Fréttir

31. október 2024

Alþjóð­legt: Þörf á umbótum samkvæmt mann­rétt­indaskala fyrir rafmagns­bíla­iðn­aðinn

Amnesty Internati­onal kallar eftir því í nýrri skýrslu að bíla­fram­leið­endur greini og dragi úr hættum á neikvæðum áhrifum á mann­rétt­indi í aðfanga­keðju sinni vegna aukinnar eftir­spurnar á heimsvísu eftir málmum í rafhlöður. Hætta er á þving­uðum brott­flutn­ingum, heilsutjóni vegna meng­unar og að brotið sé á rétt­indum frum­byggja í þeim löndum sem grafa eftir þessum málmum eins og Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó og á Filipps­eyjum. Skýrslan sýnir að helstu fram­leið­endur rafmagns­bíla hafi ekki getað sýnt fram á að unnið sé að því að draga úr hættu á brotum á mann­rétt­indum í aðfanga­keðju þeirra.

Skýrsla Amnesty International

Í skýrsl­unni er notast við viðmið byggð á alþjóð­legum stöðlum til að meta 13 rafmagns­bíla­fram­leið­endur á mann­rétt­indaskala út frá stefnum þeirra um áreið­an­leika­könnun á mann­rétt­indum og starfs­háttum sem þeir segjast fylgja.

Mann­rétt­indaskalinn sýnir hvort bíla­fram­leið­endur standi sig í því að sinna mann­rétt­inda­skyldum sínum. Risa­fyr­ir­tæki sem fram­leiða rafmagns­bíla eins og BYD, Mitsu­bishi og Huyndai skora einna verst á mann­rétt­indaskal­anum.

„Gífurleg eftir­spurn eftir þessum málmum fyrir rafhlöður í rafmagns­bíla setur gríð­ar­legan þrýsting á samfélög sem eiga á hættu að verða fyrir neikvæðum áhrifum frá námunum. Það er áhyggju­efni að brot á mann­rétt­indum tengd námugreftri vegna orku­skipta eru útbreidd og það sárlega vantar viðbrögð frá iðnað­inum. Samfélög þjást vegna þving­aðra brott­flutn­inga, heilsu­vanda af völdum meng­unar og erfið­leika að nálgast vatn. Með aukinni eftir­spurn verða bíla­fram­leið­endur að tryggja að mann­rétt­indi fólks séu virt.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Mismunandi frammistaða

Mann­rétt­indaskali Amnesty Internati­onal metur frammi­stöðu fyrir­tækja byggt á viðmiðum þar sem hæsta stiga­gjöfin er 90. Metið er út frá skuld­bind­ingu á mann­rétt­inda­stefnu, ferli áhættu­grein­ingar, kort­lagn­ingu á aðfanga­keðju, skýrslu­gjöfum og úrræðum fyrir fólk til að leita réttar síns.

Ekkert fyrir­tæki skoraði hærra en 51 stig þegar áreiða­leika­könnun á mann­rétt­indum var metin. Neðst á list­anum var kínverska fyrir­tækið BYD sem skoraði 11 stig af 90. Mercedes-Benz stóð sig best með 51 stig af 90.

„Þrátt fyrir einhverjar fram­farir  voru stigin yfir heildina litið gífurleg vonbrigði. BYD, einn stærsti bíla­fram­leið­andinn sem er líka rafmagns­bíla­fyr­ir­tækið sem er í mesta vexti, var í neðsta sæti í matinu. Birtar upplýs­ingar frá fyrir­tækinu sýna veru­legan skort á gagnsæi áreiða­leika­könn­unar í aðfanga­keðju þeirra í tengslum við rafhlöður.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Önnur fyrir­tæki með lág stig, eins og Hyundai og Mitsu­bishi, veita ekki nægar upplýs­ingar um hvernig áreið­an­leikak­ann­anir á mann­rétt­indum eru fram­kvæmdar. Þær skuld­bind­ingar sem þessi fyrir­tæki greina frá eru oft óljósar og skortur er á sönn­unum um að gripið sé til áhrifa­ríkra aðgerða. Það sýnir að enn er langt í að þau standist alþjóð­lega staðla.“

Fyrir­tæki eins og Renault og General Motors sem hafa sagst skuld­binda sig til að gera áreið­an­leika­könnun á mann­rétt­indum og skora hærra geta þó takmarkað sýnt fram á að þau séu að innleiða þessar skuld­bind­ingar í aðfanga­keðju sinni. Takmark­aðar upplýs­ingar er að finna um áhættumat og samráð við hags­muna­aðila og skortur er á gagnsæi í aðfanga­keðj­unni.

„Skortur á gagnsæi í aðfanga­keðju þessara fyrir­tækja er alvar­legur vandi í ljósi hætt­unnar á að þau noti rafhlöður sem megi rekja til námugraftar eftir steinefnum, eins og kóbalti og nikkeli, þar sem mögu­lega er brotið á mann­rétt­indum fólks.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Áhrif á samfélög frumbyggja

Þrátt fyrir að þörf sé á hröðum orku­skiptum úr farar­tækjum sem nota jarð­efna­eldsneytis yfir í rafmagn til að draga hratt úr kolefn­is­losun og hjálpa til við að hægja á hækkun hita­stigs á heimsvísu fylgir því samt sem áður fórn­ar­kostn­aður.

„Námugröftur eftir steinefnum fyrir rafmagns­bíla getur haft í för með sér gríð­ar­lega hættu fyrir fólk og umhverfið. Fyrri rann­sóknir Amnesty Internati­onal sýna hvernig kóbalt­iðn­að­urinn er tengdur þving­uðum brott­flutn­ingum í Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó. Bíla­fram­leið­endur verða að nýta stöðu sína til að þrýsta á alþjóð­lega kaup­endur steinefna að beita áhrifum sínum á námugraftar- og málmbræðslu­fyr­ir­tæki í þeim tilgangi að draga úr hættu á neikvæðum áhrifum á mann­rétt­indi.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Fyrir­tæki á borð við BYD, Geely Auto, Hyundai, General Motors og Mitsu­bishi Motors skoruðu lægst þegar litið er til birtra upplýs­inga þeirra um kort­lagn­ingu aðfanga­keðju þar sem þau gefa ekki upp nákvæmar upplýs­ingar um aðfanga­keðju sína. Þar að auki gefur BYD ekki upp nöfn á málmbræðslu­fyr­ir­tækjum, hreins­un­ar­stöðvum eða námu­svæðum. Geely Auto gefur aðeins upp stað­setn­ingar birgða­sala en ekki stað­setn­ingar námu­svæða.

Einnig var skortur á gagnsæi hjá Hyundai og Mitsu­bishi Motors þar sem engin ítarleg gögn voru birt um kort­lagn­ingu aðfanga­keðju eða námu­svæði fyrir kóbalt, kopar, liþíum og nikkel. Þessi skortur á gagnsæi gerir hags­muna­að­ilum erfitt fyrir að stað­festa áhrif starf­semi á nærliggj­andi samfélög.

Horft fram á veginn

Öllum fyrir­tækjum ber skylda til að virða mann­rétt­indi í öllum sínum rekstri og á það líka við um þau fyrir­tæki sem koma að aðfanga­keðju á endur­hlað­an­legum rafhlöðum. Fyrir­tæki þurfa að hafa leið­bein­andi megin­reglur Sameinuðu þjóð­anna um viðskipti og mann­rétt­indi að leið­ar­ljósi. Til að fram­fylgja mann­rétt­inda­skyldum sínum í samræmi við þessar megin­reglur verða þau að fram­kvæma áreið­an­leika­könnun á mann­rétt­indum í þeim tilgangi að tilgreina, fyrir­byggja, draga úr og greina frá því hvernig þau takast á við þau neikvæðu áhrif á mann­rétt­indi sem rekstur, vörur og þjón­usta þeirra valda, stuðla að eða tengjast með beinum hætti.

„Á tímum þegar umskiptin yfir í rafmagns­bíla á alþjóða­vísu er hafin af fullum þunga sem ýtir undir alþjóð­lega samkeppni og opnar mögu­leika fyrir gífur­legan hagnað kallar Amnesty Internati­onal eftir því að bíla­fram­leið­endur leggi sig fram við að bæta áreið­an­leika­könnun á mann­rétt­indum í samræmi við alþjóð­lega mann­rétt­indastaðla.“

Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Þrátt fyrir að  sum fyrir­tæki sem voru metin hafi tekið jákvæð skref til að sinna mann­rétt­inda­skyldu sinni og samræmt fyrir­tækja­stefnu sína við alþjóð­lega mann­rétt­indastaðla er enn langt í land. Stiga­hæstu fyrir­tækin eins og BMW, Ford, Mercedes-Benz, Stell­antis, Tesla og VW Group geta gert enn betur til þess að sýna hvernig þau eru í raun að innleiða stefnur sínar með því að greina frá því hvernig unnið er að því að draga úr neikvæðum áhrifum á mann­rétt­indi og hvernig fólki sé tryggð raunhæf úrræði til að leita réttar sín verði það fyrir áhrifum starf­semi þeirra.

„Við köllum einnig eftir því að ríkis­stjórnir styrki sínar eigin reglur um áreið­an­leikak­ann­anir fyrir fyrir­tæki sem eru skráð sem hluta­félög innan þeirra land­svæðis eða eru með leyfi fyrir út- og innflutning.“

 

Lestu einnig