Fréttir

27. mars 2024

Ályktun örygg­is­ráðs verður að ryðja brautina fyrir varan­legt vopnahlé

Í kjölfar samþykktar álykt­unar örygg­is­ráðs Sameinuðu þjóð­anna þar sem hvatt er til tafar­lauss vopna­hlés á meðan Ramadan [föstu­mán­uður múslima] stendur yfir sem leiðir til varan­legs  vopna­hlés ásamt tafar­lausrar og skil­yrð­is­lausrar lausnar gísla og aukins aðgangs mann­úðaraðstoðar að Gaza, lét Agnès Callamard, aðalfram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal, eftir­far­andi orð falla: 

„Þessi ályktun er löngu tímabær en til þess að takast á við hina miklu eyði­legg­ingu og draga úr þján­ingum óbreyttra borgara á Gaza er mikil­vægt að henni verði hrint í fram­kvæmd strax og hún leiði til varan­legs vopna­hlés. 

Tryggja skal varanlegt vopnahlé

Við megum engan tíma missa. Yfir­völd í Ísrael verða þegar í stað að stöðva hrotta­legar sprengjuárásir sína á Gaza og tryggja greiða leið mann­úð­ar­að­stoðar. Ísrael og Hamas og aðrir vopn­aðir hópar verða einnig að vinna að því að tryggja að vopna­hléið verði varan­legt. Gíslum verður að sleppa tafar­laust. Einnig verður að sleppa öllum Palestínu­búum, sem haldið er að geðþótta í ísra­elskum fang­elsum, þar á meðal óbreyttum borg­urum frá Gaza. 

Hætta er á hópmorði Palestínubúa á Gaza, rúmlega 32.000 einstak­lingar hafa verið drepnir, börn hafa verið svelt til bana vegna matar­skorts sem er skipu­lagður af Ísrael í yfir­vof­andi hung­urs­neyð og víðáttu­mikil svæði Gaza hafa verið gerð óbyggileg í grimmilegum sprengjuárásum Ísraels. 

Þessari ályktun verður að fylgja stefnu­breyting á póli­tískum þrýst­ingi, þar með talið tafar­laust og víðtækt vopna­sölu­bann, svo hún leiði til varan­legrar stöðv­unar á átökum og breyt­ingar á hræðilegri stöðu á Gaza til lengri tíma litið. 

„Undan­farnar vikur hefur atkvæða­greiðsla í örygg­is­ráði Sameinuðu þjóð­anna orðið að farsa­kenndum póli­tískum leik með hörmu­legum afleið­ingum fyrir óbreytta borgara þar sem fasta­full­trúar ráðsins, þar á meðal Banda­ríkin og Rúss­land, hafa misnotað neit­un­ar­vald sitt til að koma í veg fyrir drög að álykt­unum annarra ríkja nái í gegn. Alþjóða­sam­fé­lagið verður nú að leggja póli­tískan leik til hliðar og forgangsraða björgun manns­lífa með því að tryggja að þessi ályktun ryðji brautina fyrir varan­legt vopnahlé.“ 

„Banda­ríkin, sem áður höfðu beitt neit­un­ar­valdi gegn þremur álykt­unum um tafar­laust vopnahlé, ættu fyrir sitt leyti að hætta vopna­flutn­ingi til Ísraels og nota stöðu sína sem helsti banda­maður Ísraels til að fá Ísrael til að samþykkja varan­legt vopnahlé og leyfa óheftan aðgang mann­úð­ar­að­stoðar til Gaza.“ 

Lestu einnig