Fréttir
31. október 2024Amnesty International kallar eftir því í nýrri skýrslu að bílaframleiðendur greini og dragi úr hættum á neikvæðum áhrifum á mannréttindi í aðfangakeðju sinni vegna aukinnar eftirspurnar á heimsvísu eftir málmum í rafhlöður. Hætta er á þvinguðum brottflutningum, heilsutjóni vegna mengunar og að brotið sé á réttindum frumbyggja í þeim löndum sem grafa eftir þessum málmum eins og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og á Filippseyjum. Skýrslan sýnir að helstu framleiðendur rafmagnsbíla hafi ekki getað sýnt fram á að unnið sé að því að draga úr hættu á brotum á mannréttindum í aðfangakeðju þeirra.
Skýrsla Amnesty International
Í skýrslunni er notast við viðmið byggð á alþjóðlegum stöðlum til að meta 13 rafmagnsbílaframleiðendur á mannréttindaskala út frá stefnum þeirra um áreiðanleikakönnun á mannréttindum og starfsháttum sem þeir segjast fylgja.
Mannréttindaskalinn sýnir hvort bílaframleiðendur standi sig í því að sinna mannréttindaskyldum sínum. Risafyrirtæki sem framleiða rafmagnsbíla eins og BYD, Mitsubishi og Huyndai skora einna verst á mannréttindaskalanum.
„Gífurleg eftirspurn eftir þessum málmum fyrir rafhlöður í rafmagnsbíla setur gríðarlegan þrýsting á samfélög sem eiga á hættu að verða fyrir neikvæðum áhrifum frá námunum. Það er áhyggjuefni að brot á mannréttindum tengd námugreftri vegna orkuskipta eru útbreidd og það sárlega vantar viðbrögð frá iðnaðinum. Samfélög þjást vegna þvingaðra brottflutninga, heilsuvanda af völdum mengunar og erfiðleika að nálgast vatn. Með aukinni eftirspurn verða bílaframleiðendur að tryggja að mannréttindi fólks séu virt.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Mismunandi frammistaða
Mannréttindaskali Amnesty International metur frammistöðu fyrirtækja byggt á viðmiðum þar sem hæsta stigagjöfin er 90. Metið er út frá skuldbindingu á mannréttindastefnu, ferli áhættugreiningar, kortlagningu á aðfangakeðju, skýrslugjöfum og úrræðum fyrir fólk til að leita réttar síns.
Ekkert fyrirtæki skoraði hærra en 51 stig þegar áreiðaleikakönnun á mannréttindum var metin. Neðst á listanum var kínverska fyrirtækið BYD sem skoraði 11 stig af 90. Mercedes-Benz stóð sig best með 51 stig af 90.
„Þrátt fyrir einhverjar framfarir voru stigin yfir heildina litið gífurleg vonbrigði. BYD, einn stærsti bílaframleiðandinn sem er líka rafmagnsbílafyrirtækið sem er í mesta vexti, var í neðsta sæti í matinu. Birtar upplýsingar frá fyrirtækinu sýna verulegan skort á gagnsæi áreiðaleikakönnunar í aðfangakeðju þeirra í tengslum við rafhlöður.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Önnur fyrirtæki með lág stig, eins og Hyundai og Mitsubishi, veita ekki nægar upplýsingar um hvernig áreiðanleikakannanir á mannréttindum eru framkvæmdar. Þær skuldbindingar sem þessi fyrirtæki greina frá eru oft óljósar og skortur er á sönnunum um að gripið sé til áhrifaríkra aðgerða. Það sýnir að enn er langt í að þau standist alþjóðlega staðla.“
Fyrirtæki eins og Renault og General Motors sem hafa sagst skuldbinda sig til að gera áreiðanleikakönnun á mannréttindum og skora hærra geta þó takmarkað sýnt fram á að þau séu að innleiða þessar skuldbindingar í aðfangakeðju sinni. Takmarkaðar upplýsingar er að finna um áhættumat og samráð við hagsmunaaðila og skortur er á gagnsæi í aðfangakeðjunni.
„Skortur á gagnsæi í aðfangakeðju þessara fyrirtækja er alvarlegur vandi í ljósi hættunnar á að þau noti rafhlöður sem megi rekja til námugraftar eftir steinefnum, eins og kóbalti og nikkeli, þar sem mögulega er brotið á mannréttindum fólks.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Áhrif á samfélög frumbyggja
Þrátt fyrir að þörf sé á hröðum orkuskiptum úr farartækjum sem nota jarðefnaeldsneytis yfir í rafmagn til að draga hratt úr kolefnislosun og hjálpa til við að hægja á hækkun hitastigs á heimsvísu fylgir því samt sem áður fórnarkostnaður.
„Námugröftur eftir steinefnum fyrir rafmagnsbíla getur haft í för með sér gríðarlega hættu fyrir fólk og umhverfið. Fyrri rannsóknir Amnesty International sýna hvernig kóbaltiðnaðurinn er tengdur þvinguðum brottflutningum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Bílaframleiðendur verða að nýta stöðu sína til að þrýsta á alþjóðlega kaupendur steinefna að beita áhrifum sínum á námugraftar- og málmbræðslufyrirtæki í þeim tilgangi að draga úr hættu á neikvæðum áhrifum á mannréttindi.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Fyrirtæki á borð við BYD, Geely Auto, Hyundai, General Motors og Mitsubishi Motors skoruðu lægst þegar litið er til birtra upplýsinga þeirra um kortlagningu aðfangakeðju þar sem þau gefa ekki upp nákvæmar upplýsingar um aðfangakeðju sína. Þar að auki gefur BYD ekki upp nöfn á málmbræðslufyrirtækjum, hreinsunarstöðvum eða námusvæðum. Geely Auto gefur aðeins upp staðsetningar birgðasala en ekki staðsetningar námusvæða.
Einnig var skortur á gagnsæi hjá Hyundai og Mitsubishi Motors þar sem engin ítarleg gögn voru birt um kortlagningu aðfangakeðju eða námusvæði fyrir kóbalt, kopar, liþíum og nikkel. Þessi skortur á gagnsæi gerir hagsmunaaðilum erfitt fyrir að staðfesta áhrif starfsemi á nærliggjandi samfélög.
Horft fram á veginn
Öllum fyrirtækjum ber skylda til að virða mannréttindi í öllum sínum rekstri og á það líka við um þau fyrirtæki sem koma að aðfangakeðju á endurhlaðanlegum rafhlöðum. Fyrirtæki þurfa að hafa leiðbeinandi meginreglur Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi að leiðarljósi. Til að framfylgja mannréttindaskyldum sínum í samræmi við þessar meginreglur verða þau að framkvæma áreiðanleikakönnun á mannréttindum í þeim tilgangi að tilgreina, fyrirbyggja, draga úr og greina frá því hvernig þau takast á við þau neikvæðu áhrif á mannréttindi sem rekstur, vörur og þjónusta þeirra valda, stuðla að eða tengjast með beinum hætti.
„Á tímum þegar umskiptin yfir í rafmagnsbíla á alþjóðavísu er hafin af fullum þunga sem ýtir undir alþjóðlega samkeppni og opnar möguleika fyrir gífurlegan hagnað kallar Amnesty International eftir því að bílaframleiðendur leggi sig fram við að bæta áreiðanleikakönnun á mannréttindum í samræmi við alþjóðlega mannréttindastaðla.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Þrátt fyrir að sum fyrirtæki sem voru metin hafi tekið jákvæð skref til að sinna mannréttindaskyldu sinni og samræmt fyrirtækjastefnu sína við alþjóðlega mannréttindastaðla er enn langt í land. Stigahæstu fyrirtækin eins og BMW, Ford, Mercedes-Benz, Stellantis, Tesla og VW Group geta gert enn betur til þess að sýna hvernig þau eru í raun að innleiða stefnur sínar með því að greina frá því hvernig unnið er að því að draga úr neikvæðum áhrifum á mannréttindi og hvernig fólki sé tryggð raunhæf úrræði til að leita réttar sín verði það fyrir áhrifum starfsemi þeirra.
„Við köllum einnig eftir því að ríkisstjórnir styrki sínar eigin reglur um áreiðanleikakannanir fyrir fyrirtæki sem eru skráð sem hlutafélög innan þeirra landsvæðis eða eru með leyfi fyrir út- og innflutning.“
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu