International.
Vopnaviðskiptasamningurinn var samþykktur 2. apríl 2013 af 155 ríkjum heims. Í dag eru 115 ríki aðilar að samningnum og 27 ríki hafa skrifað undir hann. Í þessum hópi eru tíu stærstu vopnaútflutningsríki heims, að Rússlandi frátöldu, sem eiga í 90% af öllum vopnaviðskiptum heims.
„Þrátt fyrir framfarir á þessu sviði hafa fjöldi ríkisstjórna blygðunarlaust virt að vettugi reglurnar sem hefur leitt til gífurlegs mannfalls á átakasvæðum. Tími er kominn fyrir aðildarríki að virða lagalegar skyldur sínar með því að innleiða vopnaviðskiptasamninginn, banna vopnaflutning til landa þar sem vitað er að vopnin verði notuð til að fremja hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi eða hætta sé á að þau verði notuð til að fremja eða ýta undir alvarleg brot á alþjóðlegum mannréttindum eða mannúðarlögum.“
Patrick Wilcken, rannsakandi um hernað, öryggi og löggæslu hjá Amnesty International.
Ólögmætir vopnaflutningar til Ísraels
Vopnaflutningur til Ísraels er lýsandi dæmi um það hvernig aðildarríki hafa brugðist því að framfylgja vopnaviðskiptasamningnum og hvernig ríkin sem skrifað hafa undir hann hafa grafið undan markmiðum og tilgangi samningsins.
Amnesty International hefur lengi kallað eftir vopnaflutningabanni til bæði Ísraels og vopnaðra palestínskra hópa vegna brota á alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum.
Amnesty International hefur sem dæmi skráð vopn framleidd í Bandaríkjunum í fjölmörgum ólögmætum loftárásásum á Gaza, þar á meðal í tveimur ólögmætum loftárásum á heimili á Gaza þar sem 43 óbreyttir borgarar voru drepnir, 19 börn, 14 konur og 10 karlmenn. Loftárásirnar áttu sér stað 10. og 22. október 2023.
„Aðildarríki og ríki sem hafa skrifað undir samninginn, þar á meðal Bandaríkin sem útvegar Ísraelsher flest vopn, leyfa áfram vopnaflutning til Ísraels þrátt fyrir yfirgnæfandi sönnunargögn um að Ísraelsher hafi framið stríðsglæpi.“
Patrick Wilcken, rannsakandi um hernað, öryggi og löggæslu hjá Amnesty International.
Ólögmætir vopnaflutningar hafa kynt undir átök í Súdan. Síðan að átök hófust í apríl 2023 hefur mannréttindaneyðin í Súdan verið gríðarleg og alvarleg mannréttindabrot átt sér stað. Átök á milli súdanska hersins (SAF) og Rapid Support Forces (RAF) og bandamanna þeirra hafa leitt til þess að 16.650 einstaklingar hafa verið drepnir og milljónir hafa flúið heimili sín. Á heimsvísu er Súdan er með flesta einstaklinga sem eru vegalausir innan eigins lands.
Þrátt fyrir neyðina og vopnaviðskiptabann öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á Darfur-svæðið hefur Amnesty International skráð töluvert flæði vopna inn á átakasvæðin. Meðal annars vopn og hergögn frá löndum eins og Kína og Serbíu, sem eru aðildarríki að vopnaviðskiptasamningnum, og frá löndum eins og Tyrklandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem hafa skrifað undir vopnaviðskiptasamninginn. Vopn frá þessum löndum er flutt til Súdan og þaðan er sumum vopnum síðan komið til átakasvæðisins Darfur.
Myanmar flytur inn vopn að andvirði milljarð dollara
Samkvæmt sérstökum skýrslugjafa um mannréttindaástandið í Myanmar hefur herinn flutt inn vopn, vopnabúnað og efni fyrir vopn, meðal annars frá Kína, að andvirði að minnsta kosti milljarð dollara frá valdráni hersins í febrúar 2021.
„Herinn í Myanmar hefur notað þessi vopn í ítrekuðum árásum á óbreytta borgara og borgaraleg skotmörk. Skólar, trúarlegar byggingar og helstu innviðir hafa verið eyðilagðir eða orðið fyrir tjóni á þessum þremur árum þegar valdaránið átti sér stað.“
Patrick Wilcken, rannsakandi um hernað, öryggi og löggæslu hjá Amnesty International.
Frá byrjun 10. áratugar síðustu aldar hefur Amnesty International barist fyrir vopnaviðskiptasamningi í samstarfi við önnur frjáls félagasamtök.
„Nú þegar styttist í að tíu ár séu liðin frá því að vopnaviðskiptasamningurinn tók gildi verða ríki að virða samninginn til að draga úr mannlegum þjáningum strax.“
Patrick Wilcken, rannsakandi um hernað, öryggi og löggæslu hjá Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu