Skýrslur

6. febrúar 2020

Asía: Ný kynslóð aðgerða­sinna berst gegn kúgun

Bylgja mótmæla víðs­vegar í Asíu er leidd af ungu fólki sem berst gegn aukinni kúgun og skerð­ingu á tján­ingar- og funda­frelsi samkvæmt ársskýrslu Amnesty Internati­onal um ástand mann­rétt­inda í Asíu og Kyrra­hafs­svæðinu árið 2019.

Í ársskýrsl­unni er ítarleg greining á þróun mann­rétt­inda í 25 löndum á svæðinu og hvernig ný kynslóð aðgerða­sinna hefur risið upp gegn harka­legum aðgerðum stjórn­valda.

Hér er hægt að skoða ástand mann­rétt­inda eftir löndum á svæðinu.

„Árið 2019 var ár kúgunar í Asíu en einnig andófs. Þegar stjórn­völd víðs­vegar um heims­álfuna reyndu að skerða grund­vallar­frelsi barðist fólk gegn því og þar er ungt fólk í forystu,“

segir Nicholas Bequ­elin, fram­kvæmda­stjóri Austur-og Suðaustur-Asíu­deildar Amnesty Internati­onal.

Mótmæli í Hong Kong breiðast um heiminn

Kína og Indland, stærstu ríki Asíu, gerðu augljósa atlögu gegn mann­rétt­indum síðast­liðið ár. Stjórn­völd í Kína studdu frum­varp um framsal frá Hong Kong sem hefði þýtt að kínversk stjórn­völd hefðu vald til að fram­selja grunaða einstak­linga til megin­lands Kína. Það leiddi til mótmæla að stærð­ar­gráðu sem á sér ekki fordæmi á svæðinu.

Allt frá júní síðast­liðnum hafa íbúar Hong Kong mótmælt reglu­lega á götum úti þrátt fyrir að standa frammi fyrir harka­legum aðgerðum lögreglu, þar á meðal tilefn­is­lausri beit­ingu tára­gass, geðþótta­hand­tökum, barsmíðum og illri meðferð í varð­haldi.

Í bylgju mótmæla í Indlandi fordæmdu millj­ónir einstak­linga ný lög sem mismuna gegn múslimum. Í Indó­nesíu safn­aðist fólk saman gegn lögum sem ógnuðu almennu frelsi. Í Afgan­istan hættu mótmæl­endur lífi sínu til að krefjast þess að langvar­andi átök í landinu yrðu stöðvuð. Í Pakistan bauð frið­sama hreyf­ingin Pashtun Tahaffuz stjórn­völdum birginn þegar þau mótmæltu þving­uðum manns­hvörfum og aftökum án dóms og laga.

Harka­legar aðgerðir gegn mótmælum

Stjórn­völd beittu iðulega refsi­að­gerðum gegn frið­sömum mótmæl­endum:

 • Mótmæl­endur voru hand­teknir og fang­els­aðir í Víetnam, Laos, Kambódíu og Tælandi í harka­legum aðgerðum stjórn­valda í Suðaustur-Asíu.
 • Í Indó­nesíu varð tölu­vert mann­fall af völdum lögreglu sem beitti óhóf­legu valdi við að bæla niður mótmæli. Lögreglan hefur enn ekki verið dregin til ábyrgðar.
 • Í Pakistan og Bangla­dess var gerð atlaga að aðgerða­sinnum og fjöl­miðla­fólki með ströngum lögum sem skerða tján­ing­ar­frelsi og refsa fyrir gagn­rýni á netinu.
 • Lögregla í Hong Kong beitti skeyt­ing­ar­lausum aðferðum og að geðþótta, þar á meðal pynd­ingum í varð­haldi, til að kæfa niður mótmæli. Kröfum um ítar­lega rann­sókn á fram­ferði lögreglu hefur ekki verið mætt.

Þjóð­ern­is­hyggja bitnar á minni­hluta­hópum

Í Kína og Indlandi var óttinn við andspyrnu á sjálf­stjórn­ar­svæðum nógur til þess að stjórn­völd beittu sér að fullri hörku gegn minni­hluta­hópum sem voru taldir ógn við þjóðarör­yggi. 

Í Xinanjiang í Kína hafa allt að milljón Úígúrar og aðrir minni­hluta­hópar, sem eru að mestu múslimar, verið í nauð­ung­ar­haldi  í „endur­mennt­un­ar­búðum gegn ofstæki.“

Kasmír, eina ríki Indlands þar sem meiri­hlutinn er múslimar, missti stöðu sína sem sjálf­stjórn­ar­svæði og stjórn­völd settu á útgöngu­bann, lokuðu á samskipta­leiðir og hand­tóku póli­tíska leið­toga.

Á Sri Lanka braust út ofbeldi gegn múslimum í kjölfar spreng­inga sem áttu sér stað á páskadag.

Á Filipps­eyjum hélt Rodrigo Duterte forseti landsins áfram uppi grimmd­ar­legri stefnu í svokölluðu stríði gegn vímu­efnum.

Á sama tíma hefur svívirðileg stefna Ástr­alíu um varð­hald utan land­stein­anna valdið líkam­legum og andlegum þján­ingum flótta­fólks og umsækj­enda um alþjóð­lega vernd sem eru í haldi á eyjunum Naúrú, Manus og Papúa Nýju-Gíneu.

Fram­farir þrátt fyrri mótlæti

Þrátt fyrir refsi­að­gerðir gegn mótmæl­endum varð einnig vart við fram­farir á svæðinu árið 2019:

 • Í Taívan var hjóna­band samkyn­hneigðra lögleitt eftir þrot­lausa baráttu aðgerða­sinna.
 • Á Sri Lanka náðu lögfræð­ingar og aðgerða­sinnar árangri í baráttu sinni gegn því að aftökur hæfust á ný.
 • Brúnei neyddist til að draga til baka áform um fram­fylgni refs­ingar vegna laga um hjúskap­ar­brot og kynmök milli karl­manna með grýt­ingum.
 • Í Malasíu fóru fram rétt­ar­höld yfir fyrrum forsæt­is­ráð­herra landsins Najib Razak vegna spill­inga­máls þar sem hann bar vitni í fyrsta sinn.
 • Pakistönsk stjórn­völd lofuðu að takast á við lofts­lags­breyt­ingar og loft­mengun.
 • Í fyrsta sinn voru tvær konur skip­aðar dómarar í hæsta­rétti Maldív­eyja.
 • Máttur mótmæla í Hong Kong leiddi til þess að stjórn­völd í Kína drógu til baka frum­varp sitt um framsal. Baráttan heldur þó áfram fyrir rétt­læti vegna harka­legra aðgerða gegn mótmæl­endum í Hong Kong.

 

„Mótmæl­endur víðs­vegar í Asíu voru brotnir en ekki bugaðir árið 2019. Þeir mættu hindr­unum en voru ekki þagg­aðir niður. Samstaða þeirra sendi skilaboð um andstöðu gegn stjórn­völdum sem brjóta enn á mann­rétt­indum og reyna að herða vald sitt enn frekar,“segir Nicholas Bequ­elin að lokum.

Ársskýrsluna má lesa hér í heild sinni

 • Ársskýrslan nær yfir 25 lönd í Asíu og Kyrra­hafi fyrir árið 2019
 • Ungir mótmæl­endur bregðast við aukinni kúgun
 • Varð­hald, hand­tökur og dauðs­föll í harka­legum aðgerðum stjórn­valda gegn mótmæl­endum
 • Mótmæli gífur­lega mikilvæg til að tryggja tíma­móta­sigra fyrir mann­rétt­indi

Lestu einnig