Skýrslur
24. apríl 2024Amnesty International varar við aðsteðjandi ógn og vendipunkti í alþjóðalögum mitt í svívirðilegum lagabrotum ríkisstjórna og fyrirtækja.
Lestu skýrsluna hér.
„Skýrsla Amnesty International varpar ljósi á sláandi mannréttindakúgun og fjölmörg brot á alþjóðalögum á tímum þar sem misrétti eykst á heimsvísu, stórveldin keppast um yfirburði og loftslagsváin stigmagnast.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Samantekt
Heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir hræðilegum afleiðingum harðnandi stríðsátaka og horfir á nánast algjört hrun alþjóðalaga samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Amnesty International um stöðu mannréttinda í 155 löndum fyrir árið 2023.
Amnesty International varar einnig við því að gervigreind ásamt áhrifum tæknirisa er líkleg til að draga enn frekar úr áhrifum réttarríkisinsog að hætta sé á að mannréttindabrot aukist til muna ef réttarríkið nær ekki að halda í við framfarir á sviði tækninnar.
„Lítilsvirðing Ísraels gagnvart alþjóðalögum er enn verri í ljósi þess að bandamenn þeirra hafa brugðist því að stöðva ólýsanlegt blóðbað á óbreyttum borgurum á Gaza. Margir bandamenn Ísraels voru í fararbroddi við uppbyggingu alþjóðlegs regluverks eftir seinni heimsstyrjöldina. Árásir Rússlands á Úkraínu ásamt fjölda vopnaðra átaka og mannréttindabrota í Súdan, Eþíópíu og Mjanmar stefna alþjóðlegu regluverki í hættu.“
Lögleysa, mismunun og refsileysi á átakasvæðum sem og annars staðar, hefur fengið að líðast vegna eftirlitslausrar notkunar á nýrri og eldri tækni sem hefur ítrekað verið beitt sem vopni af aðilum innan hersveita, stjórnmála og fyrirtækja. Á miðlum tæknirisa er kynt undir átök. Njósnahugbúnaður og eftirlitstæki eru notuð til að brjóta á grunnréttindum og frelsi og á sama tíma nota ríkisstjórnir sjálfvirka tækni til að beina spjótum sínum að jaðarhópum samfélagsins.
Í sífellt ótryggari heimi er útbreiðsla og innleiðing á tækni, eins og spunagreind (e. generative artificial intellegence), andlitsgreiningu og njósnahugbúnaði óvinur á næsta leiti sem eykur umfang brota á alþjóðalögum og mannréttindum, segir Agnès Callamard.
Á mikilvægu ári kosninga og er við stöndum frammi fyrir sífellt öflugra hagsmunapoti, sem fjármagnað er af tæknirisum, stafar okkur mikil ógn af tækniframförum án regulverks. Tækninýjungarnar geta verið nýttar til að mismuna, dreifa falsfréttum (eða misvísandi upplýsingum) og skapa sundrungu.
Óbreyttir borgarar þjást mest
Í skýrslu Amnesty International er sett fram blákalt mat á hvernig leiðtogar og stofnanir hafa gengið gegn meginreglum mannréttinda. Átök í heiminum eru að margfaldast og aðgerðir margra stórra ríkja hafa skaðað trúverðugleika marghliða samvinnu og grafið undan alþjóðlegu regluverki sem var fyrst sett á laggirnar árið 1945.
Helstu átök ársins 2023 sýna engin merki þess að þeim sé að linna. Sönnunargögn safnast upp um stríðsglæpi á sama tíma og ísraelsk stjórnvöld gera alþjóðalög að engu með árásum sínum á Gaza. Í kjölfar hryllilegra árása Hamas og annarra vopnaðra hópa þann 7. október brugðust ísraelsk yfirvöld við með miskunnarlausum loftárásum á íbúðabyggðir þar sem jafnvel heilu fjölskyldurnar eru þurrkaðar út. Þau hafa þvingað 1,9 milljónir íbúa Gaza til að flýja heimili sín og skert aðgengi að lífsnauðsynlegri mannúðaraðstoð þrátt fyrir vaxandi hungursneyð á Gaza.
Skýrslan bendir á að Bandaríkin hafa mánuðum saman beitt neitunarvaldi með ósvífnum hætti til að koma í veg fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki nauðsynlega ályktun um vopnahlé og á sama tíma hafa þau útvegað Ísrael vopn sem hafa að öllum líkindum verið notuð til að fremja stríðsglæpi. Enn halda Bandaríkin áfram að útvega þeim vopn.
Einnig er bent á fáránlegan tvískinnung Evrópuríkja, eins og Bretlands og Þýsklands, þar sem þau hafa fordæmt stríðsglæpi Rússlands og Hamas, (sem á vissulega rétt á sér) á sama tíma og þau styðja aðgerðir Ísraels og bandarískra yfirvalda í átökunum á Gaza.
Sidon, Líbanon, 13. október, 2023 (KHALED DESOUKI/AFP via Getty Images)
„Alþjóðasamfélagið hefur brugðist skyldu sinni að vernda líf þúsunda borgara, meirihluta þeirra börn, á Gaza og sýnir bersýnilega hvernig sömu stofnanir og settar voru á laggirnar til að vernda borgara og viðhalda mannréttindum gegna ekki lengur hlutverki sínu. Það sem við sáum árið 2023 staðfestir að mörg voldug ríki hafa gefið grunngildi mannúðar og algildi mannréttinda, sem tryggð eru í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, upp á bátinn.”
Agnès Callamard
Skýrslan greinir einnig frá brotum rússneskra hersveita í stríðsátökum í Úkraínu. Þar er athyglinni beint að handahófskenndum árásum á þéttbyggð íbúðahverfi og innviði eins og fyrir orku og kornútflutning ásamt beitingu pyndinga og annarrar illrar meðferðar á stríðsföngum. Ofan á það bætast umhverfisspjöll en flestir telja að rússneskar hersveitir hafi eyðilagt Kakhovka-stífluna.
Hersveit Mjanmar og aðrar hersveitir, sem tengjast stjórnvöldum, réðust einnig á óbreytta borgara og ollu dauða þúsunda óbreyttra borgara árið 2023. Hvorki rússnesk yfirvöld né herinn í Mjanmar hafa rannsakað þessi brot.
Bæði ríki hafa fengið fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning frá Kína.
Báðir stríðsaðilar í Súdan, súdanski herinn og RSF-hersveitin, hafa sýnt alþjóðlegum mannúðarlögum lítilsvirðingu með beinum og handahófskenndumárásum þar sem óbreyttir borgarar hafa verið drepnir eða særðir. Sprengjum var varpað á þéttbyggð íbúðahverfi sem leiddi til dauða 12.000 einstaklinga á árinu 2023. Stríðsátökin þar í landi hafa valdið mesta fjölda vegalauss fólks í eigin landi á heimsvísu.
Þar sem ekki sér fyrir endann á stríðsátökunum er hungursneyð yfirvofandi.
Tækni sem ýtir undir hatur, sundrungu og mismunun
Amnesty International greinir frá því að pólitískir aðilar víðs vegar um heiminn ráðast á konur, hinsegin fólk og jaðarhópa sem hafa í gegnum söguna verið gerðir að blórabögglum fyrir pólitískan ávinning. Nýrri og núverandi tækni hefur verið beitt sem vopni til að styðja við kúgandi pólitísk öfl sem dreifa misvísandi upplýsingum, etja hópum gegn hver öðrum og ráðast á minnihlutahópa.
Skýrslan greinir frá aukinni notkun á tækni sem festir í sessi mismunun. Ríki á borði við Argentínu, Brasilíu, Indland og Bretland hafa í auknum mæli beitt andlitsgreiningartækni í löggæslu á mótmælum og íþróttaviðburðum og til að mismuna jaðarhópum, þá sérstaklega flóttafólki.
Glæpsamleg notkun andlitsgreiningar var allsráðandi á Vesturbakkanum á hernumdu svæðunum í Palestínu. Ísraelsk yfirvöld notuðu þessa tækni til að takmarka ferðafrelsi og viðhalda aðskilnaðarstefnu Ísraels.
Í Serbíu var hálf-tölvustýrt velferðarkerfi innleitt sem leiddi til þess að þúsundir misstu nauðsynlega félagsþjónustu. Þetta hafði sérstaklega áhrif á róma-fólk og fólk með fötlun sem sýnir að eftirlitslaus sjálfvirkni getur stuðlað að auknu ójafnræði.
Árið 2023 afhjúpaði Amnesty International beitingu Pegasus-njósnahugbúnaðar gegn fjölmiðlafólki og aðgerðasinnum í löndum eins og Dóminíska lýðveldinu, á Indlandi og í Serbíu á meðan njósnahugbúnaður sem regluverk Evrópusambandsins nær yfir hefur verið seldur um heim allan.
Skýrslan greinir frá því hvernig margvíslegri tækni var misbeitt til að stýra landamærum og fólksflutningum nú þegar milljónir flýja átök um heim allan m.a. með lífkennamátunarkerfi, reikniritum og hugbúnaði fyrir gagnaöflun. Beiting þessarar tækni ýtir undir mismunun og kynþáttahatur og ólögmætt eftirlit með jaðarhópum.
Þá er nánast ekkert regluverk um notkun á njósnahugbúnaði þrátt fyrir langvarandi sönnunargögn um mannréttindabrot sem notkun á slíkum hugbúnaði leiðir af sér. Aðgerðasinnar hafa m.a. þurft að fara í útlegð enda eru mannréttindafrömuðir oftast sá hópur sem njósnahugbúnaði er beint gegn.
Ör þróun spunagreindar á síðasta ári hefur gert ógnina af þeim aragrúa af tækninýjungum sem þegar er til staðar, allt frá njósnabúnaði til algríms á samfélagsmiðlum, enn meiri.
Frammi fyrir örri tækniþróun hefur reglusetning að mestu staðið í stað. Þó má sjá einhver jákvæð teikn á lofti meðal Evrópuþjóða en í febrúar 2024 urðu þáttaskil þegar samevrópsk stafræn löggjöf tók gildi. Þrátt fyrir ófullkomleika löggjafarinnar hefur hún ýtt undir löngu tímabæra umræðu um regluverk í kringum gervigreind.
„Það er gífurleg gjá á milli hættunnar sem eftirlitslaus tækniþróun felur í sér og hvar við ættum standa hvað varðar regluverk og vernd í þessum málum,”
segir Agnès Callamard.
Amnesty International afhjúpaði hvernig algrím Facebook ýtti undir ofbeldi á grundvelli þjóðernis í Eþíópíu í tengslum við vopnuð átök. Þetta er grundvallardæmi um hvernig er hægt að vopnavæða tæknina í þeim tilgangi að egna samfélögum gegn hvert öðru, sérstaklega á tímum þegar óstöðugleiki ríkir.
Mannréttindasamtökin spá fyrir um að þessum vandamálum muni aðeins fjölga og þá sérstaklega í kringum kosningar þar sem viðskiptalíkön stærstu samfélagsmiðlanna, eins og Facebook, Instagram, TikTok og Youtube byggir á eftirliti með fólki og virkar sem hvati fyrir mannréttindabrot í tengslum við kosningar.
Kosningar
Í nóvember fara forsetakosningar fram í Bandaríkjunum en þar hefur mismunun, áreitni og ofbeldi aukist á samfélagsmiðlum þá sérstaklega gagnvart jaðarhópum, þeirra á meðal hinsegin fólki. Ógnandi efni sem sett er fram gegn þungunarrofi hefur einnig aukist.
Um milljarður fólks mun ganga til atkvæðagreiðslu í kosningum í Indlandi í ár þar sem árásum á friðsama mótmælendur hefur fjölgað og kerfisbundin mismunun gegn trúarlegum minnihlutahópum á sér stað.
Árið 2023 afhjúpaði Amnesty International að njósnahugbúnaður hafi verið notaður til að herja á áberandi og þekkt fjölmiðlafólk í landinu og í víðara samhengi er tæknin orðin að pólitískum vígvelli.
„Þetta er uggvænleg hugsýn á það sem koma skal nú þegar tækniframþróunin er mun örari en það sem kallar á ábyrgðarskyldu.”
Agnès Callamard
„Stjórnmálafólk hefur lengi misnotað orðræðuna „við gegn hinum“ til að vinna sér atkvæði og hafa að engu lögmætar spurningar um efnahagsástandið og afkomuótta heima fyrir. Við höfum orðið vitni að því hvernig eftirlitslaus tækni eins og andlitsgreining hefur fest mismunun í sessi. Þetta, ásamt viðskiptalíkani tæknirisanna, gengur út á eftirlit sem hellir olíu á eld haturs og gerir þeim sem hafa illan hug kleift að afmennska og ýta undir hættulega orðræðu til að styrkja vald sitt eða skoðanakannanir.”
Agnès Callamard
Fordæmalaus alþjóðleg liðsöfnun
„Við höfum orðið vitni að því hvernig gjörðir valdamikilla ríkisstjórna og fyrirtækja hafa kastað okkur dýpra í veröld óreiðu án skilvirkra reglna, þar sem vægðarlaus gróðrarhyggja byltingarkenndra tæknifyrirtækja, án skilvirks regluverks, er orðin að víðtekinni venju. En á meðan margar ríkisstjórnir hafa brugðist þeirri skyldu sinni að fylgja alþjóðalögum þá höfum við séð aðrar kalla eftir því að alþjóðastofnanir komi meginreglum réttarríkisins í framkvæmd. Og þar sem leiðtogar heimsins hafa brugðist þeirri skyldu sinni að virða mannréttindi höfum við séð fjölda fólks safnast saman í kröfugöngum og á mótmælum til að kalla eftir bjartari framtíð.”
Agnès Callamard
Átökin á milli Ísrael og Hamas voru kveikjan að hundruðum mótmæla um heim allan. Fólk krafðist vopnahlés til að binda enda á gífurlegar þjáningar Palestínubúa á Gaza, auk lausnar allra þeirra sem eru í gíslingu Hamas samtakanna og annarra vopnaðra hópa, löngu áður en margar ríkisstjórnir hófu upp raust sína.
Annars staðar flykktist fólk á götur út í Bandaríkjunum, El Salvador og Póllandi til að krefjast réttarins til þungunarrofs.
Vítt og breitt um heiminn sameinaðist ungt fólk í loftslagsverkfalli (e. Fridays for Future) til kalla eftir því að horfið verði frá vinnslu jarðefnaeldsneytis í sanngjörnum skrefum en á skjótan hátt.
Á COP28 var samþykkt að hætta notkun jarðefnaeldsneytis en þetta er í fyrsta sinn sem minnst er á jarðefnaeldsneyti í COP ákvörðun.
Óþreytandi baráttustarf leiddi einnig til fjölda mikilvægra mannréttindasigra á árinu 2023. Í framhaldi af #MeToo byltingunni í Taívan og baráttu annarra óháðra félagasamtaka fyrir því að uppræta kynferðislegt ofbeldi á netinu, samþykkti ríkisstjórn Taívan breytingar á löggjöf landsins um kynferðisofbeldi.
Í framhaldi af margra ára baráttu voru fjórir mannréttindafrömuðir, þau Taner Kılıç, İdil Eser, Özlem Dalkıran og Günal Kurşun, sem voru ákærð í júlí 2020 á grundvelli órökstuddra saka, loksins sýknuð í Tyrklandi.
Aðgerðasinninn Matiullah Wesa frá Afganistan sem barðist fyrir réttinum til menntunar var loks leystur úr haldi í október eftir margra mánaða baráttu fyrir lausn hans. Hann varði næstum sjö mánuðum í fangelsi fyrir að verja rétt stúlkna í heimalandi sínu til menntunar og fyrir að gagnrýna stefnu Talíbana um að banna stúlkum að leita sér framhaldsmenntunar.
“Rétturinn til að mótmæla er nauðsynlegur til að varpa ljósi á mannréttindabrot og skyldur þjóðarleiðtoga. Einstaklingar um heim allan hafa gert það morgunljóst að virða verður mannréttindi; skyldan hvílir á ríkisstjórnum að sýna að þær eru að hlusta.”
Agnès Callamard
„Miðað við hversu slæmt ástand mála er á heimsvísu þá er gífurlega mikilvægt að grípa til aðgerða til að blása nýju lífi í þær alþjóðastofnanir sem ætlað er að standa vörð um mannkynið. Stíga verður skref til að ráðast í úrbætur á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þannig að fastaríkin geti ekki beitt neitunarvaldi sínu óhindrað til að koma í veg fyrir verndun almennra borgara og til að styrkja landfræðileg og stjórnmálaleg bandalög sín. Ríkisstjórnir heims verða einnig að taka öflug lagaleg skref til að takast á við þær hættur og þann skaða sem hlýst af gervigreind.”
Agnès Callamard
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu