Skýrslur
29. apríl 2025Ársskýrsla Amnesty International, (e. „State of the World’s Human Rights“), um stöðu mannréttinda í 150 löndum lýsir ógn við áratuga vinnu við að byggja upp og efla algildi mannréttinda um allan heim.
Afturför í mannréttindum
„Ár eftir ár höfum við varað við afturför í mannréttindum. En atburðir síðustu 12 mánuða, ekki síst hópmorð Ísraels á Palestínubúum á Gaza í beinni útsendingu, hafa sýnt hversu grimmilegur heimurinn getur verið fyrir svo margt fólk þegar valdamestu ríki heims hunsa alþjóðalög og virða alþjóðastofnanir að vettugi. Á þessum sögulegu tímamótum, þegar valdboðsstefna margfaldast í lögum og framkvæmd í þágu örfárra, verða ríkisstjórnir og borgaralegt samfélag að vinna af hörku til að leiða mannkynið aftur á öruggari stað.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Ársskýrslan greinir einnig frá grimmilegum og útbreiddum aðgerðum gegn andófi, stigmagnandi og hömlulausum vopnuðum átökum og bakslagi í réttindum farandfólks, flóttafólks, kvenna, stúlkna og hinsegin fólks.
Alþjóðlegur viðsnúningur er nauðsynlegur ef stöðva á þessa þróun.
Á árinu 2024 jókst sárafátækt og ójöfnuður á heimsvísu vegna verðbólgu, lélegs regluverks fyrirtækja og hækkandi skulda, á meðan stjórnvöld notuðu oft útlendingahatur til að kenna innflytjendum um samfélagsleg vandamál. Auður milljarðamæringa jókst jafnvel þegar Alþjóðabankinn varaði við því að nýta ekki tækifæri til að draga úr fátækt.
Valdboðsstefna og græðgi stórfyrirtækja
Fyrstu 100 dagar Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna einkennast af vanvirðingu fyrir mannréttindum. Aðgerðir Trumps grafa undan mannréttindum og ýta undir skaðlega þróun sem við höfum þegar séð eiga sér stað í heiminum og stofnar lífi milljarða í hættu.
„Trump-áhrifin“ ýta mannkyninu enn hraðar inn í grimmilegt tímabil sem einkennist af valdboðsstefnu, refsileysi, hömlulausu valdi og græðgi stórfyrirtækja.
Ríkjum heims hefur mistekist að setja á regluverk í kringum nýja tækni og þar af leiðandi eykst mismunun og ójöfnuður vegna misnotkunar á gervigreind og eftirlitstækjum. Að því er sagt er hefur ríkisstjórn Trump hvatt tæknifyrirtæki til að slaka á reglum og þar með að leyfa hatursorðræðu og rangfærslum að viðgangast.
„Á fyrstu hundrað dögum eftir að Trump tók við sínu öðru kjörtímabili hefur hann virt mannréttindi algjörlega að vettugi. Ríkisstjórn hans hefur beitt sér af ásettu ráði gegn mikilvægum stofnunum og verkefnum í Bandaríkjunum og á alþjóðavettvangi sem vinna að því að gera heiminn okkar öruggari og réttlátari. Allsherjarárás hans gegn alþjóðasamvinnu, alþjóðlegri vernd, kynþátta– og kynjaréttlæti, alþjóðlegri heilsu og lífsnauðsynlegum aðgerðum í loftslagsmálum eykur þann mikla skaða sem þessar meginreglur og stofnanir hafa þegar orðið fyrir og hvetur enn frekar aðra leiðtoga og hreyfingar sem berjast gegn mannréttindum til að taka þátt í árás hans.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Tjáningarfrelsið
Skýrslan lýsir því hvernig stjórnvöld um allan heim hafa í auknum mæli skert tjáningarfrelsið, bælt niður andóf og sett á lög sem beinast gegn aðgerðasinnum.
Mannréttindafrömuðir, umhverfissinnar og mótmælendur standa frammi fyrir fangelsisvist og ofbeldi, þar sem skelfilegir atburðir hafa átt sér stað í löndum eins og Bangladess, Mósambík, Tyrklandi og Suður-Kóreu.
Mótmæli í Mósambík – ALFREDO ZUNIGA © AFP via Getty Images
Vopnuð átök
Stríðsglæpir og önnur alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarlögum jukust á meðan vopnuð átök stigmögnuðust og líf milljóna einstaklinga hafa verið lögð í rúst. Skýrslan greinir frá mannréttindabrotum á Gaza, Úkraínu, Súdan og Mjanmar og afskiptaleysi alþjóðasamfélagsins.
Róhingjar fylgjast með eldsvoða í flóttamannabúðum í Cox Bazar í Bangladess þar sem milljónir Róhingja búa eftir að hafa flúið heimili sín í Mjanmar vegna glæpa hersins gegn mannúð. © AFP / Getty Images
Söguleg skýrsla Amnesty International sem kom út í desember 2024 greindi frá því að Ísrael fremur hópmorð á Palestínubúum á Gaza og að aðskilnaðarstefna og ólöglegt hernám á Vesturbakkanum verður sífellt ofbeldisfyllra. Á sama tíma drap Rússland fleiri óbreytta borgara í Úkraínu árið 2024 en árið áður og hélt áfram að eyðileggja borgaralega innviði og pynda einstaklinga í haldi.
Gaza borg 11. desember, 2024. © AFP / licensors
Loftlagsváin
Skortur á viðbrögðum stjórnvalda við loftslagsvánni, vaxandi ójöfnuður og hömlulaust vald stórfyrirtækja leiðir til dapurlegri framtíðar komandi kynslóða.
COP29 var stórslys, þar sem metfjöldi hagsmunavarða jarðefnaeldsneytafyrirtækja (e. fossil fuel lobbyists) tók þátt í ráðstefnunni og kom í veg fyrir framvindu í réttlátum orkuskiptum og ríkari lönd þvinguðu fátækari ríki til að samþykkja fáránlega loftslagsfjármögnunarsamninga.
Ákvörðun Trump Bandaríkjaforseta um að yfirgefa Parísarsamkomulagið og tilvitnun hans „drill, baby drill“ ýtir undir vandamálið og gæti hvatt önnur ríki til að fylgja í kjölfarið.
Frumbyggjar í Ekvador mótmæla gasbrunum í Amazon-skógi.
Kven- og hinsegin réttindi
Öryggissveitir á götum Írans að framfylgja lögum um höfuðslæðu. © Private
Konur, stúlkur og hinsegin fólk standa höllum fæti. Talíbanar skertu enn frekar réttindi kvenna á almannafæri á meðan írönsk yfirvöld hertu grimmilegar aðgerðir sínar gegn þeim sem fylgja ekki lögum um höfuðslæðu. Hópar kvenna sem leituðu að týndum ástvinum í Mexíkó og Kólumbíu stóðu frammi fyrir alls kyns hótunum og árásum.
Í mörgum löndum, þar á meðal Malaví, Malí og Úganda, voru tekin skref í átt að því að gera samneyti samkynja einstaklinga refsivert og Trump-stjórnin hefur ýtt undir kynjamisrétti með fjölda aðgerða.
Mikilvægi alþjóðlegs réttlætis
Þrátt fyrir vaxandi andstöðu í valdamikilla ríkja heims, þar á meðal refsiaðgerðir ríkisstjórnar Trump gegn Alþjóðlega sakamáladómstólnum, Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur gefið út handtökuskipanir á hendur embættismönnum í Ísrael, Gaza, Líbýu, Myanmar og Rússlandi, á meðan Sameinuðu þjóðirnar hafa stigið skref í átt að sáttmála um glæpi gegn mannúð. Filippseyjar fylgdu einnig handtökuskipan Alþjóðlega sakamáladómstólsins og handtóku Rodrigo Duterte, fyrrverandi forseta, fyrir glæpi gegn mannúð.
Alþjóðadómstóllinn (ICJ) gaf út þrjár bráðabirgða fyrirskipanir í málinu sem Suður-Afríka höfðaði gegn Ísrael samkvæmt hópmorðssamningnum og gaf út álit þar sem lýst er yfir að hernám Ísraels á palestínsku landsvæði, þar á meðal Austur-Jerúsalem, sé ólöglegt.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti einnig ályktun þar sem skorað var á Ísrael að hætta hernámi sínu.
„Þrátt fyrir erfiðar áskoranir er skerðing mannréttinda langt frá því að vera óumflýjanleg. Sagan sýnir okkur að hugrakkt fólk hefur sigrast á valdboðsstefnu. Árið 2024 kaus fólk ekki þá leiðtoga sem skerða réttindi og milljónir um allan heim hófu upp raust sína gegn óréttlæti. Svo það er á hreinu að sama hver stendur í vegi fyrir okkur, verðum við og munum við halda áfram að standa upp gegn valdboðsstefnu og gróðastjórnun sem reynir að svipta fólk mannréttindum. Okkar öfluga hreyfing mun ávallt sameinast í þeirri sameiginlegu sýn að mannleg reisn og mannréttindi gildi fyrir alla.“
Agnès Callamard
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu